Listamannalaun
Föstudaginn 15. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Þetta frv. er fyrir margra hluta sakir athyglisvert. Það var auðvitað löngu tímabært að endurskoða þau ákvæði sem gilda um listamannalaun. Gömlu lögin voru að efni til orðin allgömul. Ég held þau hafi verið samin 1967 eða eitthvað svoleiðis og Launasjóður rithöfunda 1975. Sú reglugerð sem gildir um starfslaun listamanna er líka samin í tíð Gylfa Þ. Gíslasonar sem menntamálaráðherra og er þess vegna líka orðin um 20 -- 25 ára gömul og reynslan hefur sýnt að þessi ákvæði sem við höfum nú búið við um hríð eru orðin allgömul og allúrelt. Gallinn við þetta frv. sem hér liggur fyrir er auðvitað sá að þessi ríkisstjórn sem nú situr treystir sér ekki til að stíga eitt einasta skref til hins nýja skipulags.
    Ég man ekki hvenær nefndin var skipuð sem samdi lögin um listamannalaun en störfum var hagað með þeim hætti að þessi ríkisstjórn sem nú situr þyrfti ekki sjálf að veita meira fé til menningarmála. Þegar hæstv. menntmrh. er þess vegna að hrósa sér af því hversu góður hann sé við menninguna þá gleymir hann því að margt af því sem gefið er er ávísun til framtíðarinnar. Þannig er auðvitað um þetta frv. hér, hið sama er auðvitað að segja um þá ákvörðun að ekki skuli tekinn virðisaukaskattur af bókum. Sú ákvörðun var leyst með því auka hallann á ríkissjóði en ekki með því að mæta þeirri tekjuskerðingu til ríkissjóðs með niðurskurði á öðrum útgjöldum eða með því að afla annarra tekna í staðinn, þannig að líka sú ákvörðun var ávísun til framtíðarinnar. Þetta hvort tveggja er auðvitað dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn. --- Það er leiðinlegt að hafa ekki vin sinn fjmrh. hér, það gerir svo sem ekkert til því það eru auðvitað ekki efni til þess að taka upp langt spjall um ríkisfjármál þegar maður er að velta fyrir sér listamannalaunum. ( SkA: Er þingmaðurinn að biðja um afturvirk skattalög?) Ég er nú ekki að biðja hv. þm. um að leggja sérstakan eignarskatt á bækur eða eignarskattsviðauka á bækur, ef þingmaðurinn heldur það sem er svo glaður að flytja frv. um eignarskattsauka.
    Ég skal svo ekki tala meira um þennan þátt málsins en víkja að hinu. Það er spurningin um það hvernig í ósköpunum sú nefnd sem samdi þetta frv. komst að þeirri niðurstöðu að það ætti að veita Launasjóðnum starfslaun sem svari til 360 mánaðarlauna. Myndlistarmönnum á að veita starfslaun sem svara til 240 mánaðarlauna. Það eru með öðrum orðum tveir myndlistarmenn á móti hverjum þrem rithöfundum. Síðan kemur í ljós að tónskáldin eiga ekki að vera nema 60 en allir aðrir listamenn 240 eða jafnmargir og myndlistarmennirnir.
    Sá sem les þetta frv. hér hlýtur að vera þeirrar skoðunar að það hljóti að vera mikil gróska í bókmenntum hér á landi ef það er svo að ástæða sé til að lögfesta það að 50% fleiri starfslaunastyrkir skuli veittir til rithöfunda en allra annarra listamanna annarra ef undan eru dregnir myndlistarmenn og tónskáldin sjálf. Þessi skipting er auðvitað mikið vafamál.
    Þegar ég var á sínum tíma að velta fyrir mér

hvernig væri hægt að koma þessu í kring, þá lagði ég það til að stofnaður yrði sérstakur sjóður sem hefði ekki annað markmið en það að deila því fé sem veitt væri til listamannalauna, til starfslauna fyrir listamenn, á milli undirsjóðanna. Ég get verið fullkomlega sáttur við þá deilingu að við hugsum okkur að hinir sérstöku launasjóðir listamanna séu fjórir. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að rithöfundar séu sér, myndlistarmenn sér, tónskáld sér og Listasjóður sér. Ég er á hinn bóginn ekki sammála því að Alþingi eigi með löggjöf að ákveða í eitt skipti fyrir öll hver sé starfslaunaþörfin í hvaða sjóð fyrir sig. Þó að Torfhildur Hólm hafi fengið fyrstu listamannalaunin og þó að Matthías Jochumsson hafi fengið hin næstu, þá er ekki þar með sagt að rithöfundar og skáld þurfi ævinlega að vera í broddi fylkingar allra listgreina hér á landi. Heimurinn er auðvitað að breytast. Tónskáldin og tónlistarmennirnir eru að spretta upp með miklum krafti, og alls konar önnur list, ballett, leiklist o.s.frv. sem ég kann ekki að nefna þannig að þörfin fyrir starfslaunin er auðvitað mismunandi í listgreinunum frá einni kynslóð til annarrar, frá einu tímabili til annars.
    Nú geri ég mér að vísu grein fyrir því að skýringin á því hversu mikið af starfslaunum er veitt til rithöfunda liggur í því að rithöfundar eru vanir því að fá heldur meira til sín en aðrar listgreinar og það er á þeim grundvelli sem lagasetningin er þannig að Launasjóðurinn eigi að fá 360 mánaðarlaun á sama tíma og aðrir verða að sætta sig við mun minna.
    Ég vil svo, herra forseti, vekja athygli á því, eins og ég sagði áðan, að á næstu fimm árum á að fjölga um 60 mánaðarlaun á ári og það er það sem ég vék að áðan. Ríkisstjórnin treysti sér ekki til að fjölga um nokkurn skapaðan hlut á þessu ári, þar sem ef við veltum aðeins fyrir okkur hvað það er sem rennur til þessara sjóða af fjárlögum, þá falla niður greiðslur eins og ég sagði áðan til starfslauna listamanna, Launasjóðurinn og svo hin almennu listamannalaun. Ég vil samt spyrja hæstv. ráðherra þeirrar spurningar hvort hann geti skýrt þinginu frá því hvernig þessar tölur voru fundnar, 360 mánaðarlaun til Launasjóðs rithöfunda, 240 til myndlistarmanna, í Listasjóð 240 og svo 60 til tónskálda, hvernig hann hafi fundið þessar tölur.
    Ég hafði séð þetta sem sagt fyrir mér, svo að ég ljúki nú mínu máli þannig, að einn sjóður yrði yfir þessu öllu. Hinir sérgreindu sjóðir mundu síðan gera grein fyrir því hvaða þörf væri hjá þeim listamönnum sem undir þá féllu á starfslaunum á því ári sem við tæki og á grundvelli slíkra greinargerða frá sjóðstjórnum mundi fénu verða skipt. Það yrði sem sagt ekki ákveðið af Alþingi í eitt skipti fyrir öll hver væru hlutföll listanna í menningarverðmætum okkar því að það er það sem við erum raunverulega að gera. Við erum að segja það að ef við segjum að menningarverðmætin séu 900 stig, þá leggi rithöfundar til 360 en myndlistarmennirnir 240 og aðrar listgreinar 240. Þetta er verðlagning á listina. Og þeir sem sömdu frv. voru svo vissir í sinni sök að þeir gefa

ekkert svigrúm til þess að hnika neinu til. Þetta er í eitt skipti fyrir öll. Löggjöf um listamannalaun sem er þannig upp byggð er auðvitað röng. Hún getur ekki staðist nema skamman tíma því að hún kallar á leiðréttingu og það sem verst er af þessu öllu er að þeir menn sem lögðu fram frv. hafa ekki í höndum nein gögn sem réttlæti skiptinguna, enga greinargerð sem geti útskýrt það sem hér er að gerast.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en þetta er sá höfuðgalli sem ég sé á frv.