Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Þegar þetta frv. var til 1. umr. hér í hv. deild lýsti ég yfir að ég væri frv. fylgjandi, enda kom vart annað til greina þar sem ég hafði látið semja slíkt frv. þegar ég var félmrh. en það fékkst ekki hljómgrunnur fyrir því á hv. Alþingi. Einnig það að þetta frv., sem hefur verið endurskoðað síðan, fellur að þeirri stefnu sem ég hef í þessu máli að veita þessu formi möguleika gegnum húsnæðiskerfið þar sem þetta tengist byggingarsamvinnufélögum.
    Hins vegar gat ég ekki stillt mig um að koma hér upp vegna þess að ég er ákaflega óánægður yfir vinnubrögðum formanns hv. félmn. Ég var búinn að lýsa yfir stuðningi við þetta mál og þar af leiðandi var ástæðulaust annað en ég væri á nál. Því miður gat ég ekki verið á þeim fundi þar sem þetta mál var tekið út þar sem ég var á fundi í fjvn., en mér skildist að það hefði verið ætlast til þess að formaður hv. nefndar hefði samband við undirritaðan um þessa afgreiðslu áður en nál. yrði endanlega lagt fram. Það var ekki gert þrátt fyrir það að ég var hér á kvöldfundi frá kl. 9 til kl. 11.15 og hægurinn hjá að hafa samband við mig. Ég tel þetta óeðlileg vinnubrögð en það hefur ekki áhrif á afstöðu mína til frv. Ég mun styðja þetta frv. eins og ég lýsti yfir við 1. umr. málsins.