Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Ég vil vísa til þess er hv. þm. Jóhann Einvarðsson sagði hér í sambandi við þá samþykkt sem gerð var um leið og fjárlög voru afgreidd hér á haustdögum. Mér finnst undarlegt að hver þingmaðurinn á fætur öðrum gefur yfirlýsingar um það að það sé búið að leysa málið í sambandi við lánsfjárlög. Þeir virðast vita betur stjórnarandstæðingar heldur en við sem stöndum að stjórninni. Ég tel að þetta mál leysist ekki á annan máta en þann að við samþykkjum það frv. sem hér er verið að fjalla um. Og ég vil benda á það þegar verið er að ræða um samkeppnisstöðu þessa máls við önnur happdrætti að við hefðum ekki fengið happdrætti SÍBS, það happdrætti sem hefur fært okkur kannski mest og best, ef við hefðum sagt að það væri verið að beita því í samkeppni við Happdrætti Háskóla Íslands. Ég segi já.