Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Gott kvöld, góðir áheyrendur. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með því hér í kvöld hvernig talsmenn Sjálfstfl. hafa talað um allt og ekki neitt, talað út og suður, og reynt með öllum tiltækum ráðum að breiða yfir staðreyndir málsins um eigin viðskilnað úr ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Þeir hafa verið að reyna að breiða yfir öngþveitið sem þeir skildu eftir sig haustið 1988. Þeir hafa lítið rætt um verðbólgu. Þeir hafa enn minna rætt um afkomu í íslenskum sjávarútvegi, alls ekki neitt um vexti, ekki minnst á framkvæmdir í samgöngumálum og svo mætti áfram telja. Og hvers vegna ekki? Hefur stærsti flokkur þjóðarinnar, sem stundum kallar sig kjölfestuna í íslenskum stjórnmálum, bara misst áhugann á þessu öllu saman? Hvað veldur þessari sérkennilegu þögn Sjálfstfl. hér í kvöld annað en sú staðreynd að hann sér að hans eigin verk í ríkisstjórn þola ekki samanburð? Þess vegna er betra að þegja um þessa hluti, tala um allt og ekkert, út og suður, austur og vestur og í kross, þversum og langsum eins og þeir gerðu hér í kvöld, Friðrik Sophusson og Halldór Blöndal, með ágætum. Þeir afrekuðu það að nota hér 30 mínútna ræðutíma Sjálfstfl. án þess að komast nokkurn tíma að nokkru sem máli skiptir.
    Þeir nefndu ekki þá staðreynd að þeir skildu eftir sig 30 -- 40% verðbólgu. Hún er núna 5%. Þeir nefndu ekki þá staðreynd að í öngþveitinu haustið 1988 blasti við stöðvun og hrun í undirstöðuatvinnugreinum landsmanna. Nú er hagnaður í öllum helstu greinum veiða og vinnslu í sjávarútvegi. Um þetta þögðu þeir allt saman, blessaðir mennirnir. Og það var skynsamlegt af þeim. Það var hárrétt hjá Sjálfstfl. að reyna eins og hann getur að þegja um þetta. Það er eina skynsamlega línan fyrir hann í kosningunum. En auðvitað verður hann ekki látinn komast upp með það. Auðvitað verður bent á það, sem við blasir, að hans viðskilnaður haustið 1988 er einhver sá versti í sögunni, eitthvert mesta umferðarslys síðari áratuga stjórnmálasögu í landinu.
    Nei, það urðu skýr og ótvíræð tímamót haustið 1988 þegar íhaldið gafst upp og Alþb. kom inn í landsstjórnina. Það urðu gagnger umskipti og nú eru erfiðar en óhjákvæmilegar aðgerðir að skila ríkulegum árangri. Kaupmáttur er vaxandi á ný, stöðugleiki ríkir og þetta gerist án þess að verðbólgan fari úr böndunum.
    Á þessu tímabili síðan 1988 hefur verið gert stórátak í samgöngumálum. Fyrir liggur ný og heildstæð stefna í formi vegáætlunar og nýrrar langtímaáætlunar. Ráðast skal í stórátök á sviði jarðgangagerðar sem gerbreyta munu aðstæðum í heilum landshlutum, verk sem menn hafa ekki þorað, brostið kjark til að ráðast í hingað til. Þetta er að mínu mati einhver róttækasta og raunhæfasta byggðaaðgerð sem gripið hefur verið til á undanförnum áratugum. Hún var ekki hafin í góðærinu meðan Sjálfstfl. fór með völd þegar þjóðartekjur voru meiri en nú. Þá brast kjark til þess.

Til þurftu að koma aðrir menn þannig að menn legðu í slík átök.
    Síðdegis í dag samþykkti fulltrúaráðsfundur Stéttarsambands bænda með yfirgnæfandi meiri hluta, 45:2 atkvæðum, þá landbúnaðarstefnu sem verið hefur í mótun undanfarin missiri og undirrituð var í byrjun þessarar viku. Ég held að það þurfi ekki að fara fleiri orðum um það verk sem þar er á ferðinni. Þessi úrslit á fulltrúaráðsfundi Stéttarsambandsins segja mér það sem ég þarf að vita um viðtökur íslenskra bænda við þessu máli. Þeim mun sorglegra er það að ákveðna aðila í stjórnmálum í landinu brestur kjark til þess að taka þátt í því að taka á þessu verkefni.
Það er auðvitað ekki nema mannlegt að menn vilji ýta slíkum erfiðum vandamálum frá sér, forðast það að taka á þeim. En stjórnmálin birtast mönnum stundum í skemmtilegum myndum eins og þegar formaður Alþfl. gerist helsti talsmaður þess og stuðningsaðili að framlengja gamla búvörusamninginn.
    Ég fagna ekki síst þeirri pólitísku samstöðu og því breiða baklandi meðal þjóðarinnar sem þessi nýja landbúnaðarstefna nýtur og birtist í virkri þátttöku fjöldasamtaka launafólks og vinnuveitenda á bak við þessa stefnumörkun. Og það verður að hafa það þó að í einum ónefndum stjórnmálaflokki séu nokkrar eftirlegukindur. Ég verð hins vegar að segja að sérkennilegur fannst mér kafli í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar um þessi mál. Hann hafði nokkuð hörð orð og kaldar kveðjur í frammi í garð þeirra sem mótuðu landbúnaðarstefnu undangenginna ára, talaði um það að nú væri verið að reyna að rétta af mistökin í landbúnaðarstefnu undangenginna ára. Það er rétt hjá honum. En síðan komst hann að þeirri kostulegu niðurstöðu að nú þyrfti Framsfl. til að lagfæra þá stefnu sem verið var að móta í dag. Með öðrum orðum, höfundar mistakanna, þeir sem mesta ábyrgð bera af öllum íslenskum stjórnmálamönnum á því hvernig landbúnaðarmál hafa þróast hér á sl. áratugum þykjast þess nú umkomnir að koma og lagfæra annarra manna verk. Ja, heyr á endemi. Ömurlegri tilraunir til yfirboða hef ég ekki heyrt enn þá í þessari kosningabaráttu og vonandi verður þetta metið.
    Góðir áheyrendur. Margt bendir nú til þess að andstæður séu að skerpast í íslenskum stjórnmálum. Hrikaleg valdataka íhaldsaflanna í Reykjavík í Sjálfstfl., þar sem borgarstjórinn í Reykjavík og fyrsti maður á framboðslista íhaldsins er orðinn formaður Sjálfstfl. og annar maður á framboðslistanum í Reykjavík er orðinn varaformaður Sjálfstfl., vekur mörgum ugg í brjósti. Alþb. er eina skýra mótvægið sem hægt er að efla gegn þessari valdatöku afturhaldsaflanna hér í Reykjavík. Ég er sannfærður um að kjósendur vilja ekki kalla þetta harðræði yfir sig, allra síst íbúar á landsbyggðinni. Mönnum hefur lengi staðið ógn af því einræði íhaldsins og peninganna sem hér hefur ríkt í borginni og ég er viss um að menn munu ekki vilja sjá landsstjórnina lenda einnig í sömu höndum. Öflugasti mótleikurinn er að efla eina íslenska vinstri flokkinn, Alþb. Það er ég sannfærður um að muni gerast í næstu kosningum og nýunninn sigur róttækra afla í Háskóla Íslands boðar upphafið á þeirri þróun.
    Góðir hlustendur. Afstýrum valdatöku íhaldsins. Lendum ekki aftur í öngþveitinu 1988. Veitum þeim öflum í Alþfl. og Sjálfstfl. ærlega ráðningu sem nú gæla við aðild að Evrópubandalaginu. Tökum upp virka friðarstefnu. Sendum erlendan her úr landi. Eflum eina íslenska vinstri flokkinn, Alþb., í komandi kosningum. --- Góðar stundir.