Dreifð og sveigjanleg kennaramenntun
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Framkvæmd ákvarðana um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun ræðst af mörgu, en í fyrsta lagi af því hvernig þróast vinna við námsskrárgerð vegna fjögurra ára kennaranáms við Kennaraháskóla Íslands og í öðru lagi af því hvaða fjármunir verða veittir til þessara verkefna á komandi árum.
    Það var 14. febr. 1989 sem menntmrh. lýsti í bréfi til rektors Kennaraháskóla Íslands stuðningi við fram komnar hugmyndir um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun við stofnunina. Skólaráð Kennaraháskólans samþykkti á fundi sínum 10. mars 1989 að setja á laggirnar starfshóp til að athuga skipulag dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar og var Berit Johnsen, cand. polit. skipuð starfsmaður hópsins. Starfshópurinn skilaði áliti í desember 1989 en áður hafði ráðuneytið samþykkt að skipulegur undirbúningur að þessu námi hæfist þegar á árinu 1989. Starfshópurinn lagði fram ítarlegar tillögur um skilgreiningu og skipulag námsins þar sem gert var ráð fyrir því að almennt kennaranám, dreift og sveigjanlegt, yrði 120 eininga nám sem skiptist í þrjá meginþætti, þ.e. almennar uppeldisgreinar, kennarafræði og kjörsvið þar sem aðalnámsgrein átti ekki að vera minni en 30 einingar. Námið átti að samsvara fullu fjögurra ára námi og gert ráð fyrir að það gæti tekið 5 -- 7 ár og byggðist á námskeiðum í heimavistarskóla eða húsnæði Kennaraháskólans, styttri námskeiðum námshópa á heimasvæði, fjarnámi og loks leiðsögn með aðstoð síma og annarrar nútímasamskiptatækni.
    Frekari undirbúningur að þessu máli fór síðan fram á árinu 1990. Í lögum um Kennaraháskóla Íslands er gert ráð fyrir því að kennaranámið verði lengt úr þremur árum, 90 einingum, í fjögur ár, 120 einingar, og lengi hefur verið gert ráð fyrir því að lenging námsins komi til framkvæmda haustið 1991. Miðað við það þótti eðlilegt að gera ráð fyrir að hin dreifða og sveigjanlega kennaramenntun með 120 einingar hæfist á sama tíma því að annars hefði orðið um tvíverknað að ræða við undirbúninginn.
    Hinn 1. ágúst 1990 hófst sérstök vinna við námsskrá Kennaraháskóla Íslands og var hún falin Sigurjóni Mýrdal. Í lok janúar sl. lét hann af störfum og hvarf til frekara náms erlendis. Þá hafði hann skömmu áður lagt fram drög að námsskrá fyrir 120 eininga almennt kennaranám. Gert var ráð fyrir því að skólaráð Kennaraháskólans tæki afstöðu til tillagna Sigurjóns á fundi sínum 6. mars sl. og veit ég ekki betur en svo hafi verið gert. Miðað við það að skólaráðið staðfesti námsskrána á þessum tíma bendir allt til þess að almennt 120 eininga kennaranám geti komist á í Kennaraháskóla Íslands á komandi hausti, þ.e. haustið 1991. Það skilyrði sem hér er um að ræða ætti því að verða uppfyllt á þessu ári ef vinnu við námsskrána miðar fram svo sem verið hefur. Ástæðan til þess að vinna við námsskrána hefur ekki gengið hraðar er m.a. sú að Kennaraháskólinn hefur ekki haft nægilega starfskrafta til þess að vinna að þessu þýðingarmikla

og yfirgripsmikla verki.
    Ég sagði: Námsskrá Kennaraháskólans er skilyrði númer eitt. Skilyrði númer tvö eru fjármunir. Í fjárlagatillögum mínum fyrir árið 1991 gerði ég ráð fyrir 10 millj. kr. í ný verkefni við Kennaraháskóla Íslands. Við niðurstöðu fjárlaga samkvæmt greinargerð fjvn. var þar gert ráð fyrir því að 2,5 millj. af þessum 10 millj. rynnu til dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar. Þar af mun námsskrárgerðin ekki kosta minna en 800 þús. kr. og það er ljóst að þær 1,7 millj. kr. sem þá eru eftir verða knappar til þess að halda þeim verkefnum áfram. Engu að síður mun skólinn veita undirbúningi dreifðs og sveigjanlegs kennaranáms forgang innan þess þrönga fjárhagsramma sem honum er búinn.
    Ráðuneytið mun fyrir sitt leyti beita sér fyrir að nægjanleg fjárveiting fáist til dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar, enda liggi fyrir að Kennaraháskólinn hafi lokið þeirri undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er.
Menntmrn. leggur með öðrum orðum áherslu á og hefur fyrir sitt leyti unnið að þessu máli af talsverðu kappi. Það má segja að ráðuneytið hafi ýtt á eftir þessu verkefni umfram það sem venja er til um innri starfsemi háskóla. Afstaða okkar er almennt sú að háskólar eigi að fá að vera í friði með sína starfsemi og taka sínar sjálfstæðu, faglegu ákvarðanir innan síns starfsramma. Við höfum þrátt fyrir þessa stefnu ýtt mjög á það að dreifð og sveigjanleg kennaramenntun kæmist á. Það hefur verið forgangsmál af hálfu menntmrn. við uppbyggingu Kennaraháskólans og í rauninni má segja að þar hafi það eitt í meginatriðum tafið að menn hafa á sama tíma verið að undirbúa fjögurra ára kennaranám og ekki viljað fara hraðar með dreifða og sveigjanlega kennaramenntun, 120 eininga nám, en raun ber vitni um vegna þess að menn hafa óttast að um tvíverknað yrði að ræða.
    Ég tel að hér sé um að ræða eitt stærsta framfaramál skólakerfisins og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fsp. hér á Alþingi og vænti þess að fyrirspurnin sé til marks um það að fyrirspyrjandinn og flokkur hans og þingmenn allir muni sýna þessu máli áhuga í framtíðinni.