Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 774 að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. félmrh.:
 ,,1. Eru brögð að því að íbúðir, sem veðdeild Landsbankans kaupir eða eignast á nauðungaruppboðum fyrir hönd Húsnæðisstofnunar, skemmist og fari í niðurníðslu meðan þær eru til endursölu?
    2. Fylgjast starfsmenn Húsnæðisstofnunar með því eftirliti sem fasteignasalar, byggingarfulltrúar og iðnaðarmenn eru sagðir sinna með þessu íbúðarhúsnæði?``
    Tilefni þessara fsp. er í fyrsta lagi í sambandi við fyrri lið að ég hef fengið upplýsingar og nokkrar kvartanir um það að það íbúðarhúsnæði sem veðdeildin kaupir í nafni Húsnæðisstofnunar sé undir mjög takmörkuðu eftirliti. Þessi hús skemmist af frostsprungum, gluggar séu brotnir án þess að eðlilegt eftirlit eigi sér stað í sambandi við þetta. Það er ekki aðeins á einum stað sem ég hef heyrt sögur um að þannig sé ásatt heldur er það því miður nokkuð víða.
    Í öðru lagi er síðari liður fsp. minnar vegna svars sem hæstv. félmrh. gaf mér í sambandi við skriflega fsp. sem ég lagði fram fyrr á þinginu um það að ákveðnir aðilar úti um land hefðu eftirlit með þeim íbúðum sem veðdeildin eða Húsnæðisstofnun eignaðist. Sú spurning hlýtur að vakna hvort Húsnæðisstofnun fylgist með þessum eftirlitsaðilum sínum og líka sú spurning hvort það geti verið að þessir eftirlitsaðilar séu svo ábyrgir sem kemur fram í svari ráðherra til mín um það hverjir séu eftirlitsaðilar í þessu tilfelli. Þess vegna er ítrekað í þessari fsp. hvernig Húsnæðisstofnun fylgist með þeim eftirlitsmönnum sínum sem ráðherra segir að fylgist með þessum málum, þ.e. fasteignasalar, byggingarfulltrúar og iðnaðarmenn á þeim stöðum þar sem þessar eignir eru til staðar.