Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það var svo knappur tíminn í útvarpsumræðunum í gær að ég hafði ekki svigrúm til þess að víkja nokkrum orðum að hæstvirtum húsnæðisráðherra, en tel óhjákvæmilegt að leiðrétta ummæli hennar nú við þessa umræðu þegar verið er að tala einmitt um húsnæðislögin frá 1986.
    Í fyrsta lagi langar mig til að biðja hæstv. ráðherra að útskýra það hér uppi í stólnum ítarlega hvernig hann finnur það út að greiðslubyrði sé minni af láni sem er til 25 ára með 7,7% raunvöxtum en af láni sem er til 40 ára með 3,5% raunvöxtum. Bæði lánin eru verðtryggð með sömu vísitölunni. Annað lánið er með 3,5% vöxtum og hitt er með 7,7% raunvöxtum. Svo segir ráðherrann að það sé léttara að greiða af láninu sem er með 7,7% vöxtunum heldur en láninu sem er með 3,5% vöxtunum. Svo segir ráðherra að greiðslubyrðin sé léttari af láni sem er til 25 ára heldur en af láni sem er til 40 ára. Hvernig má þetta vera? Hvað setur ráðherrann inn í þetta? Hvers konar undarlegheit eru þetta eiginlega?
    Það er auðvitað hægt að fara yfir allar þessar tölur. Það er hægt að rifja upp hvað var heimilt að lána samkvæmt lögunum frá 1986. Auðvitað er það rétt að það var visst hámark á því hversu há lánin máttu vera samkvæmt lögunum frá 1986. En ef menn áttu fé til þess að svara út mismuninum á kaupverði og upphæð lánsins, ég sé ekki að það sé hægt að taka dæmið upp með öðrum hætti, þá gefur það auðvitað auga leið að greiðslubyrðin er meira en helmingi léttari af lánunum samkvæmt kerfinu frá 1986 heldur en húsbréfakerfinu.
    Ég veit ekki einu sinni að hvaða tölum við ættum að leika okkur, ég og ráðherrann. Eigum við að taka t.d. 2,5 millj.? Ef lánið er til 25 ára þá telst mér til að það séu 100 þús. kr. á ári sem verður að greiða af láninu. En ef lánið er til 40 ára, þá eru það rúmar 60 þús. kr. á ári. Ef við tökum 7,7% vexti af 2,5 millj., þá er það rétt um 200 þús. kr. En hvað ætli 3,5% vextir séu af 2,5 millj.? Það er meira en helmingi minna þannig að ráðherrann fór með alger ósannindi þegar hann lýsti því yfir í ræðu í gær að greiðslubyrði væri léttari af húsbréfunum en lánakerfinu frá 1986.
    Ég átta mig ekki á því hvers vegna ráðherrann er að setja fram aðra eins fjarstæðu og þessa. Ég geri mér ekki grein fyrir því. En það væri auðvitað mjög fróðlegt að fá svona útreikning. Hver eru núna afföllin af húsbréfum, hvoru megin við 15%? Ná afföllin nú 15%? Ég man það ekki. Þetta er því allt saman fleipur eitt.
    Tökum hitt. Hver hefur eyðilagt Byggingarsjóð ríkisins? Af hverju er Byggingarsjóður ríkisins eins illa staddur og raun ber vitni? Það er ekki hægt að kenna Þorsteini Pálssyni og hans ríkisstjórn um það, svo mikið er víst. Þegar Þorsteinn Pálsson var fjmrh. eða þegar lögin frá 1986 voru sett var talið að það yrði að veita einum milljarði í Byggingarsjóð ríkisins til þess að lánakerfið gengi upp. Og það var gert að kalla á

árinu 1987 þegar Þorsteinn Pálsson var fjmrh. Síðan tók Alþfl. við fjármálaráðherraembættinu eftir að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var mynduð og þá slaknaði strax á hjá formanni Alþfl. Ef ég man rétt, þá voru framlögin til Byggingarsjóðs ríkisins á verðlagi ársins 1990 2,4 milljarðar 1987 og 2,1 milljarður 1988. Ég held að ég fari rétt með þetta, 2,4 á verðlagi ársins 1990 og 2,1, mig minnir að þetta sé rétt. Samkvæmt verðlagi ársins 1986 var það svo að kalla að það yrði staðið við þennan milljarð sem þá var útreiknaður.
    En hvernig var þetta nú á síðasta ári, hæstv. ráðherra? Getur verið að í staðinn fyrir milljarða hafi það verið litlar 50 millj. kr. sem fóru í Byggingarsjóð ríkisins á síðasta ári? Er það rétt munað? ( Félmrh.: Hárrétt munað.) 50 millj. En hvað er það mikið sem fer á þessu ári í Byggingarsjóð ríkisins? ( Félmrh.: Ekki neitt.) Það er ekki króna. Og hver ber ábyrgð á því að þannig er farið með sjóðinn að hann er gerður fullkomlega gjaldþrota? Hæstv. ráðherra sinnir ekki þeirri embættisskyldu sinni að sjá til þess að staðið sé við samningana við verkalýðshreyfinguna um Byggingarsjóð ríkisins og ráðherrann hefur ekki dugnað í sér til þess að standa við það að inn í sjóðinn renni nægilegt fjármagn til þess að hann geti gengið.
    Nú skulum við segja, hæstv. forseti, að það sé allt í lagi. Ráðherrann hefur það auðvitað alveg í hendi sér hvort hann vill styrkja Byggingarsjóð ríkisins eða ekki, hvort hann vill standa við þau fyrirheit sem búið var að gefa, hvort ráðherrann telur það rétta leið í húsnæðismálum. Það er alveg fullkomlega á hendi ráðherrans. Það er hans pólitíska ákvörðun. En þá á ráðherrann heldur ekki að kenna öðrum um að sjóðurinn er drepinn. Þá á ráðherrann að hafa --- ég veit ekki hvort maður á að segja á þessum miklu jafnréttistímum, ekki manndóm heldur kvendóm í sér til þess að viðurkenna að það sé hann sjálfur sem tekur ákvörðunina um að greiða ekki nægilegt fjármagn inn í Byggingarsjóð ríkisins til þess að hann geti staðið undir. Byggingarsjóðurinn verður greiðsluþrota. Nákvæmlega það sama og þegar Alþfl. fór síðast með málefni Byggingarsjóðs ríkisins, þá var sjóðurinn á hausnum þegar aðrir komu að því verki.
    Ég veit svo ekki hvort það er ástæða til að hafa um þetta miklu fleiri orð. Það tvennt sem ráðherrann sagði um þennan sjóð í útvarpsumræðunum var heilaspuni. Það er alveg ljóst að það er miklu léttara að borga 3,5% vexti en 7,7. Það er auðveldara að borga lán upp á 40 árum en 25. Það skilja allir menn. Og hitt er auðvitað alveg laukrétt að þegar ráðherrann tók við embætti húsnæðisráðherra var honum kunnugt um að það hafði verið útreiknað að hann þurfti 1 milljarð á verðlagi ársins 1986 til þess að Byggingarsjóður ríkisins gæti staðið við sínar skuldbindingar. Það hefur verið staðið við það svo að segja alveg á árinu 1987, byrjaði að slakna á því hjá Jóni Baldvini, varð verulegur misbrestur strax á árinu 1989, ég man ekki hvort það var 1,5 milljarðar á verðlagi ársins 1990 sem þá rann til sjóðsins. Á árinu 1990 fór þetta niður í 50 millj. og núna niður í ekkert, núll krónur. Hin pólitíska ábyrgð á því að eyðileggja Byggingarsjóð

ríkisins er því húsnæðisráðherrans og ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það er alveg nákvæmlega sama hvernig ráðherrann reynir að snúa sig út úr þessu. Þarna liggur hin pólitíska ábyrgð. Ráðherrann getur auðvitað talað um það að hann vilji veita lán eftir einhverjum öðrum leiðum. Hann getur talað um félagslegar íbúðir. Hann getur talað um verkamannabústaði. Hann getur talið um búsetuíbúðir og hvað sem honum sýnist. Það skiptir engu máli. Þarna liggur hin pólitíska ábyrgð.
    Ef við værum að tala um lifandi mann sem búið væri að jarða, þá mætti kannski geta þess hver hefði komið honum fyrir í leiðinni og þá mundi standa: Húsnæðisráðherra Alþfl. Svona einfalt er þetta. Ég vona að við eigum ekki oftar eftir að þrátta um þetta, ég og húsnæðisráðherann. Við höfum gert það áður. Það hefur komið fyrir áður að ráðherra hefur reynt að halda því fram, bæði í fjölmiðlum og á Alþingi, að 7,7 sé lægri tala en 3,5. Ég veit náttúrlega ekki hvort það væri rétt að prófa, ef ráðherrann skilur ekki táknmál, þá má kannski reyna að hjálpa ráðherranum að telja á fingrum sér, hvort séu fleiri fingur, þrír fingur eða sjö fingur, eitthvað svoleiðis. Það hélt maður að lægi ljóst fyrir. En svona er nú þetta.
    Ef maður tekur Alþfl. að öðru leyti og til að reyna að sýna fram á málflutning þeirra að öðru leyti var svolítið spaugilegt í gær þegar iðnrh. talaði um það að hann væri maður sem stæði við orð sín og síðan fór hann að tala um álmálið. Maður sá álverið fyrir austan. Maður sá álverið fyrir norðan og maður sá að það var búið að semja um álver á Keilisnesi og maður sá að það var byrjað að byggja álver í Straumsvík því að allt þetta átti nú að vera komið í höfn. Og auðvitað stóð Jón Sigurðsson við orð sín.
    Ef maður talar um utanrrh. þá sagði hann og var mjög stóryrtur á haustdögum 1988 að það væri auðfengið að tryggja sjávarútvegshagsmuni okkar Íslendinga í gegnum viðræðurnar um Evrópusvæðið ef við mundum hengja okkur aftan í aðrar EFTA - þjóðir. Hann á alveg eftir að sýna fram á að nokkur árangur náist af hans leið. Það má færa veruleg rök fyrir því að við séum fjær því marki nú en við vorum á árinu 1988. Þar er því líka um hluti að ræða sem ekki standast. En það er annað mál sem ég skal ekki fara að fjölyrða um hér.