Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. félmn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 931 fyrir hönd 2. minni hl. félmn. um frv. til laga um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í nál. segir, með leyfi forseta:
    ,,    Annar minni hl. er sammála þeirri breytingu, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að hætt verði að taka við umsóknum um húsnæðislán samkvæmt lögum nr. 54/1986.
    Annar minni hl. gagnrýnir þá fljótaskrift sem er á meðferð málsins í miklum önnum á síðustu dögum þingsins.
    Hitt er þó öllu alvarlegra að ekki liggur fyrir áætlun um hvernig fjármagna á lán til þeirra sem þegar hafa fengið vottorð um lánshæfni eða lánsloforð og ætlunin er að afgreiða lán til samkvæmt lánakerfinu frá 1986.
    Í starfi nefndarinnar kom m.a. fram að lífeyrissjóðir halda nú að sér höndum um skuldabréfakaup frá Húsnæðisstofnun. Því býr það fólk sem nú bíður eftir láni við mikla óvissu um sinn hag og vanda þess er vísað til næstu ríkisstjórnar.
    Þar eð kvennalistakonur geta ekki samþykkt að þessi ákvörðun sé tekin án þess að um leið liggi fyrir áætlun um fjármögnun kerfisins mun 2. minni hl. ekki taka þátt í afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. skrifar Danfríður Skarphéðinsdóttir.