Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint spurningum um það hvernig ákvæði laga, skv. frv. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, kunni að samræmast eða rekast á við samsvarandi meginreglur í væntanlegum EES - samningi. Mér þykir sjálfsagt að reyna að verða við því að svara þessum spurningum. Ég get verið stuttorður um það, vísa m.a. til þess að á dagskrá er umræða um skýrslu utanrrh. um stöðu samningaviðræðna. Í þeirri skýrslu eru þessi mál skýrð auk þess sem þeir sem eiga sæti í hv. utanrmn. og Evrópustefnunefnd þekkja þetta mál harla vel vegna þess að þau hafa þar verið rædd í þaula.
    Ég vil af gefnu tilefni taka fram eftirfarandi. Að því er varðar fjárfestingu og rétt til stofnunar fyrirtækja almennt á EES - svæðinu, þá gildir sú almenna regla að réttur til stofnunar fyrirtækja, fjárfestingar og flæði fjármagns skal samkvæmt almennri reglu vera frjálst á svæðinu öllu. Um þetta er fyrst og fremst fjallað á samningssviði 2, um fjármagns - og þjónustuviðskipti, og að nokkru leyti á samningssviði 3, um atvinnu - og búseturéttindi. Þetta segir þó ekki alla söguna.
    Ef við lítum á rétt til stofnunar fyrirtækja og fjárfestingar í sjávarútvegi og landbúnaði, þá þarf að taka tvennt fram. Þar sem hin sameiginlega fiskveiðistefna og hin sameiginlega landbúnaðarstefna Evrópubandalagsins er ekki á samningssviði EES, þá eru þær almennu reglur á þessum sviðum heldur ekki á því samningssviði sjálfkrafa. Í annan stað að því er varðar sjávarútveg, þar sem Evrópubandalagið hefur hafnað kröfu EFTA um fríverslun með fiskafurðir, þ.e. samræmdar samkeppnisreglur og afnám ríkisstyrkja og annarra viðskiptatruflandi aðgerða, þá segir það sig jafnframt sjálft að þar með eru hinar almennu reglur um heimild til fjárfestingar, sem er skilyrt samræmdum samkeppnisreglum á vörusviðinu, heldur ekki á dagskrá. Það sem ég hér hef sagt er samningsstaða EFTA í samningunum.
    Að því er varðar þriðja málið, nýtingu orkuauðlindarinnar, þá er það ljóst að núverandi skipan mála á Íslandi er í engu ósamræmi við þær reglur sem gilda munu á EES - svæðinu. Það eina sem fyrir okkur liggur er sá vilji að styrkja frekar þá stöðu mála með innlendri löggjöf.
    Að því er varðar t.d. banka, þá segir svo í skýrslu minni á bls. 14 um það mál: ,,Það hefur ekki valdið neinum vandkvæðum að samræma reglur um starfsemi banka, lánastofnana og tryggingafélaga, verðbréfasjóða, flutningafyrirtækja, rekstur fjarskipta og annarrar starfsemi sem fellur undir þennan hóp. Í mörgum tilvikum var samræming þegar hafin, annaðhvort innan OECD, Norðurlanda eða annarra alþjóðastofnana eða þá hreinlega að tekið hefur verið mið af löggjöf nágrannaríkja við endurskoðun löggjafar.``
    Enn fremur segir um hlut banka á þessu sviði: ,,Óskað hefur verið eftir nokkurra ára aðlögunartíma fyrir íslenska bankakerfið, en að honum loknum væri stofnun og rekstur banka frjáls að uppfylltum almennum EES - reglum á því sviði.``
    Virðulegi forseti. Með þessum orðum hef ég gert grein fyrir þeim meginatriðum sem hér gilda, almennu reglunni sem gildir á þessu sviði og þeirri staðreynd að þessar samræmdu reglur eru ekki á samningssviðinu að því er varðar sjávarútveg og landbúnað. Á orkusviðinu er núgildandi staða mála hér ekki brot á þeim reglum sem þarna munu gilda. Að því er varðar bankaþjónustu, þá höfum við lýst vilja okkar til þess að fá tímabundna aðlögun. Ég fæ því ekki betur séð en að sú löggjöf sem hér er verið að ræða og afgreiða geti samrýmst því a.m.k. innan þeirra tímamarka sem samið verður um aðlögun. Hitt fer ekki milli mála að þegar aðlögunartímabili væri lokið, þá tækju við á hinu almenna fjármagnsþjónustusviði hinar almennu reglur um fullkomið frelsi samkvæmt grundvallarreglum sem um er verið að semja í EES.