Kosningar til Alþingis
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki haft aðstöðu til þess að taka þátt í umræðum um þetta mál en ég vil ekki láta það algjörlega fram hjá mér fara. Það er í raun og veru mjög umhugsunarvert þegar menn ákveða að breyta kosningalögum og þar með starfskjörum þeirra sem eru að undirbúa kosningar á hverjum tíma, flokkanna eða framboðsaðila, að það gerist með mjög stuttum fyrirvara eins og nú er um að ræða. Hér er gert ráð fyrir því að breyta framboðsfresti, meðmælendatölu og ýmsum öðrum þáttum sem hafa auðvitað áhrif á það hvernig kosningar eru undirbúnar af hálfu flokkanna. Ég hefði talið að breytingar af þessu tagi þyrfti a.m.k. að gera þannig að menn gerðu sér mjög glögga grein fyrir því hvað væri að gerast. Það sem er að gerast er það að það er verið að stytta framboðsfresti frá því sem verið hefur og breyta þeim. Það er verið að breyta utankjörfundarkosningu í grundvallaratriðum og það er verið að breyta meðmælendatölu verulega frá því sem verið hefur.
    Ég er þeirrar skoðunar að almennt þurfi að standa þannig að málum af þessu tagi að menn séu gjörsamlega meðvitaðir um það hvað er á ferðinni og hvaða breytingar er um að ræða. Hér er um að ræða mál sem snertir sjálfan kjarnann í lýðræðinu og ég vildi ekki, virðulegi forseti, láta ljúka umræðum um þetta mál í þeirri deild þar sem ég á sæti öðruvísi en láta það koma fram að ég tel að hér sé um að ræða vandasamt mál og alvarlegt mál og að það sé umhugsunarefni hvort rétt sé að breyta með svo skömmum fyrirvara starfsaðstæðum þeirra sem undirbúa kosningar á hverjum tíma. Þetta vildi ég láta koma hér fram, virðulegi forseti, án þess að flytja hér tillögur um frestun málsins, breytingar á því né annað. Ég tel að það sé ekki ráðrúm til þess en ég get ekki neitað því að ég sakna þess að ekki skuli vera möguleiki á að taka nákvæmar á þessu máli í umræðum hér í þessari virðulegu deild.