Grunnskóli
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Það eru svo miklir snúningar á þessum síðustu dögum að maður nær ekki alveg sambandi við hvert mál sem maður er að íhuga. Það hafði dottið úr mér að ákvæðið um málsverði á skólatíma --- eða ekki dottið úr mér, ég hafði ekki tekið eftir því að ákvæðið hafði einungis verið í frv. til grunnskólalaga eftir 2. umr. í Nd. ( Menntmrh.: Já, það var ekki í upphaflega frv.) Þess vegna var ég þegar ég talaði áður um það að nú væri endurflutt mál sem hefði verið brosað eða hlegið að fyrir einu eða tveimur árum, þá var ég einmitt að tala um það mál.
    Ég hef beðið um það að fá í hendur allar þær umsagnir sem lágu fyrir í menntmn. Nd., herra forseti. Og það er hvergi að sjá í gögnum þeirrar nefndar um hvaða fjárhæðir við erum að tala í sambandi við það að gera öllum grunnskólum skylt að gefa nemendum sínum kost á málsverði á skólatíma. Ég veit að sums staðar úti á landi er þetta viðtekin venja, en okkur er kunnugt um það báðum, mér og hæstv. menntmrh., að hér í Reykjavík hefur gengið á ýmsu hvernig tekist hefur um framkvæmd þess að gefa börnum og unglingum kost á að fá eitthvað að snæða í skólunum sjálfum og það hafa verið mismunandi skoðanir uppi um það meðal foreldrafélaga í skólum hvernig rétt sé að halda á þessu máli.
    Ég get auðvitað skilið að það sé ekki erfitt fyrir menn að rétta höndina upp með tillögu af þessu tagi ef þeir hinir sömu þurfa ekki að leggja fram neinar tillögur um það hvernig eigi að standa að því að velja málsverðinn og hverjir eigi að greiða rekstur þess að nemendur eigi kost á málsverði. Það er auðvitað líka álitaefni hvað átt sé við með því í lögum að tala um málsverð. Þetta atriði hlýtur því auðvitað að koma mjög til álita. Og þegar rætt er um samráð við sveitarfélög og rætt er um að þau hafi fengið frv. til umsagnar, þá er það auðvitað án þessa mikilsverða ákvæðis og nauðsynlegt að taka málið upp á nýjum grundvelli af þeim sökum, herra forseti. Ég veit að formaður menntmn. mun sjá til þess að þær upplýsingar sem lágu fyrir í þinginu fyrir einu eða tveimur árum þegar þetta mál var hér síðast til umræðu verði nú dregnar fram á nýjan leik og nefndin eigi kost á því að fá upplýsingar um hvernig ástandið er í einstökum skólaumdæmum og skólum varðandi þetta sérstaka atriði.
    Ég vil líka segja að það sé einfalt mál að fullyrða að skólar eigi að vera einsetnir, en á hinn bóginn vitum við að það er auðveldara að setja fram kröfuna um að byggja skóla en að gæta hófs í opinberri fjárfestingu. Við sitjum nú uppi með skólabyggingar víðs vegar um landið, bæði í þéttbýli og dreifbýli, sem okkur er alveg ljóst hvað við ætlum við að gera. Þessi mál eru auðvitað ekki einföld, en sjálfsagt að ræða þetta við fulltrúa sveitarfélaga í menntmn. og heyra hvaða skoðun þeir hafa á þessu. Nú má vera að þetta mál sé ekki eins erfitt og ég er að gefa í skyn og væri fróðlegt að fá að vita hvernig hæstv. ráðherra metur 3. mgr. 4. gr.: ,,Í grunnskóla skulu nemendur

eiga kost á málsverði á skólatíma.`` Telur hæstv. menntmrh. að í þessu felist að löggjafinn ætlist til þess að nemendur greiði málsverðinn fullu verði? Skilur menntmrh. þetta svo að ríkisvaldið greiði t.d. laun þeirra sem framreiða matinn eða telur hæstv. menntmrh. að sveitarfélögin eigi að greiða þennan málsverð að fullu? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvernig hann horfir á það mál.
    Ég vil líka ítreka það sem ég sagði áðan að ég er fullkomlega andvígur því að stefnt skuli að því að hver grunnskóli sé heildstæður. Hæstv. menntmrh. vék að því örfáum orðum en efnislega gat hann ekki fært rök fyrir því að rétt væri að leggja niður skóla á borð við Lindargötuskólann, eins og hann var rekinn af Jóni Gissurarsyni á sínum tíma, eigi að leggja niður Ísaksskóla í Reykjavík, eigi að stefna að því að litlu börnin í Bárðardal eigi að fara að Stóru - Tjarnaskóla. Nú getur hæstv. menntmrh. náttúrlega sagt við mig að þegar við tölum um hinar dreifðu byggðir, þá séu ástæður sérstakar og ekki ástæða til að rugla því saman. Það geti verið hagkvæmt úti á landi að reka smærri skólaeiningar sem ekki taki til allra tíu bekkjardeildanna. Svo er t.d. um Hrísey. Ég geri ráð fyrir því að ýmsir kennarar
í efstu bekkjum grunnskóla geti verið þeirrar skoðunar að það sé alls ekki heppilegt að allir tíu bekkirnir séu endilega í sama skólahúsinu, í sama skólanum. Heppilegra sé að skipta skólanum t.d. við þrettán, fjórtán ára aldur. Reynslan hafi sýnt að hinir gömlu gagnfræðaskólar áttu rétt á sér og þess vegna sé það beinlínis röng skólastefna að allur grunnskólinn skuli rekinn í sömu húsakynnum. Ég held að ég geti fært fyrir því mjög skýr rök, jafnvel þar sem fjölmenni er mikið. Það er alveg augljóst þar sem skólar eru á mörkum þess að hægt sé að reka þá, samkvæmt kaflanum um lágmarksaldur í hverri bekkjardeild. Á afskekktum stöðum er auðvitað mjög hæpið að eðlilegt sé að halda úti 9. og 10. bekk ef torvelt er að fá kennara með réttindi sem geti látið í té þá fræðslu sem nauðsynleg er, t.d. í þungum námsgreinum eins og erlendum tungumálum, stærðfræði o.s.frv. Því held ég að 2. mgr. 3. gr.: ,,Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé heildstæður og einsetinn``, verði að hverfa. Við getum stefnt að því að skólar séu einsetnir, en við getum ekki haft það fyrir skólastefnu að grunnskólinn sé heildstæður.
    Ég skal svo ekki, herra forseti, fara um þetta fleiri orðum. Ef tími vinnst til --- auðvitað geri ég mér ekki grein fyrir því hvenær hæstv. ríkisstjórn hyggst ljúka þessu þinghaldi. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvaða mál það eru helst sem einstakir ráðherrar kjósa að velja fyrir kappræður á hinum pólitíska vettvangi. Það voru vaxtamálin í gærkvöldi. Ég veit ekki hvenær ráðherrarnir taka næstu kappræðu og fara að tefja umræður og þingstörf, en ég geri á hinn bóginn ráð fyrir því að við í þessari deild höfum nú tímann til hádegis á morgun og síðan á að ljúka þinghaldi á föstudag. Deilur ráðherranna hafa þegar valdið því að kvöldið í kvöld fer í umræður í Sþ. og má guð einn vita nema þeir stjórnarsinnar verði svo örþreyttir á

morgun að gripið verði til þess ráðs að fella niður nefndarfundi í fyrramálið þar sem rétt þyki að svona sæmilega vel sofnir menn gangi til þeirra mikilvægu verkefna.