Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Enginn efast um ágæti þess málefnis sem hér er um að ræða og brýna nauðsyn. Ég verð hins vegar að játa það að ég hef afar miklar efasemdir um að hér sé verið að fara rétta leið og að þessi leið muni skila því sem til er ætlast. Ég held að ef við ætlum að kaupa þyrlu af þessu tagi, þá eigi menn einfaldlega að taka þá ákvörðun og gera það þó að fjármögnun þess kunni að vera erfið. En í ljósi þess samkomulags sem gert hefur verið og þó mér sé það raunar ekkert sérstaklega léttbært og í trausti þess að málið verði hugsanlega fært til annars og betri vegar í meðförum hv. Nd., þá segi ég já.