Barnalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 17. þm. Reykv. beinir til mín fsp. á þskj. 748 sem hún gerði hér grein fyrir. Svar mitt hljóðar á þessa leið:
    Frv. að lögum til breytinga á barnalögum nr. 9/1981 var flutt á Alþingi 1987, eins og raunar kom fram í máli þingmannsins, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Það var flutt nokkuð breytt á Alþingi 1990, en hlaut ekki afgreiðslu að heldur.
    Í september 1990 fól ég sifjalaganefnd að gera nokkrar athuganir á barnalögum á grundvelli fyrri frumvarpa og með sérstakri hliðsjón af því að auka hlut dómstóla við úrlausn um forsjármál við hjónaskilnaði og semja síðan frv. um þetta efni. Eftir kannanir sifjalaganefndar á þörf á endurskoðun laganna hvarf hún að því ráði að taka saman frv. til barnalaga í heild sinni fremur en að stíla tillögur sínar í formi frv. til breytinga á barnalögum. Breytingarnar voru það umfangsmiklar og vörðuðu svo mörg efnisatriði að nauðsynlegt reyndist, skýrleikans vegna, að hafa þennan háttinn á. Reyndist verkið því umfangsmeira en í fyrstu var talið og vinnst ekki tími til að leggja frv. fram á þessu þingi.
    Frv. er engu að síður mjög langt komið og mun væntanlega verða lokið við það af hálfu nefndarinnar nú síðar í vor. Í tilefni fsp. tel ég hins vegar rétt að gefa aðeins örstutt yfirlit yfir efni þeirra frumvarpsdraga sem nefndin hefur samið og gera grein fyrir helstu breytingum sem það felur í sér, en rétt er að árétta að frv. er ekki fullfrágengið af hálfu nefndarinnar.
    Í frv. er lagt til að afnumin verði hugtökin ,,skilgetið`` barn og ,,óskilgetið`` í barnalögum og að í þeim lögum verði kveðið á um réttarstöðu barna samfellt og án tillits til þeirra grunnhugtaka. Lagt er til að lögfest verði ákvæði sem heimila foreldrum að semja um sameiginlega forsjá barna sinna eftir skilnað og sambúðarslit, svo sem var samkvæmt frv. frá 1987. Þá er foreldrum barns sem aldrei hafa búið saman heimilað að semja um slíka forsjá. Forsjá felur í sér, skv. 35. gr. barnalaga, rétt og skyldu foreldris til umönnunar og uppeldis barns og til að gegna lögráðum vegna barnsins, ráða persónulegum högum og tíðast fjármálefnum þess. Ef foreldrar búa ekki saman, þar á meðal hafa slitið samvistir vegna skilnaðar, vakna sérstök vandamál út af forsjárskyldum eða rétti til forsjár. Hér má greina á milli umönnunar - og uppeldisþáttar í forsjá og hins vegar lögráðaþáttar hennar. Samkvæmt viðhorfum í nútíma barnarétti á barnið rétt á umgengni og sambandi við báða foreldra þótt þeir búi ekki saman og foreldrarnir eiga að sínu leyti rétt og bera skyldur til að rækja umgengni við barn og gegna foreldraskyldum sínum þrátt fyrir samvistarslitin.
    Við skilnað foreldra hefur það verið grunnregla að forsjá barns skuli vera óskipt í höndum annars foreldris en umgengnisréttur og skylda hjá hinu. Hvarvetna á Norðurlöndum hefur verið lögfest heimild til að kveða á um sameiginlega forsjá barna við skilnað og raunar sumpart ef ógiftir foreldrar eru ekki samvistum. Barnið býr þá að jafnaði hjá öðru foreldri en dvelst hjá hinu tiltekinn tíma eða tímabil.
    Lögráðin eru hins vegar í höndum beggja þannig að þörf er á samþykki þeirra beggja og atbeina til allra meiri háttar ákvarðana er barnið varðar um persónulega hagi þess og fjármál. Með þessum hætti verða foreldraskyldur beggja virkari en ella væri. Reynslan erlendis sýnir að það foreldri sem barnið býr ekki hjá sættir sig betur við forsjárákvörðunina þegar tryggt er að það verði einnig eftirleiðis þátttakandi í lögráðum vegna barnsins og fær að hafa barn hjá sér oft í ríkari mæli en vera mundi samkvæmt almennum umgengnisreglum.
    Í frv. er lagt til að þessari forsjárskipun verði ekki á komið nema foreldrar séu sammála um hana og annað foreldra geti krafist þess að hún verði felld niður.
    Önnur meginbreyting um forsjá sem lögð verður til í þessu frv. er sú að bæði dómsmrn. og dómstóll geti leyst úr ágreiningi foreldra um forsjá barns og að dómsmrn. fjalli þá aðeins um mál að foreldrar séu sammála um það, endranær leysi dómstóll úr máli. Dómstóll eða ráðuneyti geta kveðið á um forsjá til bráðabirgða. Hliðstæð regla er um úrlausn um breytingu á forsjá.