Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Verkefni hverrar ríkisstjórnar er eitt öðrum fremur ofar hverri annarri kröfu, þ.e. að stuðla að hagstæðri atvinnu- og efnahagsþróun á þann veg að sem flestir þegnar þjóðfélagsins fái notið sín á þeim vettvangi þjóðlífsins sem þeir sjálfir helst kjósa. Á eldhúsdegi seinustum fyrir alþingiskosningar líta menn því yfir farinn veg og meta aðstæður og árangur með það sérstaklega í huga hvað framtíð næstu mánaða muni bera í skauti sér. Borgfl. bar að hér á hinu háa Alþingi við einhverja þá mestu fjölmiðlasprengingu sem sögur fara af. Þann aðdraganda þarf ég ekki að rekja né eftirmála. Hitt er nauðsynlegt einmitt á þessari stundu að leggja áherslu á þegar verk og árangur núv. ríkisstjórnar eru lögð undir þjóðardóm í þingkosningum að menn minnist þess að sá árangur hefði ekki náðst án þess þingmeirihluta sem Borgfl. átti úrslitaþátt í að mynda. Árangur í stjórn efnahagsmála með varanlegt verðbólgustig um 5% er stórkostlegri en nokkurn óraði fyrir að nást mundi. Vinnufriður á grundvelli þjóðarsáttar hefur að auki tryggt betri og traustari atvinnu um allt land en nokkur þorði að vona. Í leiðinni hefur tekist að þoka fram hér á Alþingi margháttaðri annarri löggjöf sem verða mun þjóðinni allri til heilla um langa framtíð. Ég nefni sem dæmi þrjá stóra lagabálka á sviði réttarfarslöggjafar sem samþykkt voru hér á Alþingi nú fyrr í þessari viku.
    En þó að átök um einstök ágreiningsefni einkenni oft störfin hér á Alþingi og þar með svip þjóðmálaumræðunnar og geti stundum verið hvatinn að æskilegum ákvörðunum þá eru þau málslok oftar og miklu þýðingarmest sem einkennast af friði, sátt og samkomulagi. Ég er þeirrar skoðunar að þegar stundir líða fram verði sá árangur sem náðst hefur á seinni hluta þessa kjörtímabils í viðureigninni við verðbólguna talinn svo þýðingarmikill að engu stjórnmálaafli muni líðast að sleppa verðbólguskriðunni af stað aftur.
    Hins vegar eru út af fyrir sig eðlileg sárindi þeirra sem ekki áttu hlutdeild í þessum árangri. Það eru mannleg viðbrögð þó ekki séu þau stórmannleg. En þversagnir og tvískinnungur kemur víða fram. Sjálfstæðismenn ætla að lækka skatta en geta þess þó hvergi hvar þeir muni draga úr þjónustu ríkisins ellegar fjárfestingu á þess vegum sem þeim finnst þó allt of lítil á fjölmörgum sviðum. Það var þó ekki fyrr en þeir höfðu yfirgefið Stjórnarráðið sem tókst að knýja fram lægra skattþrep á innlend matvæli og lækka þannig matvælareikning heimilanna í landinu um röska tvo milljarða króna á ársgrundvelli og örva um leið sölu innlendu afurðanna og treysta að sama skapi rekstrargrundvöll innlendrar matvælaframleiðslu. Þessi eina aðgerð hafði þannig gífurleg jákvæð áhrif. Hér er þó aðeins hálfnað verk. Eðlilegt markmið er vitaskuld alls engin skattlagning á innlend matvæli, rétt eins og bækur. En ég endurtek að þessir áfangar náðust ekki fyrr en sjálfstæðismenn höfðu yfirgefið Stjórnarráðið. Sannleikurinn hefur því miður reynst sá að þeir berjast einungis fyrir lækkun skatta í atkvæðaöflun, í orði

en ekki á borði. Verkefni næsta þingmeirihluta ætti hins vegar að felast í því að færa skattbyrði frá þeim verr settu til hinna sem betur mega sín. Um það m.a. verður tekist á í íslenskri þjóðmálabaráttu á næstu vikum og mánuðum.
    Það er alsiða hér á Alþingi að tekist er á um afgreiðslu einstakra þingmála undir þinglokin og þá getur velvilji ellegar andúð einstakra þingmanna ráðið úrslitum um afdrif mála þegar tímaþröng er veruleg. Þó að ég geti vissulega allvel unað þeim hlut, sem sá málaflokkur er ég hef forustu fyrir í ríkisstjórn ber frá borði að þessu sinni, þá vil ég leyfa mér að nefna þrjú mál sem öll hafa fengið jákvæða umfjöllun og fjölmargir úti í þjóðfélaginu bíða jákvæðrar afgreiðslu á.
    Fyrst vil ég nefna frv. um opinbera réttaraðstoð. Hér væri um löggjöf að ræða sem skipta mundi miklu fyrir mikinn fjölda fólks og einmitt þá sem höllustum fæti standa.
    Í annan stað nefni ég frv. til laga um samfélagsþjónustu sem refsikost. Þegar sú löggjöf verður samþykkt mun hefjast mannbótastarf þar sem mest er þörf.
    Í þriðja lagi er frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings kaupum á björgunarþyrlu. Íslensk sjómannastétt og ekki síður þeir menn sem hætta lífi sínu oft við mjög örðugar aðstæður við björgun mannslífa eiga rétt á því að þetta mál fái afgreiðslu hér á þinginu þannig að tryggt verði að ný og öflug þyrla komist í gagnið eigi síðar en á árinu 1992. Allar úrtölur um að hér sé ekki fjáröflunarleið við hæfi, eins og heyrst hefur úr röðum Kvennalistans og sjálfstæðismanna, eru hjáróma raddir og sýna aðeins að stuðningur við kjarna þessa máls er hræsni blandinn. Alþingi fer með fjárveitingavaldið og þar er enginn þingmaður undanskilinn. Hér er hins vegar um stuðningsleið að ræða er veitt gæti að auki almenningi tækifæri til þess að sýna vilja sinn í verki.
    Góðir Íslendingar. Enda þótt loks hafi tekist samkomulag á milli ríkisstjórnar og stjórnar Seðlabankans sem leiða mun til afnáms á sjálfvirkni lánskjaravísitölunnar hefur einmitt sú sjálfvirkni verið helsti þrándur í götu þess að raunvaxtastig hér á landi væri á svipuðu stigi og í helstu viðskiptalöndunum. Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs á hins vegar allt sitt undir því að þau markmið náist sem í þessu samkomulagi felast. Sambærilegt raunvaxtastig er þar algjör nauðsyn.
    Það er einmitt afstaða Íslendinga til samskiptanna við næstu og fjarlægari nágranna sem setja munu sterkan svip á stjórnmálaátök næstu missira. Við búum í góðu og gjöfulu landi sem veitir þegnum sínum gnægðir auðs, einungis ef þeir bera gæfu til samkomulags og skynsamlegrar nýtingar. Þess vegna kemur óheftur matvælainnflutningur af mengunarsvæðum að minni hyggju ekki til greina. Hins vegar eigum við að taka af fullri einurð þátt í samstarfi við nágrannaþjóðir sem frjálst og fullvalda ríki. Til þess höfum við alla burði en ganga þarf vitaskuld fram með fullri gát og aðgæslu. Megi sú verða gæfa íslenskrar þjóðar í

heilbrigðu samstarfi annarra frjálsra þjóða.
    Ég þakka þeim sem hlýddu og býð góða nótt.