Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin og það gleður mig að heyra að undirbúningur er raunverulega þegar hafinn, búið að stíga fyrstu skrefin. Það er nú svo að það kom í ljós á síðasta Norðurlandaráðsþingi að það hrikti nokkuð í stoðum norrænnar samvinnu. Ég hef alltaf litið svo á að okkur sé mjög mikilvægt að eiga sem mest og best samskipti við þjóðir okkar, þær vestnorrænu þjóðir sem við störfum með og það sé mjög mikilvægt að efla samskipti þessara þriggja þjóða því að þær eru með nokkrum hætti sér í þessu Norðurlandastarfi og Grænlendingar í raun útilokaðir þaðan. Við eigum ýmislegra sameiginlegra hagsmuna að gæta og sameiginlegrar arfleifðar og séu Skandínavar ekki svo fúsir til samstarfs við okkur, þá eigum við þarna vettvang að starfa á sem getur orðið okkur mjög mikilvægur í framtíðinni.