Almannatryggingar
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Frsm. heilbr.- og trn. (Valgerður Sverrisdóttir ) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.
    Unnið hefur verið að endurskoðun laga um almannatryggingar á vegum stjórnskipaðrar nefndar sem hóf störf í upphafi árs 1988. Nefndin skilaði áliti sínu í október 1990 í formi frv. til laga um almannatryggingar ásamt ítarlegum athugasemdum og greinargerð. Tillögur nefndarinnar hafa verið til umfjöllunar í heilbr. - og trn., hjá ríkisstjórn og stjórnarþingflokkum.
    Á síðari hluta starfstíma nefndarinnar vísaði ráðuneytið flestum þeim málum til hennar sem fram komu varðandi breytingar á lögunum. Áformað var að leggja nýtt frv. til laga um almannatryggingar fyrir Alþingi haustið 1990 þannig að ný lög gætu gengið í gildi 1. jan. 1991. Nú er ljóst að frv. verður ekki að lögum á þessu þingi. Það er hins vegar mat Tryggingastofnunar ríkisins og ráðuneytisins að nauðsyn sé að breyta framkvæmd þeirra mála sem frv. þetta fjallar um, en það er í aðalatriðum það að dveljist lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga eins og gerist á svokölluðum fimm daga stofnunum en útskrifist samt ekki, þá er heimilt að greiða honum dagpeninga sem eigi séu lægri en tvöfaldir sjúkradagpeningar hverju sinni.
    Hæstv. forseti. Frv. er flutt af heilbr - og trn. hv. deildar að beiðni hæstv. heilbr. - og trmrh. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til þess að því verði vísað til nefndarinnar heldur óska ég að því verði vísað til 2. umr.