Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þegar Kvennalistinn kom fyrst fram á svið íslenskra stjórnmála boðuðum við að pólitísku hugtökin hægri og vinstri væru orðin úrelt. Nú væru það önnur sammannleg gildi sem höfuðmáli skiptu. Við boðuðum að maðurinn væri hlekkur í náttúrunni en ekki herra hennar og ef við ætluðum að rjúfa lífskeðjuna og raska lögmálum náttúrunnar með kjarnorku og eiturvopnum væri tortíming vís.
    Við boðuðum það líka að viðhorf til jafnréttis og mannlegra verðmæta yrðu að breytast ef mannkynið ætti að geta tórt á þessari jörð. Hinn mjúku gildi mannræktar og náttúruverndar skyldu sett öllu ofar. Hin gömlu vígorð frelsi, jafnrétti, bræðralag yrðu að fá nýjan hljóm og inntak. Þau yrðu að gilda jafnt fyrir konur og karla, unga og aldraða, jafnt og þá sem eru á miðjum aldri og hátindi valdaferils. Þetta þótti ýmsum kynlegur boðskapur og léleg latína fyrir átta árum þó öðrum fyndist boðskapurinn harla góður. Og smám saman hefur það komið á daginn að við höfðum rétt fyrir okkur. Mörkin milli hægri og vinstri flokka í stjórnmálum eru að verða sífellt ógleggri. Við sjáum það best í tilraunum flokkanna til að skipta um ímynd, breyta um nafn, merki og slagorð. Kratar kalla sig nú jafnaðarmannaflokk, Alþb. makar nú grænum lit í kringum rauða, austræna sól í fána sínum og kjörorð landsfundar Sjálfstfl., frelsi og mannúð, leiðir hugann að frönsku byltingunni fyrir 202 árum. Allt á þetta að höfða til hinna sammannlegu, mjúku gilda.
    En það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og þó að gömlu sepparnir í gömlu flokkunum séu smám saman að gera sér grein fyrir þeirri nauðsyn að gelta með öðrum hljóm er hætt við að þeir detti í gamla farið nema þeir séu sífellt minntir á hin raunverulegu verðmæti.
    Góðir áheyrendur. Við höfum þá undarlegu þversögn fyrir augum nú á allra síðustu árum að á meðan Austur - Evrópublokkin er að liðast í sundur í frumeiningar þjóða og þjóðabrota er að myndast sterkt ríkjasamband í Vestur - Evrópu. Auðmangarar hinna gömlu nýlenduvelda í vestri eru að bæta sér upp missi fjárhagslegra ítaka í þriðja heiminum með því að ná betra taki á efnahag allra þjóða innan seilingar þeirra. Þetta kalla þeir þróun og framfarir og íslenskir ráðamenn tipla í neti EB - köngullóarinnar, reyna að vera með án þess að festast alveg eða vera étnir. Þessi línudans virðist óhjákvæmilegur en hann er harla vandasamur.
    Kvennalistinn álítur að opna þurfi gáttir til samstarfs við erlendar þjóðir. En við verðum að gæta þess og minnast að við erum fámenn þjóð og fjarlæg frá hreiðri köngullóarinnar og að aðalatvinnuvegur okkar, sjávarútvegur, er viðkvæmur fyrir ásælni og rányrkju og munum að það er betra að vera fátæk, sjálfstæð smáþjóð heldur en útkjálki stórveldis, afræktur á sviði menningar okkar og mannlífs en gjörnýttur hvað auðlindir varðar, fiskimið og raforku. Við hvorki viljum né getum verið einangruð á Albaníuvísu heldur þurfum við að finna leið til heilbrigðra samskipta við stóru efnahagssvæðin án þess að verða gleypt.
    Því miður virðast sumir núverandi stjórnendur þessa lands hafa tekið trú á álver og erlenda stóriðju svo að álglýjan situr föst í augum þeirra. Hingað til höfum við ekki grætt neitt á álverum og járnblendiverksmiðjan, sem skilaði okkur arði, er farin að tapa. Það er ekki nóg að skreyta nafn flokksins með jafnaðarheitinu, veifa slagorðum um mannúð og frelsi ellegar að bæta grænum lit í fánann sinn. Athafnir verða að fylgja. Það að segja eitt og gera annað skapar vantrú á heilindi þeirra sem í hlut eiga.
    Góðir Íslendingar. Ríkisstjórnin telur sig hafa komið jafnvægi á efnahagslífið með lækkun vaxta og verðbólgu. Í mörgu njótum við góðs af því en það er önnur hlið á málinu og öllu dekkri. Til þess að halda verðbólgu neðan við eitthvert ímyndað rautt strik hefur hún ekki skirrst við að grípa til vafasamra sýndarráða, bregða samningum, dylja hækkanir, slá á frest óhjákvæmilegum útgjöldum en láta hinn almenna kaupþega lágra launa, sem einkum eru konur, bera byrðarnar.
    Þjóðarsáttin minnir á páskaegg sem á að gleðja okkur, þegna þjóðfélagsins. Í þessu páskaeggi er hin lága verðbólga brothætt súkkulaðiskurn en unginn uppi á páskaegginu er glókollur með gleraugu. Við eigum að eta þetta súkkulaðiegg en þegar skurnin brestur, og það gerir hún í síðasta lagi við kjarasamningana á komandi hausti, blasir innihaldið við: atvinnuleysi, gjaldþrot, skertur kaupmáttur, lántökur ríkisins, húsnæðiskerfi í rusli, skortur á dagvistarrými, skortur á húsaskjóli fyrir aldraða, landbúnaður í ógöngum, fiskveiðar á villigötum og svo mætti lengur telja. En eitt er víst, það er óbragð að molunum í páskaeggi ríkisstjórnarinnar. Og málshátturinn sem í ljós mun koma gæti hugsanlega verið: Sá er fuglinn verstur sem í sjálfs síns hreiður dritar.
    Hvernig skyldi nú standa á þessum bragðvondu molum í páskaegginu? Fjarri fer því að ég haldi að þeir hafi allir verið búnir til af núv. ríkisstjórn. Af mörgum þeirra er miklu eldra fúkkabragð. Hins vegar hefur þessi ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju fest sig í hugmyndum fræðinganna um hagvöxt og þjóðartekjur þar sem hagvöxtur er mældur í því kaupi sem greitt er en þess er ekki gætt fyrir hvaða vinnu er verið að borga og heldur ekki hve langan tíma það tók að vinna fyrir kaupinu.
    Við vitum öll að heljarátökin við Persaflóa hafa skilið löndin eftir í sárum, með logandi og mengandi olíulindum svo að ekki sést í heiðan himin á stórum svæðum. Fyrir liggur að geysilegu fé verður að verja til að bæta tjónið og mikið kaup þarf að greiða við uppbygginguna. Þetta mun mælast sem mikill hagvöxtur þó allir viti að þarna er verið að bæta geysilegt tap upp og stofna til mikilla skulda. Kvennalistinn hafnar svona leik með tölur og hugtök. Sú eina hagsæld sem er nokkurs virði er hagsæld fólks sem getur lifað af dagvinnulaunum, fólks sem getur eignast öruggt þak yfir höfuðið í einhverri mynd án þess

að verða þrælar þess sama húsnæðis allt sitt líf, hagsæld fólks sem getur notið þess að vera með börnum sínum og fylgst með þeim þroskast og dafna, hagsæld þjóðar sem hefur traust skólakerfi og heilbrigðiskerfi, þjóðar sem getur veitt æskunni traustan uppvöxt og ellinni öruggt ævikvöld.
    Kvennalistinn vill móta íslenskt þjóðfélag sem lifir í friði við náttúruna en spillir henni ekki. Hreint umhverfi og hreint vatn er auðlind sem má nýta með góðum, fjárhagslegum ávinningi. Smáiðnaður hentar fámennri þjóð betur en stóriðnaður. Við viljum landbúnað og fiskveiðar þar sem allt er gernýtt og engu á glæ kastað. Við viljum viðhorf og vinnubrögð hinnar hagsýnu húsmóður. 2% hagvöxtur í þjóðfélagi sem leggur áherslu á vernd lífs og óspilltrar náttúru er betri en 20% hagvöxtur þjóðar sem spillir og mengar með stóriðju og skilar því sviðinni jörð til framtíðarinnar, því sá er fuglinn verstur sem í sjálfs síns hreiður dritar.
    Eins og alþjóð veit höfum við verið í stjórnarandstöðu þau ár sem við höfum átt fulltrúa á þingi. Þess vegna höfum við ekki komið eins mörgum málum í höfn og við höfum vonað. En stjórnarandstaða er nauðsynlegur hluti lýðræðis, jafnnauðsynlegur og þeir sem stjórna því að í samspili stjórnar og stjórnarandstöðu er lýðræði fólgið. Og í tilefni orða iðnrh. vildi ég nefna að það er fásinna að átelja það að minni hlutinn nýti sér lýðræðislegan rétt til að ræða þingmál af kostgæfni. Þingstörf okkar hafa eigi að síður skilað drjúgum árangri. Þess sér víða vott, bæði í viðhorfum almennings og stjórnmálamanna og mörgu góðu höfum við hnikað fram hér innan Alþingis. Við vitum ekki í dag hvernig næsta ríkisstjórn verður skipuð og engu skal spáð um það í kvöld. En það er gaman og áhugavert að taka þátt í að móta okkar unga þjóðfélag og til þess þurfum við liðsstyrk ykkar, áheyrendur góðir, hvort sem við verðum í ríkisstjórn eða utan hennar.
    Íslendingar. Við eigum saman mikilvægt verk að vinna.