Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég geti tekið undir þá skýringu sem síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Suðurl., gaf á fyrirvara sínum, en ég skrifa einnig undir þetta nál. með fyrirvara. Mínar ástæður eru svipaðar og hans, fyrst og fremst þær að árið 1986 var samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um að setja það kerfi á stofn sem lagt er til með þessum lögum að verði afnumið. Það hefur ekki verið haft mikið og reyndar mjög lítið samráð við aðila vinnumarkaðarins um þessar breytingar. Það eru líka ákvæði um það í þessu frv. að breyta vaxtakjörunum sem ég er ekki alveg viss um að sé rétt að hafa miðað við aðilaskipti. Auk þess sé ég ekki að það sé gerð grein fyrir því á hvern hátt sá biðlisti, sem heldur áfram að lifa frá kerfinu 1986, verður leystur ef það verður afnumið, og hvernig fjármagns verður aflað til þess.
    Þeir aðilar sem komu til okkar til viðtals drógu mjög í efa gagnsemi margra af þessum breytingum auk þess sem má búast við því að í lok kjörtímabils þegar við erum að ljúka jafnviðamikilli breytingu á húsnæðiskerfinu eins og við erum að gera hér, þá muni nýr húsnæðismálaráðherra telja ástæðu til að taka þessar ákvarðanir allar til endurskoðunar rétt eftir að hann tekur við. Þess vegna hef ég skrifað undir þetta með fyrirvara. En með tilliti til þess að hér er um samkomulag hjá ríkisstjórninni að ræða um forgangsmál, þá mun ég láta það ganga í gegn hér með atkvæði mínu þó svo ég hafi verulegar efasemdir um mörg af þeim atriðum sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég vildi bara að þetta kæmi fram hér.