Grunnskóli
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að segja aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. sem við fengum í gær frá Nd. og hæstv. menntmrh. mælti fyrir. Þetta er veigamikið mál, grunnskólamálið í heild, og eins og hv. 18. þm. Reykv. sagði, þá varðar þetta hvert einasta barn undir 13 ára aldri en það gerir auðvitað miklu meira því að að varðar líka foreldra mjög miklu og heimilin.
    Ég vil aðeins segja það að í mínum huga er frv. um grunnskóla svo þýðingarmikið að mér þykir það mjög slæmt að fá ekki tækifæri til þess að fjalla ítarlega um slíkt mál. Ég vil í því sambandi benda á það að þetta frv. hefur á tveimur þingum fengið umfjöllun í hv. Nd. Nú á þessu hausti var frv. lagt fram í Nd. í annað skiptið. Það kom fram í máli þáv. þm. Sjálfstfl., Birgis Ísl. Gunnarssonar, sem átti sæti í menntmn. Nd., þegar hann talaði í þessu máli á sl. hausti að frv. hafði tekið þó nokkrum breytingum vegna athugasemda og ábendinga sem fram höfðu komið í meðförum nefndarinnar áður og sem hann taldi til bóta. Þrátt fyrir það eru mörg atriði í frv. sem þurfa mikillar skoðunar við. Kannski ekki síst það sem snýr að sveitarfélögunum og svo að sjálfsögðu kostnaðarþátturinn tengdur því.
    Að öðru leyti fagna ég því að það verður tækifæri til þess að breyta grunnskólalögunum þannig að þau aðlagi sig breyttum þjóðlífsháttum, að þau fylgi þróuninni sem orðið hefur í þjóðlífinu og þá ekki síst hvað varðar samstarf heimila og skóla.
    Við höfum auðvitað oft fjallað um þessi mál hér í hv. deild, en ekki vegna stjórnarfrv. um grunnskóla, heldur miklu frekar þegar einstakir þingmenn hafa flutt frv. sem varða einstaka þætti í grunnskólalögum. Í því sambandi vil ég gjarnan við þetta tækifæri minna á frv. sem ég flutti hér á nokkrum þingum og fékk til liðs við mig ýmsa þingmenn þessarar hv. deildar, en það fékkst aldrei afgreitt úr nefnd. Það varðaði sérstaklega samstarf foreldra og skóla, þ.e. að stofnað yrði skólaráð sem foreldrar ættu aðild að og hefði tækifæri til þess að fylgjast með daglegum rekstri skóla, þ.e. þeir væru meðábyrgir í því sem væri verið að gera í skólanum.
    Ég held að það sé eitthvert ákvæði um slíkt í þessu frv. Ef ég man rétt, þá er það að mér finnst ekki kannski alveg í sama anda og ég hafði hugsað þetta mál, sem kannski staðfestir það að við höfum ekki haft tíma til að kynna okkur frv., ekki af því að það hafi ekki legið hér fyrir í þinginu því það hefur það að sjálfsögðu gert. En það þekkja nú allir þingmenn og hæstv. menntmrh. einnig, því að hann hefur líka verið óbreyttur þingmaður eins og við hin, að maður gefur sér ekki tíma til að fara ítarlega í frv. sem liggja í þeirri deild sem viðkomandi á ekki sæti í fyrr en kemur að því að fjalla um það í deildinni. Þannig hefur farið fyrir mér í þessu tilviki með þetta frv.
    Ég sé að í II. kafla og 9. gr. frv. er tekið á þessu máli með grunnskólaráðið sem ætlað er að vera ,,samstarfsvettvangur menntmrn. og annarra aðila er starfa

að málefnum grunnskólans``, stendur hér í upphafi greinarinnar. Þetta er gríðarlega stórt ráð því að það á að vera skipað 11 fulltrúum. Það er spurning hvort það er ekki eitthvað allt annars eðlis en það sem við hugsuðum okkur á sínum tíma því við ætluðum að slíkt skólaráð starfaði við hvern einstakan grunnskóla.
    Ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á þá þætti sem ég held að allir skólamenn og foreldrar jafnvel líka hafi verið sammála um og lagt ríka áherslu á og komu fram í tveimur vinnuskýrslum sem vinnuhópur á vegum þáv. menntmrh. Ragnhildar Helgadóttur skilaði af sér en þar var megináherslan lögð á samstarfið milli heimila og skóla, betri tengsl, betra upplýsingastreymi á milli þessara aðila, samfelldan skóladag eða samfellda viðveru í skóla og einnig að börn ættu þess kost að neyta máltíða í skólum eða eins og það var kallað stundum nestismál skólabarna. Þetta eru allt þættir sem skipta mjög miklu máli. Ég held að ég hafi stundum orðað það svo að skólarnir þyrftu að opna dyr sínar fyrir foreldrum og aðstandendum barna í skólanum. Vegna þess að til skamms tíma hefur það verið þannig að foreldrar hafa litið svo á að þeir ættu ekki að vera að skipta sér af því sem gerist innan veggja skólans og það hefur kannski verið gagnkvæmt. Sem betur fer er þetta viðhorf að breytast sem er af hinu góða og leiðir af því hversu mikilvægt það er fyrir foreldrana að börnum sé búin góð aðstaða í skólanum.
    Það er nú einu sinni svo, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að skólinn er að hluta til orðinn uppeldisstofnun og ber mikla ábyrgð á uppeldi barnanna til jafns við foreldrana. Ekki þykir öllum þetta vera af hinu góða, en þetta eru staðreyndir sem við getum ekki neitað.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég ítreka það að þetta er svo mikilvægt mál og ég vænti þess að hæstv. menntmrh. hafi skilning á því að við, sem höfum ekki fengið tækifæri til að fjalla um þetta frv. fyrr en nú eftir að það hefur tvisvar fengið ítarlega umfjöllun og umræðu í hv. Nd., hljótum að fara fram á það að fá tækifæri til þess að fara ítarlega í gegnum þetta mál. Þá vaknar upp sú spurning hvernig það megi gerast á þeim stutta tíma sem eftir er af þinghaldinu að þessu sinni.