Kvöldfundir
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Ólafur G. Einarsson :
    Hæstv. forseti. Já, það má segja að það sé margt einsdæmið á þessum síðustu tímum. En ég vil aðeins upplýsa að það hefur verið rætt við mig af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarinnar um þinghaldið og ég hef ekkert samið fyrir neinn nema sjálfan mig og ég veit alveg að ég má tala þar fyrir hönd minna flokksmanna að við höfum ekkert við það að athuga að umræðu verði haldið áfram hér í kvöld um álmálið sem frestað var með svona dálítið sérstæðum hætti, að mér skilst, í nótt, ég var nú farinn þá. Við höfum ekkert við það að athuga að þeirri umræðu verði haldið áfram. Við höfum skilið það svo að það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar að fá það mál afgreitt fyrir þinglausnir.
    Mér hefur skilist að það sé enn stefnt að þinglausnum á föstudag og ég sé nú ekki hvernig það á að verða öðruvísi en að halda áfram í kvöld og kannski fram eftir nóttu. Ég ítreka það að þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ekkert við það að athuga. En við teljum hins vegar, það er rétt að ég láti þess getið, við teljum nauðsynlegt að það verði farið að ganga endanlega frá því hvaða mál fari fram. Það eru enn mörg mál á óskalista hæstv. ríkisstjórnar og þá um leið ef mögulegt er að taka um það endanlega ákvörðun hvort það verður lokið hér þingstörfum á föstudagskvöldi. Ég skil það svo að það sé ekki hægt að halda fund á laugardag og þá væri gott að vita sem fyrst hvort þarf að fara fram í næstu viku og þá hve langt.
    Þetta vildi ég nú að kæmi hér fram, hæstv. forseti.