Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason hefur oft kallað mig mömmu þessarar ríkisstjórnar. Ég veit að hann meinar raunar þeirrar sem Steingrímur Hermannsson myndaði 1988. Það fór ekki á milli mála að ég gaf þeirri stjórn líf og átti síðan drjúgan þátt í að sú sem nú situr var mynduð.
    Nú ætla ég ekki að biðja afsökunar á tengslum mínum við ríkisstjórnina. Þegar fyrri stjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð haustið 1988 ríkti neyðarástand í landinu. Atvinnulíf í heilum byggðarlögum í rúst og meira atvinnuleysi blasti við en við höfum þekkt síðan fyrir stríð.
    Ef við hefðum gengið til kosninga haustið 1988 hefðu kannski einhver vandamál forustu Sjálfstæðisflokksins leyst, en vandamál fólksins í landinu aukist gífurlega. Þetta sjónarmið réði afstöðu þeirra borgaraflokksmanna sem vörðu stjórnina falli. Seinna gerðumst við aðilar að ríkisstjórn eins og kunnugt er.
    Og hvað hefur áunnist? Þið vitið það öll. Verðbólga mælist nú minni en áður hefur þekkst. Vaxtaófreskjan er á hröðu undanhaldi. Atvinnuvegir úti um landið eru á uppleið og atvinnuleysi er minna en þeir bjartsýnustu þorðu að vona.
    ,,Já, en þú gleymir þjóðarsáttinni,`` segir einhver. En þjóðarsáttin hefði aldrei verið gerð nema vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins treystu ríkisstjórninni. Hvað sem menn reyna að finna þjóðarsáttinni til foráttu hafa aðilar vinnumarkaðarins sýnt að þeim var full alvara. Ég minni á verðgæsluna sem Dagsbrún hefur staðið fyrir og hefur gefið betri raun en nokkur önnur verðgæsla fyrr og síðar.
    En hvað tekur við þegar kjörtímabilinu lýkur? Eru kjósendur búnir að gleyma ástandinu sem var? Vilja menn að frjálshyggjan, grálynd og grimm, setjist aftur að völdum? Spili hratt og villt og hlaupi svo í fangið á EB þegar allt um þrýtur? Eða vilja menn halda áfram á sömu braut og sl. þrjú ár? Vinna sig út úr vandanum sem verður til staðar næstu árin en yfirstíganlegur.
    Þeir sem urðu út undan í síðustu þjóðarsátt verða að fá hlut sinn bættan. Ég hef haldið því fram og held því fram að kjör hinna lakast settu verði að bæta gegnum skattakerfið. Launamisréttið er orðið svo mikið að það verður ekki bætt í venjulegum samningum. Sú óvirðing sem erfiðisfólki er sýnd með því að launa það svo illa sem nú er gert gengur ekki ef félagshyggja á einhverju að ráða í samfélaginu.
    Hæstv. forseti. Ég hef setið á Alþingi eitt kjörtímabil. Það er merkileg og athyglisverð reynsla. Efst í minningunni verður hvað hér ríkir vinsamlegt og afslappað andrúmsloft milli allra sem hér eru að störfum. Þar skiptir pólitík engu máli.
    Ég kem trúlega ekki aftur í þennan stól og vil því nota tækifærið og þakka öllum kynnin og óska þeim gæfu og gengis í lífi og starfi. --- Góða nótt.