Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) :
          Virðulegi forseti. Ég vil hér gera stutta grein fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. vegna frv. til breytinga á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Hér er um að ræða nauðsynlegt fylgifrv. með frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem er 320. mál Nd. á þskj. 565, og vísast hér með til nefndarálits 1. minni hl. á þskj. 885.
    Fyrsti minni hl. telur rétt að takmarka vald ráðherra til að veita undanþágur og leggur til breytingar á 9. gr. og 15. gr. frv. í samræmi við það. --- Það á reyndar við bæði þessi frv. að ráðherra eru veittar mjög víðtækar undanþágur og við leggjum til breytingar hér.
    Þá telur 1. minni hl. að ekki eigi að opna fyrir heimild til erlendra aðila til reksturs útvarpsstöðva hérlendis og leggur því til að 20. gr. frv. falli brott.