Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér er það mikil ánægja að fá hér tækifæri til þess að svara hv. þm. Halldóri Blöndal og skýra fyrir honum útreikningana á greiðslubyrðinni í lánakerfinu frá 1986 og í húsbréfakerfinu.
    Það sem vantar inn í málflutning hv. þm. er að hann skoði húsnæðisdæmi fólksins í heild. Það er rétt að í lánakerfinu frá 1986 eru vextir 4,5% og í húsbréfakerfinu eru þeir 6%. ( HBl: 7,7% vextir.) Ekki 7,7%. Ég skal skýra það líka fyrir hv. þm.
    Ef þú færð lítinn hluta af láni í íbúð, sem þú ert að kaupa, upp á segjum 6 millj., greiddan, en þú þarft líka að fá hluta af því lánað í bankakerfinu, þá er alveg útilokað fyrir þig þegar þú ert að meta þína greiðslubyrði að þú reiknir bara út greiðslubyrðina af láninu með 3,5% vöxtum eða 4,5% vöxtum en reiknir ekki út greiðslubyrðina af láninu sem þú þarft að taka í banka til þess að geta staðið undir íbúðinni. Hverjir eru þeir vextir? Þeir eru kannski um 8%. Þú verður því auðvitað að reikna út meðaltalið af heildardæminu af þeim vöxtum sem þú þarft að borga fyrir þau lán sem þú þarft að taka hvort sem það er í húsnæðiskerfinu, hjá lífeyrissjóðum eða bönkum. ( HBl: Hvaða íbúðakerfi hefur ráðherrann í huga?) Ég skal koma að því öllu. Það er því auðvitað mjög nauðsynlegt ef hv. þm. er að kaupa sér íbúð að líta ekki bara á einn hluta af lánunum. Hann þarf líka að borga af bankaláninu sem hann þarf að taka til þess að geta staðið undir íbúðinni. Þegar hann hefur þetta fyrir framan sig, bæði lánið í bankanum, lánið sem hann hugsanlega þarf að taka hjá lífeyrissjóði og hjá húsnæðiskerfinu, þá getur þingmaðurinn sest niður og reiknað út hver er greiðslubyrðin á mánuði. Ef hann reiknar það ekki út, þá lendir þingmaðurinn bara í vandræðum.
    Nú skulum við skoða dæmið. Við skulum taka íbúð sem kostar 6 millj. Það er 3 -- 4 herbergja íbúð. Við skulum segja svo að hv. þm. eigi 1 milljón þegar hann fer af stað með þetta. Hver er þá greiðslubyrðin? Annars vegar ef hann fengi fyrirgreiðsluna í lánakerfinu frá 1986 og hins vegar í húsbréfakerfinu? Það kemur út úr útreikningum að fyrstu fimm árin ( HBl: Hvað er húsbréfalánið hátt?) 65% af 6 millj. ( HBl: 65% af 6 millj. En ...) ( Forseti: Forseti vill biðja hv. 2. þm. Norðurl. e. að nýta sér þau tækifæri sem honum gefast til að koma hér í ræðustól í þessari umræðu þannig að hæstv. félmrh. geti haldið áfram máli sínu.) Ég held að það væri mjög gott að skýra þetta út líka með töflu fyrir hv. þm. Það er nefnilega mjög mikilvægt, eins og ég sagði, að skoða dæmið í heild. Ég ætla fyrst að ljúka þessu 6 millj. kr. dæmi til að rugla ekki þingmanninn.
    Þegar þessi tvö dæmi eru skoðuð fyrstu fimm árin kemur í ljós að fyrstu fimm árin er mánaðarleg greiðslubyrði í húsbréfakerfinu 50 þús. kr., en mánaðarleg greiðslubyrði samkvæmt 86 - kerfinu er fyrstu fimm árin 55 þús. Þetta helgast af því að skammtímalánin sem þarf að taka í þessu skyni eru mjög þung fyrstu árin. Síðan þegar búið er að hækka lánshlutfallið, sem nú stendur til, upp í 75% í húsbréfakerfinu þá er greiðslubyrðin í húsbréfakerfinu enn hagstæðari. Þá fær viðkomandi enn hærra hlutfall lánað til 25 ára en þarf ekki að byggja sína útborgun að verulegu leyti á skammtímalánum til eins, tveggja eða þriggja ára í bönkum. Það liggja fyrir töflur um þetta sem ég skal með mikilli ánægju láta hv. þm. fá. Ef við tökum hér dæmi um greiðslubyrði af íbúð sem kostar 5,2 millj., eigið framlag 800 þús. og árstekjur séu 2 millj. kr. Þetta er dæmi sem var reiknað út sennilega fyrir ári síðan en það sýnir mjög vel, hv. þm., að fyrstu fimm árin er greiðslubyrðin mjög þung í 86 - kerfinu miðað við þetta dæmi út af skammtímalánunum sem þarf að taka. Eftir fimm ár jafnast þetta yfir.
    Allir útreikningar sýna það, hvað sem hv. þm. segir, að meðalgreiðslubyrðin og meðalvextir hjá því fólki sem þarf að taka þessi skammtímalán eru 6 -- 7%. Vextirnir í húsbréfakerfinu fyrir íbúðakaupendur eru 6% en ekki yfir 7%. ( HBl: 7,7%.) Þingmaðurinn ruglar saman vöxtum og ávöxtunarkröfum. Ég veit ekki hvort ég þarf að taka hv. þm. einnig í tíma og sýna honum fram á hver mismunurinn sé á ávöxtunarkröfu, afföllum og vöxtum. Ég gæti svo sem gert það og ég tel það kannski nauðsynlegt að fara aðeins nánar út í það dæmi.
    Þegar þú gerir þín íbúðarkaup, hv. þm., og ætlar að taka það í gegnum húsbréfakerfið, þá gefur þú út fasteignaveðbréf. Þau bera fasta vexti, 6% vexti. Húsbréfin færð þú aldrei í hendurnar. Seljandinn aftur á móti fær húsbréfin í hendurnar og hann er laus allra mála við þig, hv. þm. Þú skuldar honum ekki neitt. Þú skuldar aftur á móti Húsnæðisstofnun þetta fasteignaveðbréf með 6% vöxtum sem Húsnæðisstofnun getur ekki breytt. Sveiflur í gengi húsbréfa koma því aldrei niður á íbúðarkaupandanum. Hann borgar bara sína föstu 6% vexti af fasteignaveðbréfum.
    Ef íbúðaverð hefði hækkað verulega, þá gæti það komið fram í íbúðarverðinu og þar með myndað, við getum kallað það afföll. Íbúðarseljandinn ber afföllin á húsbréfunum ef hann fer með þau út á markað og leysir þau út. Ef hann lætur þau ganga upp í næstu íbúðarkaup, þá ber hann ekki afföllin. Og af því að þetta nýja hugtak, afföll, virðist aldrei hafa verið inni í umræðunni fyrr en eftir að húsbréfakerfið kom til, þá er auðvitað nauðsynlegt að skýra það út að afföllin eru ekkert nýtt fyrirbæri í húsnæðismálum. Þau koma bara með öðrum hætti. Gagnvart seljandanum komu þau áður með þeim hætti að hann fékk 75% af verði sinnar íbúðar greidd út á einu ári og það var án vaxta eða verðtryggingar. Með öðrum orðum, hann bar þar afföll sem voru algeng 10%. Að auki fékk hann 25% af verði íbúðarinnar greidd á fjórum árum. Nú fær seljandinn íbúðina greidda iðulega á einu ári. Það er auðvitað til hagræðis fyrir seljandann.
    Ég nefni dæmi af manni sem kom til mín og sagði að þegar væri verið að ræða þessi afföll þyrftu menn að skoða þetta í víðara samhengi. Þarna hefði hann fengið peningana í hendurnar, íbúðina svo til staðgreidda, sem hefði gert honum kleift, af því að hann

var að byggja, að fá verulegan staðgreiðsluafslátt af innréttingum í sína nýju íbúð sem hann ekki hefði fengið ef hann hefði bara fengið þetta smátt og smátt borgað út.
    Síðan eru það afföllin í 86 - kerfinu. Hv. þm. man það væntanlega að íbúðaverð rauk upp þegar 86 - kerfið kom til og lánshlutfallið hækkaði. Þannig að verulegur ávinningur, sem fólk átti að hafa af 1986 - kerfinu, hvarf í verðhækkanir. Þær voru nálægt 10%. Af 5 millj. kr. íbúð erum við þá að tala um 500 þús. sem ég segi að sé ekkert annað en afföll. Og síðan er það biðtíminn, hv. þm. Hann kostar líka peninga. Það er nauðsynlegt að fólk átti sig á því. Af hverju segi ég það? Vegna þess að það er þannig að fólk þarf oft að koma sér þaki yfir höfuðið fljótt. Ungt fólk sem ætlar að fara að búa en getur ekki beðið kannski 2 -- 3 ár. Þá neyðist fólk til þess að festa kaup á íbúð út á væntanleg lánsloforð og í millitíðinni þarf það að taka þessi skammtímalán í bönkunum. Og það þarf að framlengja þau aftur og aftur. Stundum lendir fólk í vanskilum, fær lögfræðikostnað og fleira og allt þetta kostar fólk mikla peninga. Og er þetta nokkuð annað en afföll?
    Ég vona, virðulegi forseti, að mér hafi að einhverju leyti tekist að skýra þetta út fyrir hv. þm. Það er útilokað að hv. þm., svo greindur sem ég hélt nú að hann væri, einfaldi svo málið að hann taki bara einn hluta af íbúðarverðinu og reikni vexti á það og finni síðan út greiðslubyrði en gleymi bankaláninu með 8% vöxtum sem hann þarf að taka. Þingmaðurinn hlyti að fara fljótt á hausinn ef hann gleymdi að taka með í reikninginn slíkt lán.
    Aðeins út af 86 - kerfinu og hvernig fyrir því er komið, þá minntist ég á það, af því að hv. þm. var nú að vitna í ræðu mína mikið í gær, að í mars 1987, áður en ég settist í stól félmrh., þurfti að loka þessu kerfi. Það var hætt að veita lánsloforð. Það var búið að ávísa þeim svo langt fram í tímann að Húsnæðisstofnunin treysti sér ekki til þess að ávísa lánsloforðum lengra fram í tímann. Þá þegar var biðtíminn ekki mældur í mánuðum heldur í árum og kerfinu var lokað. Ef ekkert hefði nú verið gert, hv. þm., og þetta kerfi hefði bara verið opnað eins og það var sett af stað, þá liggur fyrir að þó að allt fjármagnið sem við höfum haft yfir að ráða frá lífeyrissjóðunum og sá hluti sem gengur í almenna kerfið hefði farið í þetta lánakerfi frá 1986 og við hefðum ekki haft neitt húsbréfakerfi hefði biðtíminn samt lengst og væri orðinn allt að fimm ár.
    Þetta lánakerfi var því raunverulega orðið gjaldþrota áður en ég settist í stól félmrh. Og fyrsta verk mitt meðan var verið að koma á fót nýju kerfi var að vinda ofan af þessari sjálfvirkni og takmarka það að fólk fengi bara lánsloforð í hendurnar tveim mánuðum eftir að það legði inn umsókn. Það var mitt fyrsta verk að bjarga því sem bjargað varð í því efni.
    Og af því að hv. þm. er að vitna í þennan milljarð og ríkisframlagið, þá liggja nú fyrir reikningar um það að þegar á fyrsta ári kerfisins, í fjárlögum 1987, vantaði 300 -- 400 millj., í fjármálaráðherratíð Þorsteins

Pálssonar, upp á að þessi milljarður skilaði sér inn. Á þeim tíma, 1987, fór 1 milljarður gegnum skattakerfið til þess að koma til móts við greiðslubyrði fólks. Hét það ekki vaxtaafsláttur þá eða húsnæðisbætur? Á þessu ári á sambærilegu verðlagi fara 2 milljarðar í gegnum skattakerfi í formi vaxtabóta. Með öðrum orðum hafa þær tvöfaldast. Og gegnum vaxtabæturnar erum við að borga niður húsnæðiskostnað fyrir fólk sem á því þarf að halda, fólk með lágar og miðlungstekjur. Við erum því að setja stærri upphæð í einn farveg í gegnum skattakerfið til þess að létta greiðslubyrðina hjá fólki með lágar og meðaltekjur. Það hefur sýnt sig að raunvextir fólks sem kaupir sér litla íbúð eru ekki nema 2 -- 3% eftir að það hefur fengið vaxtabæturnar. Við höfum stýrt fjármagninu þessa leið gegnum vaxtabæturnar í staðinn fyrir það að allir fái jafnar niðurgreiðslur hvort sem þeir þurfa á því að halda eða ekki. Maðurinn í einbýlishúsinu, sem hafði margfaldar tekjur á við fólk með lágar og miðlungstekjur, fékk sama greitt niður eins og fólkið með lágar og miðlungstekjurnar. Þetta var kerfið áður. Þessu erum við búin að breyta og stýra því inn í einn farveg.
    Ég held að nauðsynlegt sé, virðulegi forseti, út af þeirri umræðu sem hér varð að upplýsa þetta þó að ég vilji síður vera að taka mikinn tíma af þessari hv. deild í önnum hennar og læt því máli mínu lokið.