Samningar um álver
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Mér þótti þetta afar sérkennilegt innlegg af hálfu formanns Alþfl. sem hér var flutt. Hér er um að ræða mál sem einn ráðherra Alþfl. ber meginábyrgð á í ríkisstjórninni og sem virðist vera gífurlegt kappsmál að fái umræðu í þinginu. Svo vill til að hér er verið að ræða þetta stóra mál í fyrsta sinn undir þessum skilyrðum að það er sérstaklega beðið um þinglega meðferð og þinglega afstöðu til málsins. Hér er mál sem mun hafa svo víðtæk áhrif á Ísland á næstu árum að það snertir öll ráðuneyti landsins. Það er mjög sérkennilegt ef verið er að gera ráð fyrir því að þingmenn sitji hér ekki þingfund og ráðherrar í ríkisstjórninni þegar til þess er ætlast að við þingmenn sitjum hér einn næturfundinn enn til þess að fjalla um mál, mörg mál sem liggja hér fyrir þinginu og nú þetta, og af því er ósk mín fram sett.