Dagskrárefni sjónvarps
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Rökin fyrir því að Sinfóníuhljómsveit Íslands og rekstrarkostnaður hennar hefur að hluta til verið greiddur af Ríkisútvarpinu eru einfaldlega þau að Ríkisútvarpið er eins konar foreldri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þar var mikill áhugi á að stofna hljómsveit. Þar var starfrækt útvarpshljómsveit mjög lengi og síðan Sinfóníuhljómsveitin. Hún er stofnuð fyrir 41 ári síðan, árið 1950, og síðan hefur alltaf verið um að ræða verulegt sambýli milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Ég er satt að segja þeirrar skoðunar að það sé heldur skynsamlegt að þessar menningarstofnanir, Ríkisútvarpið annars vegar og Sinfóníuhljómsveitin hins vegar, vinni saman og ég held reyndar að fleiri menningarstofnanir ríkisins mættu slá sér saman um verkefni en þegar er orðið.
    Varðandi það frv. sem hv. þm. nefndi, þá er það rétt að auðvitað hefði verið mikið betra ef hægt hefði verið að ljúka því en ég vek athygli á að aðalefni þess frv. var tæknilegs eðlis, þ.e. hvernig ætti að koma fyrir þýðingum á sjónvarpsefni. Og í þessu frv. er gert ráð fyrir því að allt efni sem fer í gegnum íslenskar sjónvarpsstöðvar verði þýðingarskylt, en erlent efni sem komi frá gervihnattastöðvum verði sent um kapal og verði þá ekki endilega þýðingarskylt. Það er mjög breið samstaða um þetta í þeirri nefnd sem undirbjó málið sem var embættismannanefnd en ekki pólitísk nefnd. Í henni voru fulltrúar líka frá Íslenskri málnefnd og fleiri slíkum aðilum. Þess vegna held ég að um það efni sé allvíðtæk samstaða. Kosturinn við þá umræðu sem fram hefur farið í vetur finnst mér vera sá að menn hafa allt í einu áttað sig á verulegum þáttum málsins og því hvernig er best að vinna verkið. Niðurstaðan finnst mér vera sú að menn segi í fyrsta lagi: Allt efni í íslenskum stöðvum á að vera íslenskt eða þýtt. Í öðru lagi segja menn: Það af erlendu efni sem kann að fara út verður þá að fara um kapal.
Það er framfaraspor að ná samstöðu um greiningu á þessu máli.
    Í síðasta lagi þakka ég hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur fyrir þann áhuga sem hún sýnir þessu máli með þessari fyrirspurn og reyndar oft áður hér í umræðu á Alþingi.