Næturfundir o.fl.
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Nú er meira en sólarhringur liðinn frá því að frestað var umræðu um þá till. til þál. sem hugmyndin er að fara að ræða nú og ég átta mig satt að segja ekkert á þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð á Alþingi. Við höfum hér verið í umræðu í þrjá tíma röska, á fjórða tíma um skýrslu frá viðskrh. um vaxtamál. Þessi umræða, sem hálf ríkisstjórnin hefur tekið þátt í og margir ráðherrar tvívegis, hefur verið látin hafa algeran forgang fram yfir mál sem ríkisstjórnin ber fram, till. til þál. um samninga um álver í Vatnsleysustrandarhreppi. Hér keppist meira en hálf ríkisstjórnin við það að ræða um vaxtamál og vaxtastig og komið fram á nýjan dag.
    Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum gripið var til þess í gær að fara að fresta umræðu í stað þess að draga þá ráðherra hingað til fundar á Alþingi sem óskað var eftir að væru hér. Mér sýnist að þetta beri augljósan vott um það að áhugi ríkisstjórnarinnar á því að koma þessu áhugamáli hæstv. iðnrh. áfram hér í umræðu á þinginu virðist vera mjög takmarkaður. En auðvitað reynir á það núna í framhaldinu hvort þessi áhugi er fyrir hendi ef á að fara að ræða þetta mál nú á nýjum degi. Það mun sýna sig í því hvort öll ríkisstjórnin verður viðstödd umræðuna sem á að fara að hefjast hér og tryggir þar með eðlilega þátttöku af sinni hálfu í þessari umræðu og tekur væntanlega fullan þátt í henni ekkert síður en um skýrslu um vaxtamál, sem skiptir ekki að mínu mati mjög miklu máli hvort er rædd eða órædd. Það var reyndar þingflokkur Sjálfstfl. sem óskaði eftir þessari skýrslu og það er kannski ekkert óeðlilegt að það sé orðið við þeirri ósk og skýrslan rædd, enda kannski alveg nógur tími hér fram undan. Það hlýtur að vera að ríkisstjórnin hafi tryggt það að hér sé hægt að halda þinghaldi áfram í einhverjar vikur í viðbót til þess að fjalla um þau mörgu mál sem hér eru órædd og ólokið.
    Við hljótum að treysta því þegar verið er að taka hér mál fyrir á nýjum degi, ekkert minna mál en till. til þál. frá hæstv. iðnrh., að það gefist góður tími til þess að fjalla um þetta stóra mál sem hér er verið að taka á dagskrá. Mál sem mun hafa mikil áhrif á fjárfestingu í landinu og svigrúm í efnahagslífinu, aðstöðu byggðanna og annað á öllu næsta kjörtímabili. Við erum því í raun að tala um að taka hér á dagskrá mál sem verður meira ráðandi en nokkuð annað á öllu næsta kjörtímabili ef farið verður að tillögum hæstv. iðnrh. og samningaaðilarnir, sem ráðherrann hefur verið að tala við, bíta á agnið, sem virðist nú vera býsna óljóst ef lesa má þau gögn sem nýlega hafa verið framreidd. Vissulega ætla ég ekki að hafa á móti því að þetta mál sé tekið hér til umræðu og rætt fram eftir degi, sem nú er nýhafinn, og kannski þann dag allan. Enda veitir ekki af að nota tímann. Það á að kjósa skilst mér þann 20. apríl nk. Ég skil ekki þann seinagang og það verklag sem hér er uppi haft á Alþingi að hér er búið að fresta umræðu um þetta mál í heilan sólarhring og vel það. Hæstv. viðskrh. má sitja undir því að hér sé verið að þylja upp

umræðu um vexti og hálf ríkisstjórnin og hann sjálfur tekur þátt í þessu. Það er jafngott að hæstv. ráðherrar sýni það að þeir hafi jafnmikinn áhuga á því máli sem nú á að fara að taka til umræðu, því varla getum við þingmenn farið að leggja það á okkur að standa hér í umræðum ef hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn ætla að fara að verma bólið.
    Ég treysti því að ef nú á að taka þetta mál á dagskrá verði kallað á þá ráðherra sem eru ekki mættir til þingfundar. En þeir auðvitað blífi hér væntanlega sem eru viðstaddir. Þeir eru hér fimm talsins þessa stundina og kannski fleiri í þinghúsi. Ég skora á hæstv. forseta að tryggja það að hér gefist það ráðrúm sem þarf til að ræða þetta stórmál sem verður auðvitað ekki útrætt á einhverjum klukkustundum eða dögum. Menn þurfa að fara yfir það mál sem mestu mun ráða um framvindu í landinu ef samið verður um það. Til þess verður Alþingi auðvitað að taka sér tíma. Það getur verið dýrkeypt að gera samninga af því tagi sem hér er lagt upp með. Það eru mismunandi skoðanir á því og menn þurfa auðvitað að bera saman bækurnar um þetta. Ég vil endilega hvetja hæstv. forseta til að tryggja að hér verði langur og öflugur þingfundur með alla ríkisstjórnina viðstadda og við höldum áfram umræðu um þetta mál fram eftir þessum degi og næsta dag allan og næstu daga eftir því sem þörf krefur.