Næturfundir o.fl.
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti gerir sér nú ekki alveg ljóst hvernig á að svara ræðu sem þessari. Þó skal forseti reyna að taka meginatriði þessa máls í réttri röð.
    Á síðasta þingdegi fyrir jól lofaði forseti því að hér færi fram, áður en þingi lyki og raunar skömmu eftir að þing kæmi saman, að eindreginni ósk hv. 6. þm. Norðurl. e., ítarleg umræða um vaxtamál. Forseti gerði það með vilja að bíða eftir að svar kæmi við beiðni um skýrslu sem þá lá fyrir. Þegar sú skýrsla var komin, og raunar var þess eindregið óskað af hv. þm. Sjálfstfl. að umræður færu fram um skýrsluna, kom ekki annað til greina en að verða við því. Það er ekki hlutverk forseta að meta áhugasvið manna. Forseti hyggur að allmargir Íslendingar hafi töluverðan áhuga á vaxtamálum og forseta er jafnkunnugt um að fjölmargir Íslendingar hafa áhuga á samningum um álver.
    Starf forseta er að reyna að mismuna ekki hv. þm. og semja um framgang mála og það mun forseti gera án aðstoðar hv. 2. þm. Austurl. Forseti mun ekki undir neinum kringumstæðum krefjast þess að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar komi hér nú kl. korter fyrir eitt. Hér eru fimm hæstv. ráðherrar staddir og þeir hljóta að vera fullfærir um að hlýða á ræðu þeirra hv. þm. sem hér munu taka til máls.
    Þá vill forseti benda á um hvað sú þáltill. er sem hér er á dagskrá. Hún er um það að haldið verði áfram viðræðum um kaup á jarðnæði fyrir álverið og höfn vegna þess í samvinnu við Vatnsleysustrandarhrepp og jafnframt að halda skuli áfram samningaviðræðum um byggingu og rekstur álvers o.s.frv. Síðan segir: ,,Þegar samkomulag hefur tekist um orkuverð og mengunarvarnir skulu niðurstöður lagðar fyrir Alþingi.`` Þess vegna er það ekki ætlun forseta, eða forseti hafði a.m.k. ekki gert ráð fyrir því, að nú þyrfti að fara yfir allt sviðið varðandi þetta mál. Hv. 2. þm. Austurl. hefur þegar látið þau orð falla hér í þingsölum að engu máli skipti hvort þessi tillaga verði samþykkt eða ekki.
    Forseti telur því ekki ástæðu til með nokkurri skynsemi að menn þurfi að setja á langar ræður um þetta. Menn geta haft misjafnar skoðanir á því hvort samningaviðræðum skuli haldið áfram en með tilliti til þess að þingi er að ljúka nú í vikunni þá hljóta hv. þm. að virða það. Það sem forsetar þingsins eru að gera þessa dagana er að reyna að semja við alla stjórnmálaflokka sem hér eiga fulltrúa á hinu háa Alþingi um framgang mála. Forseti getur upplýst að fundur heldur auðvitað áfram í nótt, en ítrekar þó að þetta er fyrsti næturfundur þessa þings. Forseti mun þess vegna halda þessum fundi áfram eins og ákveðið hefur verið. Og hefjast nú umræður um samningaviðræður um nýtt álver.