Páll Pétursson :
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Kjörtímabilinu er að ljúka og ástæða til að líta yfir farinn veg. Við framsóknarmenn getum litið með ánægju og stolti yfir síðari hluta þessa kjörtímabils. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur náð betri árangri við landsstjórnina heldur en nokkur önnur ríkisstjórn á undanförnum áratugum.
    Þegar Steingrímur myndaði stjórn haustið 1988 var æðandi verðbólga og útflutningsatvinnuvegirnir að stöðvast. Við höfðum áræði og framsýni til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma atvinnulífinu á réttan kjöl og sköpuðum skilyrði fyrir aðila vinnumarkaðarins til að gera hófsamlega kjarasamninga. Forsenda þessara kjarasamninga var sá grundvöllur sem stjórnarflokkarnir voru búnir að leggja og sá atbeini sem stjórnvöld og bændur veittu til þess að þeir mættu takast.
    Þjóðarsáttin hefur sannað ágæti sitt. Þjóðfélagið hefur tekið algerum stakkaskiptum til hins betra. Verðbólgan hefur verið færð í bönd. Útflutningsatvinnuvegirnir dafna og fjárhagur heimilanna er kominn á traustari grunn. Við höfum varið þjóðarsáttina af alefli. Það hefur kostað deilur við BHMR því miður og það hefur kostað grimmileg átök við stjórnarandstöðu. Tilræði sjálfstæðismanna við þjóðarsáttina hér á Alþingi hafði nær því leitt til þingrofs fyrr í vetur áður en hinir hófsamari sjálfstæðismenn settu ofsafengnum forustumönnum sínum stólinn fyrir dyrnar. Forusta Sjálfstfl. varð að láta í minni pokann. En við skulum ekki gleyma frumhlaupi þeirra. Það sannar að þeim er ekki með nokkru móti treystandi fyrir forustu um stjórn landsins, enda hefur dýrkeypt reynsla sýnt að sjálfstæðismenn mega ekki koma nærri stjórn efnahagsmála, þá fer allt úr böndunum.
    Við framsóknarmenn höfum markað skýra stefnu í samskiptum við Evrópubandalagið. Við viljum gott og náið samstarf en innganga Íslands í Evrópubandalagið kemur ekki til greina. Við munum aldrei játast undir sameiginlega fiskveiðistjórn bandalagsins, eins og aðild óhjákvæmilega hefur í för með sér. Við munum aldrei játast undir það að færa landhelgina til baka inn að 12 mílum, eins og aðild ófrávíkjanlega felur í sér. Framtíð þjóðarinnar veltur á því að okkur auðnist að nýta auðlindir lands og sjávar af hófsemi og fyrirhyggju. Takist okkur það þurfum við engu að kvíða.
    Við tökum þátt í samningum um Evrópskt efnahagssvæði. Þegar niðurstaða þeirra samninga liggur fyrir, þá verðum við að meta hvort það þjónar hagsmunum Íslands að við gerumst þátttakendur í Evrópsku efnahagssvæði eða hvort við eigum að láta reyna á tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Við höfum góðan viðskiptasamning við bandalagið. Hann væri hægt að bæta en jafnvel þótt það tækist ekki er heimurinn stærri en Vestur - Evrópa og möguleikar okkar til hagkvæmra viðskipta og velferðar á Íslandi eru miklir þrátt fyrir það.
    Stefna Sjálfstfl. í Evrópumálum er óskýr. Sumir þingmenn flokksins æskja fullrar aðildar að bandalaginu svo fljótt sem verða má. Sumir eru svona í hálfa gátt og daðra við hugmyndir um inngöngu, eins og hv. 1. þm. Reykv. hér áðan. Þess vegna eru samþykktir sjálfstæðismanna klaufalegar og hættulegt að fela þeim forustu okkar í Evrópumálum.
    Því miður hefur hljómurinn í ræðum alþýðuflokksmanna um Evrópumálin breyst til hins verra á síðustu vikum. Það er okkur samstarfsmönnum þeirra áhyggjuefni og ber að gjalda varhug við því. Í Evrópumálum er okkur framsóknarmönnum einum treystandi til að ná árangri og jafnframt að gæta framtíðarhagsmuna Íslands. Í ræðum þeirra sem strekkja inn í bandalagið eða daðra við það gætir ótrúlegs kjarkleysis og vanmáttar. Málefnum Íslands verður best stjórnað af Íslendingum hér eftir sem hingað til. Framsfl. vill gæta vandlega sjálfstæðis þjóðarinnar og yfirráða hennar yfir landi sínu og málefnum.
    Við framsóknarmenn viljum koma fram af fullri reisn í samskiptum við aðrar þjóðir. Við eigum óhikað að leggja þeim öflum lið sem stuðla að því að gera heiminn friðvænlegri og styðja lýðræði og mannhelgi. Við eigum að sýna heiminum að við séum alvöruríki og rekum marktæka utanríkisstefnu.
    Þótt mikið hafi áunnist á síðari hluta þessa kjörtímabils eru enn þá vandamál sem bíða úrlausnar. Landbrh. og forusta Stéttarsambands bænda hafa útbúið samkomulag um stefnumörkun í mjólkur - og sauðfjárframleiðslu. Sauðfjárframleiðslan á við mikinn vanda að stríða. Neysla hefur dregist mjög hratt saman vegna þess að kjötið er of dýrt. Þetta er afleiðing af mistökum í landbúnaðarstefnu síðustu ára. Sauðfjárframleiðslan hefur orðið að búa við strangar takmarkanir á meðan önnur kjötframleiðsla naut frelsis. Framleiðslustjórnunin hefur því miður orðið til þess að gefa öðru kjöti betri samkeppnisstöðu og aukna markaðshlutdeild á kostnað sauðfjárframleiðslunnar. Sú stefnumörkun sem landbrh. hefur skrifað undir er ekki nægileg. Aðlögunartíminn er of stuttur, sérstaklega vegna þess að skattamálin eru ófrágengin, þannig að ég óttast að einungis verði um flatan 11% niðurskurð að ræða í haust. Þá er byggðaþátturinn skilinn eftir. Þetta verður að lagfæra hið snarasta ef ekki á illa að fara og að því munum við framsóknarmenn vinna.
    Í fjölmiðlum undanfarna daga hafa verið fáránlegar fullyrðingar um kostnað af þessum gjörningi. Stefnumörkunin getur orðið nothæfur grundvöllur til að byggja á, en þá þarf ýmislegt fleira til að koma. Annars getur seinni villan orðið verri þeirri fyrri. Þjóðin þarf á blómlegum landbúnaði að halda. Samfélaginu er enginn greiði gerður með því að rústa landbúnaðinn og það fólk sem stundar búskap verður að eiga svipaðan rétt eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins.
    Á undanförnum sólarhringum hefur lítil ályktun um að halda áfram að reyna að ná samningum um byggingu álverksmiðju verið til maraþonumræðu hér í þinginu. Þjóðin þarf á aukinni verðmætasköpun að halda. Landbúnaðarframleiðslu er ekki hagkvæmt að auka. Meiri afli verður ekki sóttur í hafið á næstunni. Við höfum virkjað hraðar en tiltækur markaður stendur undir. Því er óhjákvæmilegt að reyna að koma

orkunni í verð. Samningar hafa verið í gangi við erlend álfyrirtæki. Þeir samningar eru í biðstöðu vegna kringumstæðna viðsemjenda okkar. Ég vil engu spá um framvindu samninganna en ég vona að okkur takist að ná samningum sem borgar sig að gera og gætu orðið þjóðinni til hagsbóta. Ég vara hins vegar við óraunhæfum væntingum eða auglýsingamennsku í sambandi við álmálið.
    Frú forseti. Í kosningunum 20. apríl ræðst það hvort áfram verði haldið á þeirri heillabraut sem okkur hefur auðnast að feta undanfarin missiri undir forustu framsóknarmanna eða stjórnartaumarnir verða fengnir í hendur sjálfstæðismönnum. Það er mikil áhætta að fórna með því traustu efnahagsástandi, þjóðarsátt og jafnvel sjálfræði og auðlindum þjóðarinnar. Það verður kosið um það hvort framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn veiti leiðsögn næsta kjörtímabil. Kostirnir eru skýrir og ég vona að þjóðin hafi lært af reynslunni og efli framsóknarmenn til áhrifa.