Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Til mín var beint fyrirspurn varðandi þetta frv. um efnahagsaðgerðir. Ég skal upplýsa að það orðalag sem þar kemur fram um að deildin, sem sagt deild innan Byggðastofnunar, taki ákvarðanir í staðinn fyrir stjórn Byggðastofnunar er í samræmi við það sem ég taldi að væri vilji þeirra aðila sem væru í nefndinni. En mér mundi finnast það mjög óeðlilegt ef Byggðastofnun ætti á fundum sínum að fjalla um hverja einustu umsókn sem kæmi um skuldbreytingu og bera síðan þá ákvörðun undir forsrh. og fjmrh. Ég held að það væri miklu eðlilegra að þetta færi fram með þeim hætti að þessi deild innan Byggðastofnunar fjallaði um erindi sem henni bærust og fengi síðan umsögn þessara aðila. Hitt er miklu þyngra í vöfum og einnig má ætla eða kannski ekki ætla, en það eru alla vega miklu fleiri aðilar sem fjalla um þessi mál ef þetta fer inn til stjórnar Byggðastofnunar og mundi tefja afgreiðslu mála, enda er hér um venjulegar skuldbreytingar að ræða. Ef við tökum bara sem dæmi ef allar skuldbreytingar sem færu fram í bankakerfinu ættu að fara til stjórnarflokkanna, þá held ég að það yrði ekki um margar skuldbreytingar að ræða almennt í bankakerfinu.
    Þessi breyting sem lögð er til er í anda þess sem ég held að allir séu sammála um að lagt verði til, að það verði tryggt að þessir fjármunir, sem hefur verið ráðstafað til uppbyggingar atvinnufyrirtækja, glatist ekki heldur verði borgaðir til baka. Með þessu móti, eins og þarna er lagt til í frv., teljum við að það sé eins vel tryggt og hugsanlegt er. Og eins og fram kom hjá hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssyni eru fjmrh. og forsrh. þeir aðilar sem hafa yfir þessum tveimur stofnunum að segja, Ríkisábyrgðasjóði annars vegar og hins vegar Byggðastofnun.
    Þegar málið var í nefndinni var ég mjög tvístígandi varðandi frv. eins og það lá fyrir. Með beinu orðalagi mátti túlka frv. þannig að Byggðastofnun eða stjórn Byggðastofnunar væri heimilt að fella niður vexti af lánum þessara skuldabréfa og var ég mjög ósammála því þar sem þarna var ein stofnun að fjalla um mál sem varðar aðra stofnun, þ.e. Ríkisábyrgðasjóð, og ég tel það mjög óeðlilegt. En ég held að eins og frv. liggur fyrir núna sé það mjög ásættanlegt fyrir alla aðila og þarna sé gætt eins mikils réttlætis og hugsanlegt er.
    En varðandi þá umræðu sem hér spannst um stofnun þessa sjóðs á sínum tíma og þessara sjóða, bæði Hlutafjársjóðs og Atvinnutryggingarsjóðs, þá held ég að fáir, og sérstaklega þeir aðilar sem fengu fyrirgreiðslu úr þessum sjóði, hafi verið mjög sammála um að grípa til aðgerða af þessu tagi. Þannig var því miður komið fyrir undirstöðuatvinnugreinunum að þær voru komnar á vonarvöl árið 1988 og það þurfti að koma nýrri innspýtingu inn í kerfið. Það má segja að með þessari fyrirgreiðslu sem þarna var um að ræða hafi atvinnulífið hökt af stað á nýjan leik þó að ekki hafi með öllu verið leystur vandi þessara fyrirtækja en

hins vegar held ég að þessar aðgerðir hafi verið liður í því að endurskipuleggja fjármál fyrirtækjanna.
    Það er svo allt annað mál hvort fyrirtækin eru í stakk búin og verða í stakk búin til að greiða þessi lán til baka. Eins og ég rakti hér í fyrri ræðu minni og fram kom hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni eru af þessum 950 lánum sem veitt voru upp undir 600 í vanskilum, ekki vegna afborgana af þessum lánum, það er ekki komið að því, heldur vegna vaxtanna sem einungis eru fallnir. Þetta er ekki mjög traustvekjandi fyrir framhaldið. Ef fyrirtækin geta ekki einu sinni borgað vextina á réttum tíma, þá er spurning hvernig komið er fyrir fyrirtækjunum sem fengu þarna fyrirgreiðslu.
    Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín var beint af hv. þm. Halldóri Blöndal og því svarað hvernig brtt. eru hugsaðar.