Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 926 um frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Nál. þetta er frá allshn. og er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,    Frv. þetta er flutt af formönnum þingflokkanna og felur í sér þá meginbreytingu að deildaskipting Alþingis verði afnumin, ásamt ýmsum smærri atriðum sem tengjast störfum Alþingis. Nefndin hefur farið yfir efni frv. og leggur til að það verði samþykkt eins og því var breytt í meðförum neðri deildar.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn.
    Tilgangurinn með þessari breytingu er fyrst og fremst sá að auka sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og færa starfshætti og skipulag þingsins í nútímalegra og um leið væntanlega betra horf þótt vissulega sé að sumu leyti eftirsjá í gamla tímanum. Meðal breytinga sem frv. gerir ráð fyrir er að þingmenn haldi umboði sínu til kjördags og Alþingi starfi allt árið. Með því að þing starfi allt árið er mun auðveldara að kalla þing saman til funda, ef fundum verður frestað t.d. vegna sumarleyfa, ef þörf er á.
    Í núverandi skipulagi Alþingis eimir enn eftir af því er Alþingi fékk að koma saman til fundar af konunglegri náð. Með breytingu á starfstíma Alþingis, þingrofsrétti og bráðabirgðalögum er Alþingi án efa að auka sjálfstæði sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu en um leið eykur þingið ábyrgð sína gagnvart þjóðinni. Með því að færa þingið saman í eina málstofu vænta flutningsmenn að starfshættir og skipulag þingsins verði bætt.
    Hvað varðar t.d. starf nefnda má benda á að hver þingmaður situr í mun færri nefndum, oftast einni til tveimur, og því gefst mun betri tími til að kanna einstök mál. Jafnframt eykst ábyrgð þingnefnda og ef þær valda henni eykst vægi þingnefnda í þjóðmálaumræðunni frá því sem nú er. Ég tel því þessar breytingar til bóta.
    Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa um nánari efni að mestu til framsöguræðu hv. 4. þm. Suðurl. Margrétar Frímannsdóttur er hún mælti fyrir frv. hér í deildinni.
    Nefndin athugaði sérstaklega hvort breyta þyrfti þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar er varða dómendur með tilliti til þess að eftir 1. júlí 1992 verða héraðsdómarar umboðsstarfalausir. Í 35. gr. laga um meðferð einkamála í héraði kemur fram að héraðsdómendum verður ekki vikið úr embætti nema með dómi. Jafnframt kemur þar fram sú regla að héraðsdómendum má veita lausn þegar þeir hafa náð fullra 65 ára aldri, enda njóti þeir óskertra kjara til 70 ára aldurs. Hins vegar gildir regla 61. gr. stjórnarskrárinnar um hæstaréttardómara. Í 8. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, sem gildi taka 1. júlí 1992, er ákvæði 35. gr. einkamálalaganna um þetta atriði tekið upp efnislega óbreytt. Löggjöfin hefur því á engan hátt gert ráð fyrir að regla stjórnarskrár um hæstaréttardómara, sem upphaflega var sett

til að vernda landsyfirréttardómara, nái til héraðsdómara og engin ástæða er til að ætla að ákvæði stjórnarskrárinnar verði túlkuð á annan hátt eftir 1. júlí 1992 en hingað til við þessa atburði.
    Hvað varðar kjörgengi héraðsdómara má með sömu rökum segja að túlkun stjórnarskrárinnar frá upphafi, að einungis hæstaréttardómarar hafi ekki kjörgengi, sé óbreytt. Ef breyta ætti túlkun á þessum ákvæðum stjórnarskrár þyrfti skýrar breytingar á henni. Af þessum ástæðum taldi allshn. ástæðulaust að breyta ákvæðum stjórnarskrár er varða hæstaréttardómara.
    Nefndin hefur farið yfir efni frv., eins og fram kom áðan þegar ég las nál., og leggur samhljóða til að það verði samþykkt eins og því var breytt í meðförum Nd.