Samningar um álver
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegur forseti. Þetta þingmál sem við ræðum hér fjallar um að Alþingi leyfi hæstv. iðnrh. að halda áfram þeim samningaviðræðum sem hann þegar hefur hafið um byggingu álvers. Við þingkonur Kvennalistans erum andvígar þessum áformum af ýmsum ástæðum, m.a. ástæðum sem ég rek hér á eftir.
    Fyrr í vetur fengu þingmenn í hendur allmikið plagg frá hæstv. forsrh., skýrslu markaðs- og útbreiðslunefndar, sem fjallaði um það hvernig Íslendingar gætu gert sér fé og atvinnu til framtíðar úr þeim gögnum og gæðum sem land okkar býr yfir og hugviti þess fólks sem landið byggir. Í sem skemmstu máli hvernig best mætti markaðssetja Ísland. Eins og þeir vitanlega muna sem á annað borð hafa lesið þessa skýrslu, þá kom þar fram álit margra erlendra aðila og skoðanir á því hvernig Íslendingar gætu nýtt sér það sem land og fólk hefur að bjóða til atvinnu og atvinnuuppbyggingar. Skemmst er af því að segja að allir hinir erlendu aðilar nefndu til eitt það sem Ísland hefði að bjóða umfram allflesta aðra, það er hreinleiki landsins. Ég les hér m.a. umsögn Poul Deslauriers sem er kunnur vistfræðingur og hagfræðingur og hefur sérþekkingu í vistfræði kaldra svæða, en hann segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég tel að Íslendingar eigi falinn fjársjóð sem umheimurinn veit afar lítið um og hefur ekki enn komið í ljós hversu mikils virði hann er. Þessi verðmæti snerta heilbrigðis- og umhverfismál sem óðum eru að verða mál málanna um allan heim. Ef Íslendingar geta orðið fyrirmynd og forustuþjóð á þessum sviðum mun þjóðin skapa sér sérstöðu á alþjóðavettvangi. Skilyrðin eru eins og best verður á kosið: tiltölulega ómengað umhverfi, óspillt matvæli og vatn. Ef miðað er við önnur lönd geta landsmenn náð forustu á þessum sviðum án ýkja mikils kostnaðar eða fyrirhafnar. Eftirspurn og tækifæri skapast ætíð á ákveðnum sviðum og Íslendingar verða að finna vöru sinni og þjónustu stað þar sem slík tækifæri skapast. Árangur markaðssóknar af þessu tagi er háður því að aðferðir við auglýsingar og kynningarstarf séu markvissar og skynsamlegar.
    Ef menn helga sig verkefninu í fullri alvöru og ef þeir sem eru í fararbroddi njóta stuðnings heima fyrir, er unnt að skapa Íslandi sérstöðu að þessu leyti í samfélagi þjóðanna og slík sérstaða yrði til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga.``
    Síðan eru tillögur hans m.a.: Að auka kennslu og áróður í því skyni að vernda íslenska náttúru. Markmiðið er að Íslendingar verði stoltir af því umhverfi sem þeir hrærast í. Að skipuleggja og auka ferðaþjónustu í anda hugmyndarinnar um Ísland sem land heilbrigðis og óspilltrar náttúru og að hagnýta þá hugmynd við sölu á íslenskum útflutningsvörum. Og þá nefnir hann til að í upphafi sé einkar brýnt að fá stjórnvöld til að styðja þá stefnu sem hann fjallar um.
    Síðan segir hann: ,,Allt veltur á að menn standi saman í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Sérhagsmunir og skammtímasjónarmið geta spillt þeirri

framtíðarsýn og samvinnu sem er forsenda þess að unnt sé að ná árangri til hagsbóta fyrir heildina.`` --- Hann ráðleggur síðan Íslendingum að hafa heilbrigðis- og umhverfismál efst á blaði við slíka stefnumörkun.
    Síðan vil ég lesa hluta af niðurstöðum nefndarinnar sem þessa skýrslu vann. Hún segir:
    ,,Lega landsins, staða umhverfismála, árangur í heilsuvernd og forvarnarstarfi undirstrikar möguleika okkar til kynningar á landi og þjóð, landi gæða, hreinleika og heilbrigði, umhverfis og mannlífs.
    Nefndin telur nauðsynlegt að störf við kynningu nýrrar ímyndar hefjist nú þegar til að hægt sé að nýta tækifæri þau sem bjóðast í sambandi við umhverfismál og heilsuvernd. Nefndin telur að starfsemi íslensks matvælaiðnaðar, ferðaþjónustu og heilsugæslu falli mjög að ofangreindri ímynd. Íslendingar eru þekktir fyrir útflutning á hágæða sjávarafurðum og nýlega er hafinn útflutningur á íslensku vatni. Gestir sem til landsins koma róma fegurð landsins, hreint loft, hreint vatn og óspillt umhverfi. Íslendingar lifa lengur en flestar aðrar þjóðir sem er sönnun þess að á Íslandi er heilbrigt umhverfi.``
    Hvað varðar umhverfismál segir nefndin að Íslendingar þurfi að reka af sér slyðruorð á sem flestum sviðum umhverfismála. Þetta sé unnt og ódýrara en í flestum öðrum löndum. Sköpun slíkrar ímyndar mætti hefja strax því staðfestar áætlanir um viðamikið átak í þessum málum mundi afla okkur mikillar virðingar meðal þjóða heimsins. Síðan segir:
    ,,Til að ná verulegum árangri í markaðsmálum á næstu fimm árum telur nefndin að nauðsynlegt sé að leggja umtalsvert fé til verkefnisins. Nefndin telur að það sé hlutverk opinberra aðila að fjármagna ímyndarsköpun fyrir Ísland og að fjárveiting verði að vera á fjárlögum. Lögð er áhersla á að þeir tekjustofnar sem Ferðamálaráð og Útflutningsráð hafa verði ekki skertir til að þeir megi standa undir þeirri starfsemi ráðanna sem ekki tengist ímyndarsköpun.``
    Nefndin telur ekki ólíklegt að framhald á undirbúningsaðgerðum næstu fjögur árin kosti a.m.k. 200 millj. kr. á núvirði, árlega. Þ.e. álíka og talið hefur verið að atvinna fyrir einstakling í álveri kosti þegar upp er staðið. Eða fjögur atvinnutækifæri ef dæmið er reiknað til enda. Samt hefur komið í ljós í umræðum að þetta þykir mörgum óhæfilega dýrt að ráðast í, þessar tillögur nefndarinnar vaxa mönnum í augum, jafnvel þeim mönnum sem ekki vex í augum að reisa álver. En því tek ég efni þessarar skýrslu til umræðu hér að mér virðist að flest sem þeir menn hafa til málanna að leggja, sem kvaddir voru til vinnu og umsagnar í nefndinni, stangist á við fyrirhugaða byggingu álvers.
    Eins og kom fram í því sem ég las áðan leggja þessir aðilar höfuðáherslu á að ímynd Íslands út á við sé hið hreina land þar sem loftið er tært, vatnið hreint og jarðvegurinn ómengaður. Álver getur aldrei samrýmst þeirri ímynd. Getur það verið að menn ætli sér að hafa að engu niðurstöðu þessarar skýrslu sem á sínum tíma var kynnt af hæstv. forsrh. af mikilli

hrifningu og trú á þá framtíðarsýn sem í skýrslunni birtist? Ísland yrði ímynd hreinleikans í sem flestum skilningi og möguleikar til atvinnuuppbyggingar undir þeim formerkjum nánast óteljandi í sambandi við alls konar heilsurækt, ferðamannaþjónustu, matvælaiðnað og fleira. Ég verð að segja að mér þykir þetta ólíkt geðfelldari framtíðarsýn en áliðnaður. Þar á ofan orkar mjög tvímælis hvort álver kemur til með að skila þeim arði sem talsmenn áliðju telja.
    Þjóðir heims binda vonir við að nú sé að skapast aukin samstaða um afvopnun og frið í heiminum. Í rauninni er þetta orðin alheimskrafa. Þjóðir heimsins hrópa á frið og afvopnun. Samstaða hlýtur að nást um að draga úr vígbúnaði og hefja afvopnun áður en langir tímar líða, svo hörð er sú krafa.
    Það er nú svo að munurinn á þessu tvennu er hrópandi eins og glöggt má sjá á skýrslu útbreiðslunefndar hæstv. forsrh. Annars vegar tækifæri til frjórra og skapandi starfa og nánast ótakmörkuð tækifæri til atvinnuuppbyggingar þegar til lengri tíma er litið en á hinn bóginn feiknadýr uppbygging með takmörkuðum starfafjölda, steingeld álframleiðsla sem er í senn metnaðarlaus og úrelt atvinnustefna sem iðnaðarríki heimsins reyna eftir föngum að losna við. Þeir reyna eftir föngum að losna við slíka mengunarvalda úr eigin löndum. Og sama hvaða sunnudagaskólasögur okkur eru sagðar um fegurð og hreinleika bandarískra álvera, staðreyndin er að andstaða er gegn þeim þar.
    Ég vék áðan að því að nú væru uppi miklar kröfur um það að friður og afvopnun kæmust á í heiminum. Samdráttur í hergagnaframleiðslu hlýtur óhjákvæmilega að draga úr þörf fyrir álframleiðslu. Sömuleiðis má benda á vaxandi kröfur hollustuverndarsamtaka og umhverfisverndarsamtaka um að losna við álumbúðir í hvaða formi sem er vegna óhollustu gagnvart matvælum og umhverfi og vandkvæða á söfnun og endurvinnslu. Það eru því vaxandi líkur á að draga muni úr eftirspurn á áli í framtíðinni.
    Þar sem ég hef haldið mig við að ræða um umhverfisáhrif álvers þá get ég ekki látið hjá líða að minnast á það að langt er frá að mengunarvarnir í því álveri sem við þegar höfum séu í viðunandi horfi. Hvernig getum við treyst loforðum um að í nýju álveri verði allar mengunarvarnir með fullkomnasta hætti þegar ástandið í Straumsvík er með þeim hætti sem raun ber vitni? Meðan svo er gef ég lítið fyrir slík loforð. Mér virðist líka sem áfergja ýmissa ráðamanna hér í að fá hingað stóriðju kunni að hafa skaðað samningsstöðu okkar. Við eigum ekki hægt um vik að koma fram með kröfur þegar ákafinn er slíkur. Það er nefnilega ekki hægt að vera í einu gírugur og matvandur.
    Fyrir nokkru birtist blaðagrein um umhverfisáhrif álvers eftir orkumálastjóra, Jakob Björnsson, sem hæstv. iðnrh. vitnaði mjög til í gær. Báðir þessir ágætu menn virðast horfa á þessi mál á svipaðan hátt og fjandinn les Biblíuna, þ.e. með öfugum formerkjum. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara mikið út í ummæli þeirra, en ég vil spyrja: Hvað hafa verið byggð mörg álver í heiminum á síðustu tíu

árum sem nota raforku unna úr kolum? Veit hæstv. ráðherra um eitt einasta dæmi þess að það hafi verið byggt álver einhvers staðar í heiminum á síðustu fimm árum þar sem notuð er raforka unnin úr kolum? Telur ráðherra að það séu uppi áætlanir einhvers staðar um að reisa álver sem muni nota raforku unna úr kolum? Mér þætti gaman að fá svör við þessum spurningum.
    Í grein sinni segir orkumálastjóri, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ál er notað um allan heim, bæði í iðnríkjum og þróunarríkjum. Notkunin mun vaxa mikið í hinum síðartöldu eftir því sem efnahagur þeirra batnar. Framleiðsla á áli er því tvímælalaust starfsemi í þágu alls mannkyns.``
    Telja menn þá að hinar ýmsu niðurstöður um skaðsemi áls á heilsufar manna, dýra og plantna komi til með að auka notkun áls? Telja menn að báxít í jörðu sé óþrjótandi? Er ekki ýmislegt einmitt sem bendir til að það sé af skornum skammti? Er stóriðnaður sem er jafnorkukrefjandi og mengandi og álframleiðsla í þágu alls mannkyns? Hafa menn ekki heyrt neitt um minnkandi notkun á áli og málmum í heiminum?
    Ég benti á áðan að það er mjög margt sem bendir til þess að framleiðsla áls og annarra mengandi rányrkjuafurða muni minnka með aukinni umhverfisvitund og ég á erfitt með að koma auga á eitthvað sem bendir til hins gagnstæða.
    Ráðherra talaði af mikilli sannfæringu um að með því að byggja álver á Íslandi séum við að gera öllum heiminum, og okkur náttúrlega sjálfum meðtöldum, stóran greiða, það sé allt að því umhverfisverndandi og geti orðið hið glæstasta framlag okkar í baráttunni gegn aukinni koltvísýringsmengun og gróðurhúsaáhrifum. Þá hefur hann koladæmið að leiðarljósi sem er undarleg viðmiðun því það er flúormengunin sem er okkur háskalegust.
    Nei, það er nú svo að erum við með þessu værum við að spilla ásýnd landsins, ekki síst í augum útlendinga, með mengandi verksmiðjurekstri, hann getur aldrei orðið mengunarlaus. Þá eru litlir möguleikar í markaðssetningu íslenskra afurða, íslenskra heilsulinda o.s.frv. í nafni hreinleikans.
    Í skýrslu markaðsútbreiðslunefndar forsrh. birta menn með mikla þekkingu og reynslu í markaðsmálum skoðanir sínar á þeirri framtíðarstefnu sem Íslendingum beri að fylgja í krafti þeirrar sérstöðu að hafa það að bjóða sem öðrum þykir eftirsóknarvert en hafa ekki. Þann hreinleika landsins sem ég hef gert að umtalsefni. Og ég vil lýsa furðu minni á því að hæstv. forsrh., svo hrifinn sem hann var af tillögum þeim sem í skýrslunni birtust, skuli yfir höfuð ljá máls á byggingu álvers.
    Nei, í von um það sem menn halda að sé fjárhagslegur ávinningur, skammtímalausn, ætla menn að kasta fyrir róða dýrmætustu framtíðarhagsmunum okkar. Álver leysir ekki atvinnuvandamál, það leysir þau ekki nema um skamman tíma, og þar eru fá og dýr atvinnutækifæri, og það leysir ekki heldur atvinnuvanda kvenna, sem er mikill nú. Það eykur á erlendar skuldir, sem eru ærnar fyrir og það er fullkomlega vafasamt að það muni skila þeim hagnaði sem talsmenn þess sjá í einhverjum gullnum hillingum.
    En ef vikið er að því hvernig álversbygging snýr að landsbyggðinni utan Reykjaness og Reykjavíkur þá sjáum við á þessum tímum þjóðarsáttar þegar þensla er bannorð að það hefur verið boðað í ræðu og riti að þegar ráðist verði í álversbyggingu verði að draga úr öðrum opinberum framkvæmdum um landið til að forðast þenslu. Opinberar framkvæmdir úti um land hafa um skeið verið í lágmarki. Þetta er ein orsök atvinnuleysis sem menn glíma við þar og ein af orsökum hins þunga og stöðuga fólksstraums til suðvesturhornsins.
    Nú er boðaður alvarlegur og nokkuð snöggur samdráttur í framleiðslu í sveitum landsins án þess að á móti komi atvinnusköpun á landsbyggðinni. Enn frekari samdráttur í opinberum framkvæmdum landsbyggðarinnar hlýtur enn að auka á fólksstrauminn til suðvesturhornsins þar sem atvinnan er. Því hefur margsinnis áður verið lýst hve óhagkvæm þessi þróun er. Vannýting dýrrar uppbyggingar á landsbyggðinni á meðan höfuðborgarsvæðið hefur ekki við að sinna uppbyggingarþörf á kostnaðarsömum mannvirkjum og í þjónustu.
    Sú atvinnuuppbygging sem fram verður að fara í næstu framtíð verður að dreifast meira um landið svo jafnvægi náist í byggðaþróun. Það er fyrirsjáanlegt að byggðamynstrið, ef svo má kalla, hlýtur að breytast á næstu árum og áratugum. Því verður að huga að því að sköpun nýrra atvinnutækifæra leiði til þess að sú þróun verði sem hagkvæmust fyrir land og lýð.
    Sú þáltill. sem við ræðum hér, að þingið samþykki að samningaviðræðum um byggingu og rekstur álvers verði haldið áfram, --- ég man nú ekki eftir því að hæstv. iðnrh. hafi beðið neinn leyfis um að hefja þessar viðræður, ég veit ekki til þess. Og ég hef ekki í hyggju að greiða því atkvæði að hann haldi þeim áfram.