Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. meiri hl. félmn. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 928 frá meiri hl. félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, 406. mál. Frv. þetta gerir ráð fyrir að hætt verði að taka við umsóknum um húsnæðislán skv. lögum nr. 54/1986, eða með öðrum orðum, frv. felur í sér að svokölluðu 1986 - kerfi verði lokað með undantekningum á lánveitingum til þriggja lánaflokka, þ.e.:
    1. Lán til byggingar heimila fyrir aldraða og dagvistunarstofnana fyrir börn og aldraða.
    2. Sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir.
    3. Lán eða styrkir til tækninýjunga í byggingariðnaði.
    Jafnframt er heimild til húsnæðismálastjórnar að ákveða aðra lánaflokka að fengnu samþykki félmrh.
    Frv. þetta kom að vísu nokkuð seint fram hér á hv. Alþingi, en öllum er ljós sú staðreynd að brýna nauðsyn ber til þess að taka ákvörðun um framtíð þessa lánakerfis. Hæstv. félmrh. flutti hér ítarlega framsögu við 1. umr. um málið og nefndin fékk á sinn fund umsagnaraðila. Í nál. meiri hl. félmn. segir:
    ,,    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna um það Grétar J. Guðmundsson, aðstoðarmann félmrh., Sigurð E. Guðmundsson, Yngva Örn Kristinsson, Hilmar Þórisson, Gunnar Helgason og Þráin Valdimarsson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Ásmund Stefánsson, Magnús L. Sveinsson, Ásmund Hilmarsson og Gylfa Guðmundsson frá Alþýðusambandi Íslands, Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ragnhildi Guðmundsdóttur og Rannveigu Sigurðardóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Þórarin V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir nál. skrifa ásamt frsm. Karl Steinar Guðnason, Jóhann Einvarðsson með fyrirvara og Jón Helgason með fyrirvara.
    Þær brtt. sem sami meiri hl. félmn. flytur eru á þskj. 929. Þar er um að ræða breytingu við 3. gr. frv. þar sem fjallað er um þá lánaflokka þar sem heimilt verður að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Breytingin er við 3. tölul. sem í frv. er svona:
    ,,Lán eða styrk til tækninýjunga í byggingariðnaði.`` Þar leggjum við til að við bætist: og annarra umbóta. Þetta er gert til þess að binda ekki lánveitingar einungis við tækninýjungar í byggingariðnaði. Breyting við 4. gr., c - lið, er síðan í samræmi við þessa breytingu.