Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svarið við fyrirspurnum mínum. Það kemur í ljós að ástandið hefur ekki verið reglulega gott. Það er ánægjulegt að heyra að stefnt er að því að breyta fyrirkomulagi, eftirliti og stjórnun á þessum málum. Ráðherra sagði að það væri lögfræðideild stofnunarinnar sem annaðist viðskipti við aðila sem hefðu umsjón með nefndum íbúðum og þá líka í sambandi við söluna. Mér er sagt að þessi lögfræðideild hafi símatíma hálftíma á dag og því hafi í sumum tilfellum gengið mjög erfiðlega að ná sambandi við lögfræðideildina, bæði þeim aðilum sem hafa haft áhuga á því að kaupa íbúðir frá stofnuninni og svo hinum sem hafa kannski viljað láta vita um að íbúðir í nálægð þeirra eigin íbúða væru í því ástandi að æskilegra væri að hafa eitthvert eftirlit með þeim. Mér sýnist að sú fsp. sem ég bar hér fram í vetur og einnig sú sem hér er til umfjöllunar hafi að einhverju leyti orðið til þess að ýta við stofnuninni um að þarna væri pottur brotinn. Ég fagna því og endurtek að ég þakka ráðherra fyrir svörin.