Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri en með því er fylgifrv. til laga með breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og hlýt ég að geta þessi æði oft þegar ég fjalla um hið fyrra frv. eða má segja aðalfrv. og vona ég að ekki sé fundið að því þó að ég í raun mæli fyrir þeim báðum.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta langa ræðu. Ég flutti að vísu ítarlega ræðu um málið í Nd. sem að sjálfsögðu er í þingtíðindum, en ég ætla þó að fara yfir nokkra meginþætti þessara mála.
    Þegar á árinu 1984 skipaði ég nefnd til þess að skoða reglur um erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Það var gert að sjálfsögðu með fullu samkomulagi stjórnarflokkanna þá og gert af þeirri nauðsyn að lög og reglur sem gilda um erlenda fjárfestingu hér eru afar sundurleit og reyndar má segja að í mörgum tilfellum séu þau afar óljós og hefur oft komið til kasta lögfræðinga að skýra ákvæði þeirra. Heimildirnar er að finna í mörgum lögum, lögum sem fjalla um einstakar atvinnugreinar og því hefur æði oft ekki verið gætt þess samræmis sem þarf að vera.
    Í öðru lagi er hjá öllum flokkum, og þótt víðar sé leitað, mikill skilningur á því að tryggja þarf vel yfirráð okkar Íslendinga yfir meginauðlindum landsins, sérstaklega yfir fiskimiðunum, fiskveiðunum, yfir orkulindunum og reyndar yfir landinu sjálfu. En ákvæði í gildandi lögum um þessi atriði eru nokkuð óljós. T.d. er í gildandi lögum í raun og veru opið fyrir erlenda aðila að eignast og reka hér fiskiskip. Það er hægt t.d. með því að stofna hér fjárfestingarfélög sem geta verið í meirihlutaeigu útlendinga. Það eru engin ákvæði sem síðan banna að þessi félög geti eignast útgerðarfélög. Þetta eru sem sagt meginástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun að ráðast í þessa endurskoðun. Þessari endurskoðun var svona nokkurn veginn lokið 1987, en sú ríkisstjórn sem tók þá við tók það enn til endurskoðunar og hélt þessari vinnu áfram og lagði fram frv. sem sýnt var hér á hinu háa Alþingi. Þess má geta að þingmenn Sjálfstfl. lögðu fram það frv. á ný á síðasta þingi.
    Ég ákvað að taka þessi mál enn til athugunar, m.a. með tilliti til þess að nú eru í gangi samningar um Evrópskt efnahagssvæði og ástæða til þess að skýra línurnar betur en gert hafði verið. Þetta frv. sem hér er flutt --- eða þessi frv. því að niðurstaðan varð sú að það væri rétt að skipta þessu í tvö frv. eins og ég mun aðeins koma að síðar --- er afrakstur þessa starfs og byggir á öllu því sem áður var unnið og efnislega eru ekki mjög stórar breytingar í þessum frv. Það má segja að í þessum frv. er ekki eins opið fyrir erlenda fjárfestingu og var í því frv. sem lagt var fram á síðasta þingi, en í efnisatriðum eru þau að flestu leyti eins eða mjög lík.
    Niðurstaðan varð sú, eins og ég sagði, að flytja tvö frv., annað sem lýsir í meginatriðum þeim reglum sem gilda um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og

svo annað þar sem lagaákvæðum hinna fjölmörgu laga sem fjalla um heimildir erlendra aðila er breytt, er samræmt í þeim öllum og fellt undir og samræmt þeim meginreglum sem frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri lýsir.
    Í frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila má segja að 4. gr. sé megingrein því að í þeirri grein eru taldar þær takmarkanir sem eru á fjárfestingu erlendra aðila. Þar er í fyrsta lagi tekið fram að íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Hér er sem sagt tekið skýrt fram að takmarkanirnar eru þessar, að þeir sem ekki eiga hér lögheimili og það sem er afar mikilvægt að lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eign íslenskra ríkisborgara hafa með öðrum orðum einir rétt til að stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Hér er girt fyrir það sem ég nefndi áðan að hér verði stofnuð félög á öðrum sviðum sem eru í meirihlutaeigu útlendinga en geta síðan hafið atvinnurekstur innan fiskveiðilandhelginnar.
    Hér er svo jafnframt ákveðið með sömu skilmálum að eingöngu þeir aðilar sem teljast íslenskir ríkisborgarar eða fyrirtæki sem eru algerlega í eigu Íslendinga hafi rétt til frumvinnslu í sjávarútvegi. Og frumvinnslan er skilgreind svo að það er vinnsla til að bjarga sjávarfangi frá skemmdum. Um þetta urðu töluverðar umræður í hv. Nd. og þar kom fram að það kynni að vera erfitt að skilja þarna á milli frumvinnslu og framhaldsvinnslu og það skal út af fyrir sig viðurkennt. Hins vegar er ekki síst með tilliti til þessarar óvissu gert ráð fyrir því í frv. að setja upp sérstaka nefnd sem verði viðskrh. til ráðuneytis, og kem ég að því síðar, til að skera m.a. úr svona atriðum.
    Hér er einnig tekið fram um virkjunarrétt vatnsfalla og jarðhita að eingöngu hafi þar rétt íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og fyrirtæki sem eru að öllu leyti í eigu Íslendinga. Um vatnsvirkjanir gildir að vísu það ákvæði að þar hefur ríkið einkarétt fyrir ofan ákveðna stærð virkjunar og má segja að það sé með því fullkomlega tryggt að erlendir aðilar komast ekki í þær virkjanir. Hins vegar með jarðvarmann þótti nauðsynlegt að búa heldur betur um. Þar er ekki einkaréttur ríkisins. Hins vegar er hjá mörgum mikill vilji til þess að svipuð ákvæði verði tekin upp með jarðvarma fyrir neðan ákveðna dýpt og reyndar væri það tryggara ef tryggja á að erlendir aðilar ráðist ekki í slíkar framkvæmdir.
    Þá er tekið fram að erlendir aðilar megi aðeins eiga 49% af hlutafé í flugfélögum sem stunda flugrekstur hér á landi. Um þetta var nokkuð rætt og skiptar skoðanir í hv. Nd. Þetta var niðurstaða nefndarinnar og niðurstaða stjórnarflokkanna og byggð á því að það væri æskilegt að tryggja það að svo mikilvægur aðili í samgöngum landsins við umheiminn væri undir íslenskri stjórn.

    Þá er hér tekið fram að erlendir aðilar megi eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabönkum, þ.e. mega ekki eiga meiri hluta í viðskiptabönkum en hins vegar hafa þeir rétt frá 1. jan. 1992 að setja hér upp útibú. Það má segja að það sé ekki mikill munur þar á að eiga meira í íslenskum bönkum eða setja upp eigið útibú --- en þó. Það ætti að tryggja að hér væru ætíð starfandi einnig hlutafélagabankar sem væru í meirihlutaeigu Íslendinga.
    Þá er jafnframt tekið fram að það þurfi leyfi viðskrh. til kaupa á landi en það er gert ráð fyrir því að slíkt leyfi verði auðfengið þegar um land er að ræða sem er nauðsynlegt vegna viðkomandi atvinnureksturs.
    Sömuleiðis eru í þessari grein sett hámarksákvæði, í fyrsta lagi að erlend fjárfesting skuli ekki verða meiri án sérstaks leyfis en 250 millj. kr. á einu almanaksári og ekki yfir 25% í ákveðinni atvinnugrein og er nokkuð fjallað um það í greininni hvernig þetta skuli metið.
    Í þessu frv. eru síðan, eins og ég sagði, önnur ákvæði, m.a. um tilkynningaskyldu til Seðlabanka Íslands. Seðlabankanum verði ætlað að halda nákvæma skrá yfir erlenda fjárfestingu og jafnframt er gert ráð fyrir því að þeir erlendir aðilar sem fjárfesti sæki um leyfi til þess hjá viðskrh. en það má segja að það sé nánast formsatriði því að ákvæði laganna eru skýr um það hverjir eiga að fá leyfin, en með þessu móti er gert ráð fyrir að fylgjast megi með því hver erlend fjárfesting verður hér á landi.
    Eins og ég sagði áðan, herra forseti, þá er hér með fylgifrv. um breytingu á lagaákvæðum er varða erlenda fjárfestingu og er það löng upptalning í æði mörgum greinum, í einum 27 greinum þar sem gildandi lögum á viðkomandi sviðum er breytt til samræmis við meginreglurnar og meginreglan er sú að í stað þess að krafist er ríkisborgararéttar í ýmsum tilfellum til þess að erlendir aðilar megi taka þátt hér í atvinnurekstri, þá er því breytt í það að þeir skuli hafa verið búsettir hér í eitt ár. Þarna er vitanlega mjög mikið rýmkað til, en gert m.a. til að mæta þeim breytingum sem eru að verða í löndunum í kringum okkar og m.a. í samningum okkar við Evrópskt efnahagssvæði.
    Að lokum, herra forseti, gat ég þess í Nd., um það urðu miklar umræður, að með því að samþykkja þessi lög væri okkar staða langtum betri, langtum skýrari í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði. Eins og nú er í dag getum við í raun ekki sýnt neinar reglur,
höfum ekkert til að standa á ef við viljum hafa einhverjar sérreglur um fjárfestingu hér á landi. Ef þetta frv. verður að lögum, þá er hér skýr lagarammi og það er a.m.k. unnt að semja frá honum.
    Það var óumdeilt í hv. Nd. að þetta frv. tekur af öll vafaatriði í sambandi við fjárfestingu í fiskveiðum og í fiskvinnslu nema það er þessi spurning: hvað er frumvinnsla og hvað er framhaldsvinnsla? Það kom fram brtt. um að fella það niður en deildin samþykkti það ákvæði eins og þar er. Sömuleiðis eru tekin af öll vafaatriði í sambandi við virkjanir og að vissu leyti í

sambandi við landakaup. Það eru önnur lög sem þar skipta mjög miklu máli. Það eru fyrst og fremst jarðalög sem veita ákveðinn forkaupsrétt. Að mínu mati er mjög eðlilegt að endurskoða þau lög og styrkja þar einkarétt íslenskra ríkisborgara til að eiga hér land sem ekki er nauðsynlegt í atvinnurekstri. Landbúnaður er ekki í samningum um Evrópskt efnahagssvæði svo að kaup á jörðum til landbúnaðar eru algerlega háð eftir sem áður íslenskum leyfum.
    Hins vegar var meira rætt um það hvort þarna væri um að ræða takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila á öðrum sviðum, eins og t.d. í almennum iðnaði, þjónustugreinum o.s.frv. Þar er sett upp þessi regla, sem ég gat um áðan, að erlendur aðili verður að vera búsettur hér í eitt ár. Nú er það hin almenna regla Evrópubandalagsins að sami réttur skuli gilda fyrir alla þegna að þessu leyti. Og það er vitanlega rétt og auðvelt að benda á að íslenskir ríkisborgarar hafa verið búsettir hér í a.m.k. eitt ár. Svo það er a.m.k. auðvelt að halda því fram ef menn vilja að þarna er ekki verið að þessu leyti að mismuna. Og ég leyfi mér að segja að það var nú ein af ástæðunum fyrir því að þessi leið var farin, þ.e. um ákveðna búsetukröfu hér á landi.
    Ég neita því ekki að það kann að fara svo að einhver atriði þurfi að endurskoða ef ekki nást um það samningar, t.d. um fjárfestingu í bönkum eða fjárfestingu í flugfélögum. Þá er að mínu mati eðlilegt að á slíkum sviðum verði farið fram á aðlögunartíma.
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Þetta er að sjálfsögðu mjög viðamikið og stórt mál og ég fagnaði því hvað Nd. var sammála um að það væri æskilegt að afgreiða svona frv. og koma þessu á hreint. Þar komu fram brtt. annars vegar um þrengingu á ýmsum ákvæðum frá hv. þm. Kvennalistans og hins vegar um rýmkun frá hv. þm. Sjálfstfl. Niðurstaða meiri hluta deildarinnar var að hafa frv. óbreytt. Staðreyndin er vitanlega sú að í svona viðkvæmu og umfangsmiklu máli er um að ræða málamiðlun.
    Málið er búið að fá, eins og ég sagði í upphafi, mjög ítarlega umfjöllun, verið víða sent til umsagnar hjá hagsmunaaðilum og þessi málamiðlun, sem hér er lögð fram, er niðurstaðan. En það er vafalaust að hér er um mjög mikla opnun að ræða annars vegar, en hins vegar einnig vil ég leyfa mér að segja miklu ákveðnari ákvæði á þeim sviðum sem mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að hafa í eigin hendi.
    Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.