Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Það var dálítið sérkennileg ræða sem hv. 14. þm. Reykv. flutti hér. Það er auðheyrt að hann er vanur að fara eftir því sem honum er sagt fyrir, hann rekst vel í flokki. Hann er hissa á því að menn, þó þeir hafi stuðlað að því að hæstv. ríkisstjórn komst á laggirnar á sínum tíma, þurfi ekki að elta og samþykkja hvaða mál sem er, jafnvel hvað vitlaust sem það er.
    Ég vil aðeins láta hann vita af því að það er sjálfsagt eins með mig og hv. 2. þm. Austurl. að hann hefur sínar sjálfstæðu skoðanir. Þó þær fari ekki alltaf saman við þær skoðanir sem ég hef, þá virði ég skoðanir annarra og ekki síst þeirra sem fara ekki eftir því sem foringjarnir segja á hverjum tíma. Það er eins og hv. 14. þm. Reykv. sjáist alveg yfir það, enda líklega ekki í miklu sambandi við atvinnurekstur, a.m.k. ekki af eigin raun, á Íslandi. Það eru bara allt önnur skilyrði hér, allt aðrar ástæður. Þessi eftirhermuháttur ýmissa stjórnmálamanna, að fara alltaf eftir því sem er í öðrum löndum þó það passi alls ekki fyrir okkar litla þjóðlíf. Það er þetta sem hv. 14. þm. Reykv. þyrfti að reyna að skilja og hætta að fylgja sínum misvitru foringjum.