Samningar um álver
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Mér kemur það satt að segja mjög á óvart að af hálfu forseta sé borin fram ósk um það við þingmenn nú um óttuskeið, þingmenn sem hafa verið á mælendaskrá síðan í gær og hafa beðið eftir því að komast að í þessu stóra og viðamikla máli til þess að tjá viðhorf sín til þáltill. og framlagðrar skýrslu hæstv. iðnrh., að þeir fari nú að taka þátt í umræðunni með það í huga að stytta sérstaklega mál sitt.
    Ég tók eftir því að hæstv. forseti greindi svo frá, ég má segja í upphafi fundar þegar þetta mál var tekið á dagskrá, að það yrðu ekki lögð nein höft á menn að þessu leyti, enda hefur það ekki komið fram hjá hæstv. forseta, en þessi tilmæli hins vegar ganga mjög í þá átt að forseti sé með einhverja hugmynd um það að geta lokið hér umræðu eða klárað þá mælendaskrá sem fyrir liggur.
    Ég vil einfaldlega, til þess að eyða misskilningi ef hann er uppi, greina hæstv. forseta frá því að ég væri nú ekki kominn ýkja langt í mínu máli, verandi næsti ræðumaður, á þeim tíma sem hæstv. forseti nefndi, þannig að ég vildi aðeins að það lægi fyrir og jafnframt vísa ég aftur á samhengi þessa máls og það að ég hef verið hér á mælendaskrá og ekki talað í þessu máli fram að þessu. --- [Fundarhlé.]