Samningar um álver
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér þáltill. sem fjallar um það að hv. Alþingi ætlar sér ekki, ef samþykkt verður, að koma í veg fyrir að hæstv. ráðherra haldi áfram samningaviðræðum um byggingu og rekstur álvers og hann geti haldið áfram viðræðum um kaup á jarðnæði fyrir álverið og hafnargerð í samvinnu við Vatnsleysustrandarhrepp. Og síðan segir, sem liggur nú nokkuð í augum uppi, að þegar samkomulag hafi tekist um orkuverð og mengunarvarnir skuli niðurstöður lagðar fyrir Alþingi.
    Það má segja að það mál sem hér er til umræðu sé mál hinna miklu loforða en heldur lítilla niðurstaðna. Sumir kalla þetta mál söguna endalausu. Ástæðan fyrir því að þetta mál hefur fengið þennan svip er sú að hæstv. iðnrh. hefur með yfirlýsingagleði sinni sífellt verið að stofna til eftirvæntingar. Stundum hefur honum tekist svo vel upp að æsa þjóðina að heilu landshlutarnir hafa talið sig bera skarðan hlut frá borði þar sem þeir töldu nánast öruggt að næsta álver lenti í þeirra höndum. Þetta gerðist þegar staðarvalið virtist á tímabili vera á nokkurs konar uppboði.
    Eins og fram kemur í greinargerð með þessari tillögu þar sem vísað er til yfirlýsinga sem gefnar voru í lok fundar hæstv. iðnrh. og aðalforstjóra Atlantsálsfyrirtækjanna í sl. mánuði, þá segir í lok yfirlýsingarinnar að mikilvægt sé að fram komi á Alþingi frv. til heimildarlaga á yfirstandandi þingi til að tryggja lagalegan ramma verkefnisins. Ég endurtek, að mikilvægt sé að fram komi á Alþingi frv. til heimildarlaga til að tryggja lagalegan ramma verkefnisins.
    Þetta þýðir, að ég held, á mæltu máli að ætlunin hafi verið að leggja fram heimildarlög á yfirstandandi þingi en frá því hafi síðan verið horfið af einhverjum ástæðum og mun ég víkja að því síðar í mínu máli.
    Það er auðvitað ljóst að það eru lögin sem hafa þýðingu, hvort heldur það eru lánsfjárlög með heimildum fyrir hæstv. ríkisstjórn eða sérstök lög sem fjalla um þetta málefni. Þáltill. sem slík segir harla lítið því allt sem í henni stendur er hægt að gera án þess að þingið samþykki sérstaka þál. þar að lútandi.
    Í greinargerð með þáltill. er vikið að tveimur heimildum sem væntanlega eiga að fara inn í lánsfjárlög sem verða til afgreiðslu nú áður en þinglausnir eiga sér stað. Annars vegar þarf heimild til að veita Vatnsleysustrandarhreppi lán til að kaupa jarðnæði fyrir nýtt álver og hins vegar lántökur fyrir Landsvirkjun vegna undirbúnings virkjana. Það er frá því að segja, og það hefur breyst frá því í gær þegar þetta mál var örlítið til umræðu í Sþ., að hv. fjh. - og viðskn. Nd. hefur fundað. Erindi þau sem hér eru nefnd liggja fyrir nefndinni en fram kom af hálfu stjórnarliðsins að ekki virðist enn vera fullt samkomulag um texta þessarar heimildargreinar. Þetta er athygli vert vegna þess að ekki var annað vitað en hæstv. ríkisstjórn hefði þá strax náð samkomulagi um þetta mál og sú þáltill. sem hér er til umræðu væri stjtill. en ekki flutt af hæstv. ráðherra einum.

    Það er óþarfi, virðulegi forseti, að rifja upp í löngu máli allt það sem sagt hefur verið um þetta mál af hálfu ýmissa hæstv. ráðherra. Þó er ekki hægt að komast hjá því að rifja það upp, ekki síst vegna þess að það kom fram í Þjóðviljanum um síðustu helgi og var ítrekað þar, að hæstv. landbrh. sagði í viðtali á sínum tíma orðrétt, með leyfi forseta: ,,Við samþykkjum ekki álver á Keilisnesi.`` Þetta er rifjað upp í Þjóðviljanum laugardaginn 9. mars sl. á sömu síðu og nýja flokksmerkið er auglýst undir kjörorðinu: Flokkur sem getur --- fólk sem þorir. Þetta er merki sem er rauð sól, rísandi sól. Nú hefur ýmsu grænu verið blandað saman við rauða litinn til þess að sýna, eins og ég held að formaður Alþb. hafi orðað það, að flokkurinn vildi benda á hversu umhverfissinnaður hann væri. En á þessari sömu síðu er það rifjað upp, og mér skilst á Þjóðviljanum að það sé hæstv. ráðherra til hróss, að hann hafi sagt: ,,Við samþykkjum ekki álver á Keilisnesi.`` Nú er það þessi ráðherra sem ásamt öðrum hæstv. ráðherrum Alþb. hefur samþykkt að byggt verði álver á Keilisnesi og það verður að telja að þessi tillaga, og þó öllu fremur þær lánsfjárlagaheimildir sem stjórnarliðið gerir tillögur um að teknar verði inn í lánsfjárlög, sýni það að Alþb. hefur samþykkt fyrir sitt leyti byggingu álversins ef samningar nást þar um og það sé aðeins einn maður í Alþb., hv. 2. þm. Austurl., sem ekki vill láta málið ná fram að ganga.
    Það er fróðlegt samt og lýsir kannski vinnubrögðum Alþb. að skoða nýleg ummæli formanns Alþb. þar sem hann ræðst á málatilbúnað hæstv. iðnrh., gerir lítið úr honum, en nákvæmlega eins hefur hæstv. fjmrh. venjulega hagað sér rétt áður en hann hefur samþykkt framgang málsins. Þetta er mjög einkennandi og sjálfsagt er þetta eitthvað sem er lært í háskóla og hefur verið prófað af erlendum fjölþjóðlegum dómnefndum, því að eins og allir vita er hæstv. fjmrh. fjölmenntaður maður, eins og hann hefur lýst svo rækilega fyrr á þessum fundi. Hann sagði t.d. í síðasta mánuði í útvarpsviðtali, reyndar í tilefni af fundi sem haldinn var hjá Alþb. í Reykjavík, en eins og allir vita hafa þeir samherjarnir þrír, hæstv. landbrh., hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., verið á fundaferð um landið og í auglýsingu með þeirri fundarferð er mynd af þeim þremur þar sem þeir eru á leiðinni niður og út úr Stjórnarráðinu og held ég að það sé mjög táknræn myndbirting svona skömmu fyrir kosningar þegar öllum er ljóst að Alþb. er á leiðinni út úr Stjórnarráðinu.
    Í ræðu sinni sagði hæstv. fjmrh. að álfyrirtækin hefðu algerlega óbundnar hendur varðandi framhald málsins. Undirskriftin í október sl. væri gersamlega marklaus hvað þetta snerti. Síðan sagði hann að nú væru horfur á stórkostlegu tapi á orkusamningnum vegna nýs álvers eða allt að 15 milljörðum kr. Þetta er sami hæstv. fjmrh. og nú hefur samþykkt að þessi þáltill. sé lögð fram hér til samþykktar á þessu þingi og þetta er sami hæstv. fjmrh. sem ber ábyrgð á lánsfjárlagafrv. og hann hefur lagt til að því frv. verði breytt, m.a. til þess að samningar og undirbúningur

vegna samninga geti haldið áfram. ( HG: Er þetta ekki sama matið og hjá formanni Sjálfstfl.?) Ég skal ekkert um það segja, hv. þm., en það er rétt að formaður Sjálfstfl. hefur lýst því að hann telji að ekki beri að gera samninga við Atlantsálshópinn um annað orkuverð en það sem borgar sig fyrir Landsvirkjun. Og ég vænti þess að allir þeir aðilar sem nálægt þessu máli koma hafi fullan skilning á því að til þess er stofnað til þess að íslenskir aðilar njóti ágóðans af samstarfi við útlendinga, bæði í orkuverði og eins með öðrum hætti. En ég skil það svo að formaður Alþb. hafi sannfærst um það á þessum fáu vikum sem liðnar eru frá því að hann lýsti þessu í útvarpinu, vegna þess að öðruvísi verður ekki skilið það framtak hans að leggja nú til að lánsfjárlagafrv. sé breytt með þeim hætti að taka inn viðeigandi heimildir.
    Vissulega gæti ég hér vitnað til fleiri ummæla hæstv. ráðherra, en það sem kannski er athygliverðara er að sjá hvernig lagaheimildin varð að þingsályktun. Í útvarpinu hinn 15. fyrra mánaðar, í kjölfar þess fundar sem ég vitnaði til áðan, sagði hæstv. iðnrh. orðrétt í viðtali:
    ,,Það er mjög mikilvægt að Alþingi fjalli um málið þannig að fyrir liggi hvaða lagarammi á að gilda um byggingu og rekstur þessa fyrirtækis.`` Síðar í viðtalinu segir hann hins vegar: ,,Um formið og fráganginn er ég að sjálfsögðu tilbúinn til að ræða við þá``, og þá átti hann við Alþb. Þessi orð ásamt viðbrögðum Alþb. lýsa því kannski best hvað hefur gerst. Alþb. hefur stigið ofan á tærnar á ráðherranum og sagt: Það kemur ekki til greina að hleypa heimildarlögum í gegnum þingið en þú mátt allra náðarsamlegast leggja fram þessa tillögu og það er óhætt að taka inn heimildargreinar í lánsfjárlög og þar við verður látið sitja.
    Þeir alþýðuflokksmenn hafa á undanförnum mánuðum borið mikið lof á iðnrh. fyrir það hversu duglegur hann hefur verið í þessu máli. Einn af hv. þm. Alþfl. skrifar í Víkurfréttir daginn áður en viðtalið var tekið við hæstv. iðnrh. í útvarpinu á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Umræður um stóriðju hafa á undanförnum árum verið býsna skrautlegar. Þegar Sjálfstfl. réð í iðnrn. fyrir þrem árum síðan reyndi þáv. iðnrh. Friðrik Sophusson að ná árangri í stóriðjumálum. Það var auðvitað virðingarverð viðleitni. Það er hins vegar athyglisvert að allar tilraunir ráðherra Sjálfstfl. snerust um það að byggja við álverið í Straumsvík. Sjóndeildarhringurinn var ekki víðfeðmari. Skemmst er frá því að segja að þáv. iðnrh. náði engum árangri. Málefni stóriðju, bygging nýs álvers voru í skötulíki þegar Sjálfstfl. hrökklaðist frá völdum vegna kjarkleysis í efnahagsmálum. Þegar núv. iðnrh. Jón Sigurðsson tók við embætti var það hans fyrsta verk að hreinsa til í rústunum sem Sjálfstfl. skildi eftir sig``, o.s.frv.
    Þar á meðal segir að Jóni Sigurðssyni tókst að laða nýja aðila til samstarfs, þ.e. Bandaríkjamenn, hjólin fóru að snúast, málin gengu hratt fyrir sig.
    Þetta skrifar hv. þm. Karl Steinar og ber mikið lof á ráðherra Alþfl. fyrir að hafa hreinsað til í rústunum. En eitthvað skjöplast nú blessuðum þingmanninum, því að þegar sá var í ráðuneytinu sem hér stendur var verið að ræða um byggingu nýs álvers í Straumsvík og það var ekki fyrr en núv. hæstv. iðnrh. tók við sem talað var um það að bæta við og byggja við það álver sem nú er í Straumsvík. Svona geta menn farið flatt á sögunni þegar þeir í hita leiksins eru að reyna að breiða yfir það sem nú er öllum augljóst og það er að hæstv. iðnrh. hefur ekki tekist, þrátt fyrir öll stóru orðin, þrátt fyrir öll loforðin, þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar, þrátt fyrir allar undirskriftirnar, þrátt fyrir alla blaðamannafundina, þrátt fyrir allt að gera annað en, ef það tekst, að fá Alþingi til að samþykkja að hann haldi áfram þeim sjálfsögðu viðræðum sem nú hafa átt sér stað um skeið og eru í beinu framhaldi af því sem áður hafði gerst í þessu máli. Enda tók hæstv. iðnrh. við þessu máli úr höndum fyrirrennara sinna og hefur haldið ágætlega á því síðan þó hann hafi kannski um of reynt að gefa í skyn að hann væri lengra kominn með málið en efni stóðu til á hverjum tíma.
Það hljómar t.d. eins og brandari nú að lesa leiðara Alþýðublaðsins eftir för hæstv. ráðherra til Bandaríkjanna, þar sem skrifað var undir í byrjun október sl., en þá stóð í leiðaranum 5. okt. á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Jón Sigurðsson iðnrh. hefur unnið þrekvirki að hafa einn og óstuddur borið hið mikla álmál fram að hinum mikilvæga áfanga gærdagsins [það var 4. okt. sl.]. Þrátt fyrir níðhögg andstæðinga jafnt sem svonefndra samherja og ótal viðkvæma og erfiða áfanga málsins hefur iðnrh. tekist með rökvísi, staðfestu og óbilandi trú á farsæla lausn verkefnisins að koma þessu risavaxna máli á lokastig. Aðrir en Jón Sigurðsson hefðu eflaust bognað og brotnað undir hinu mikla pólitíska álagi þessa máls.
    Jón Sigurðsson hefur oftsinnis lýst álmálinu sem stærsta hagsmunamáli Íslands á síðari árum. Alþýðublaðið tekur undir þau orð ráðherrans. Það er Íslendingum léttir að eiga stjórnmálamann sem þorir að horfa fram hjá pyttum pólitískra sérhagsmuna og flokkadrátta en lítur í stað þess til framtíðar fyrir land og þjóð. Mættum við eiga fleiri stjórnmálamenn eins og Jón Sigurðsson iðnrh.``
    Þetta var í leiðara í Alþýðublaðinu, hinn 5. okt. sl., þegar hæstv. ráðherra kom heim með samninginn í höndunum frá Bandaríkjunum. Þá skrifaði Alþýðublaðið þessi orð. ( Viðskrh.: Samkomulagið var undirritað í Reykjavík.) Jæja, það var undirritað í Reykjavík. Það er rétt sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra. Ég mundi það nú ekki. ( Gripið fram í: Í allri hógværð.) Já, í allri hógværð hefur hæstv. ráðherra leiðrétt mig og ég þakka honum kærlega fyrir það.
    En þetta mál snýst um það, og þess vegna las ég þetta, að hinn 5. okt. skrifaði málgagn ráðherrans á þann veg að auðvitað hlutu allir Íslendingar, þeir sem lesa Alþýðublaðið --- og mér skilst að það sé nú rúm tylft manna a.m.k., sumt af því kemur síðan í öðrum fjölmiðlum, a.m.k. tylft þeirra --- að álíta að þetta mál væri komið í höfn. Og hvar er nú málið í dag? Það

er nánast á nákvæmlega sama stað og það var þá. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég gleðjist yfir þessu heldur er ég að benda á það sem hæstv. ráðherra verður að fara að átta sig á, að það hafi oft á tíðum verið gefnar slíkar yfirlýsingar í þessu máli að þær voru langt, langt umfram það sem raunsætt var. Það veit auðvitað hæstv. ráðherra. Það hefur heldur dregið úr þessum yfirlýsingum eftir að hæstv. ráðherra fékk sæti á framboðslista í þessu kjördæmi. Það hefur svona heldur dregið úr yfirlýsingagleðinni síðan, en það situr samt eftir að þessar yfirlýsingar Alþýðublaðsins og reyndar yfirlýsingar sumra þingmanna Alþfl., eins og t.d. Karls Steinars, hljóma alveg eins og brandari. Þetta oflof verður að nokkurs konar háði og auðvitað hlæja menn að því þegar þeir lesa þetta nú.
    Það sem við getum auðvitað lært af þessu máli er það að álið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. ( SJS: Þótt í Alþýðublaðið sé komið.) Þótt í Alþýðublaðið sé komið, já. Það er kannski betri málsháttur að hafa það þannig eins og hæstv. landbrh., aðalstuðningsmaður þess að byggja álver á Keilisnesi, bendir réttilega á að megi orða málsháttinn nú.
    Ég held að allir þeir sem vilja þessu máli vel hafi fullan skilning á því og það tekur tíma að vinna úr þessu máli. Það tók a.m.k. tvo ráðherra nokkurn tíma áður en núv. ráðherra kom til sögunnar og það sem hann hefur verið að gera er í beinu framhaldi af því verki sem hann tók við. Ég vil segja það hér, virðulegi forseti, að Sjálfstfl. styður auðvitað þetta mál. Hann og hans ráðherrar ýttu málinu af stað. Við viljum vinna að lausn málsins enda náist viðunandi samningar við þá aðila sem við stöndum í samningum við.
    Það er skoðun Sjálfstfl. að okkur beri að nýta auðlindirnar til þess að bæta lífskjörin. Við teljum reyndar að þessi tillaga hafi heldur litla þýðingu en hún er meinlaus þótt óþörf sé. Við ætlum ekki að leggja stein í götu tillögunnar en munum að sjálfsögðu vinna að því að lánsfjárlagaheimildirnar nái fram í lánsfjárlögum þannig að næsta ríkisstjórn geti haldið áfram því verki sem fyrri ríkisstjórn hóf og hæstv. iðnrh. hefur unnið ágætlega að á yfirstandandi kjörtímabili og ber vissulega að þakka honum það þótt árangurinn hafi ekki alltaf verið eins mikill og Alþýðublaðið og jafnvel hann sjálfur vildi stundum vera láta.