Greiðslujöfnun fasteignaveðlána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. meiri hl. félmn. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 982 um frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, nr. 83/1985, frá meiri hl. félmn.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Grétar J. Guðmundsson, aðstoðarmann félmrh., Sigurð E. Guðmundsson, framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar, Yngva Örn Sigurðsson, formann húsnæðismálastjórnar, Hilmar Þórisson, skrifstofustjóra Húsnæðisstofnunar, Ásmund Stefánsson, Ásmund Hilmarsson, Magnús Sveinsson og Björn Þórhallsson frá Alþýðusambandi Íslands, Þórð Skúlason og Vilhjálm Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, Ragnhildi Guðmundsdóttur og Rannveigu Sigurðardóttur frá BSRB og Gunnar Helgason og Þráin Valdimarsson úr húsnæðismálastjórn.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að raunvaxtahækkun hafi ekki í för með sér greiðslujöfnun, en greiðslujöfnun felst í því að mismunur á hækkun launavísitölu og lánskjaravísitölu og hækkun á raunvöxtum er færður á sérstakan jöfnunarreikning sem telst til höfuðstóls lánsins. Eftir að sett voru ákvæði um vaxtabætur með lögum nr. 79/1989, sbr. lög nr. 117/1989, er ljóst að lántakandi nýtur ekki vaxtabóta vegna skuldar á jöfnunarreikningi sem komin er til vegna raunvaxtahækkunar þar sem vaxtabætur miðast við fjárhæð vaxtagjalda, en til þeirra teljast einungis gjaldfallnar verðbætur og gengistöp á afborganir og vexti, sbr. ákvæði skattalaga. Að óbreyttum lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána þýðir raunvaxtahækkun það í framkvæmd að lánstími lengist ef skuld er á jöfnunarreikningi við lok lánstíma og lántakandi nýtur ekki vaxtabóta eins og fyrr er greint. Með því að fella misgengi vegna raunvaxtahækkunar úr lögunum er verið að tryggja að þeir sem eiga rétt á vaxtabótum fái raunvaxtahækkun bætta.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.``
    Undir nefndarálitið rita auk frsm. Jóhann Einvarðsson, Karl Steinar Guðnason og Jón Helgason.