Samvinnufélög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa ánægju með það að þetta mál skuli vera komið til 2. umr. og með þann velvilja sem hv. þm. sýna málinu með því að afgreiða það í gegnum deildina eins hratt og raun ber vitni. Einnig vil ég taka það fram að mér finnst að sú breyting sem lögð er til af nefndinni sem gerð verði sé mjög til bóta og mjög eðlilegt að ákvæðin sem varða innlánsdeildirnar séu eingöngu í bráðabirgðaákvæðinu.
    Þá vil ég að það komi líka fram að til að þessi lög gagnist hreyfingunni þarf að gera breytingu á skattalögum til samræmis við hlutafélagalög þannig að kaup á B-deildarbréfum í viðurkenndum félögum séu frádráttarbær til skatts. Þetta er mál sem kannski nær ekki fram að ganga á þessu þingi sem er alveg að ljúka, en alla vega verður þá tekið fyrir á næsta þingi.