Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. 1. þm. Vesturl. ætlar að styðja þetta frv. Það er alveg rétt sem hann hefur sagt að hann studdi frv. um Búseta efnislega en hins vegar hafði hann ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig í nefndinni um þær breytingartillögur sem komu fram í nefndinni. Mér finnst hins vegar nokkuð ómaklegt að fá þá gagnrýni á mig sem formann nefndarinnar sem hér kemur fram vegna þess að hv. 1. þm. Vesturl. hefur átt mjög erfitt með að sækja fundi í nefndinni. Hann gat ekki sótt fund í nefndinni á mánudagsmorgun sem boðað var til til að fjalla um þessi mál. Hins vegar er það nú svo að flokkur hv. 1. þm. Vesturl. á tvo fulltrúa í félmn. og tók hinn fulltrúi Framsfl. að sér að koma til skila þeim áformum og uppköstum sem um var að ræða.
    Sjálf hafði ég samband við hv. þm. þegar þingflokksfundir byrjuðu þennan dag og hann hafði ekki haft tækifæri til að taka afstöðu eða tjá sig um hvað hann vildi gera í þessum málum og óskaði ég þá eftir að fá afstöðu hans kl. 9 þegar fundir mundu hefjast hér.
    Ég var hér sjálf á fundum og hitti ekki hv. 1. þm. Vesturl. Hins vegar fór ég á aukafund hluta kvöldsins og þegar ég leitaði hans síðar var hann nýhorfinn úr húsinu. Það þýðir að við fórumst í raun á mis. Mér finnst að ég hafi gert mitt til þess að ganga eftir afstöðu hans til þeirra þriggja mála sem eru á dagskrá þessa fundar frá félmn. Nd. og ég harma það ef hann hefur ekki fengið tækifæri til að vera með á nefndaráliti, sem hann hafði áhuga á og mundi hafa viljað hafa það öðruvísi, en tel ástæðu til þess að þetta komi fram.