Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Herra forseti. Formaður og frsm. hv. allshn. hefur lokið máli sínu. Hann hefur gert grein fyrir störfum nefndarinnar. Það hlaut að vera forvitnilegt að heyra hvað hann hefði að segja. Hér er ekki um neitt minni háttar mál að ræða og ekkert venjulegt. Það er hér á ferðinni frv. til breytinga á stjórnarskrá ríkisins og ekki nóg með það. Frv. sem við nú fjöllum um felur í sér eina gagngerðustu breytingu sem gerð hefur verið á stjórnarskránni í nær 120 ár, eða allt frá 1874. Og nú höfum við heyrt hvað formaður og frsm. allshn., hv. 5. þm. Reykv., hefur um málið að segja.
    Það verður ekki sagt að nál. sé þess eðlis að það beri með sér að hér sé merkilegt mál á ferðinni. Hv. 5. þm. Reykv. las upp nál., tvær setningar. Það er vissulega ekki hægt að sjá að eitthvert meiri háttar mál sé í farvatninu. Nál. ber það ekki með sér, hvorki að efni né formi til. En hv. allshn. þarf kannski ekki að vera alls varnað. Fyrir fram hljótum við að gera ráð fyrir að nefndin hafi unnið í málinu af slíkri kostgæfni og eljusemi sem hæfir. Að vísu var samt ekki hægt að draga þá ályktun af framsögu hv. 5. þm. Reykv. fyrir nál. En ekki vil ég gera hlut nefndarinnar minni en vert er. Ég vildi mega ganga út frá því að framsaga hv. 5. þm. Reykv. gæfi ekki raunhæfa mynd af störfum nefndarinnar.
    Þá ætla ég að af hæversku sinni sé hann ekkert að halda á lofti því sem honum sjálfum og nefndinni er til lofs og virðingar. Við, sem ekki eigum sæti í hv. allshn., verðum því að grípa til raunhæfra upplýsinga um meðferð málsins og hverjar eru nú þær? Frv. um breytingu á stjórnarskránni sem við nú fjöllum um barst í hendur allshn. 18. febr. Málið var fyrst tekið fyrir á nefndarfundi 27. febr. og síðan 4. mars. Þá voru þrír nefndarfundir, þar sem málið var ekki tekið fyrir, 5., 6. og 11. mars. En 12. mars er rætt um málið í nefndinni og svo að lokum 13. mars þegar það er afgreitt úr nefndinni. Í öll skiptin sem málið er til meðferðar í nefndinni eru fleiri frv. tekin til meðferðar.
    Svo er að sjá af þessu sem ég hef nú sagt frá um störf hv. allshn. að nefndin hafi ekki lagt svo mikla vinnu í athugun á frv. né kvatt kunnáttumenn í stjórnskipunarrétti til fundar við sig. Eiga slík vinnubrögð ekki síst við þegar um vandasöm og flókin mál er að ræða, svo að ekki sé talað um gagngerða breytingu á stjórnarskránni sem hér er um að tefla.
    Ég tek fram að ég vil engar brigður bera á hæfni og samviskusemi nefndarmanna í allshn. sem ég þekki ekki af öðru en öllu góðu. En ég vek athygli á störfum nefndarinnar að gefnu tilefni. Og hvert er tilefnið? Það er ekki annað en nál. og ræða formanns nefndarinnar hér áðan. Af þeirri ræðu mátti ekki merkja að vinnubrögð nefndarinnar hefðu verið eðlileg svo að ekki sé meira sagt. En ég er að láta mér til hugar koma að ekki séu öll kurl komin til grafar og ég vildi mega vona að hv. 5. þm. Reykv. lumaði á einhverju sem ætti eftir að koma í ljós. Og hvers vegna er ég að gera mér vonir? Það er yfirlýsing hv.

5. þm. Reykv. sjálfs. Við 1. umr. þessa frv. sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þegar þetta mál kemur fyrir hv. allshn. kem ég að sjálfsögðu til með að fara mjög náið ofan í breytingar sem hér eru lagðar til og kalla á aðila sem þekkja þessi mál mjög vel.``
    Svo fylgja viðurkenningarorð um mig, sem ég ætla ekki að lesa upp hér þó ég kunni vel að meta. Síðan hélt hv. þm. áfram ræðu sinni og sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En ég heiti þessari þingdeild því að þetta mál fái mjög góða meðferð í þeirri nefnd sem ég á sæti í og stjórna þannig að hér verði ekki eitthvert slys í þessa átt, því að eins og flestir vita, þá verður mjög erfitt að ganga skrefið til baka.``
    Í þessari ræðu sagði formaður hv. allshn. enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég er ekki jafnsannfærður nú eins og kannski áður að þarna sé verið að stíga skref í þá átt sem eðlilegt megi vera.``
    Nú vil ég gjarnan heyra nánar um hvers hv. 5. þm. Reykv. varð vísari þegar hann var búinn að fara mjög náið ofan í þær breytingar sem felast í frv. þessu. Ég vil mega vona að við fáum að heyra eitthvað um það. Hv. þm. gerði ekki grein fyrir því í ræðu sinni hér áðan.
    En ég er ekki viss um það hvort við heyrum meira. Það hvarflar að mér að það sé ekkert frekar að segja af störfum allshn. í þessu máli. Það er einfaldlega vegna þess að mér sýnast vinnubrögð nefndarinnar bera öll einkenni þess að enginn áhugi hafi verið fyrir því að afgreiða frv. Við könnumst öll við slíkt ástand og alvanalegt er að mál séu ekki afgreidd út úr nefnd. Það hefur ekkert með að gera óvönduð vinnubrögð sem ég vil í raun og sannleika ekki væna nefndarmenn um. Þetta mótast einfaldlega af afstöðu til mála sem hver nefnd hefur rétt til þess að móta fyrir sig. En það sem ég læt mér koma til hugar er að afgreiðsla nefndarinnar á þessu máli hafi komið til í skyndi á síðustu stundu af einhverjum ástæðum sem ég skal ekki fara út í en get samt getið mér til um. Er þetta þá velviljaðasta skýringin á því að nefndin skuli að því er virðist hafa skilað af sér málinu óunnu, óathuguðu, að meira eð minna leyti.
    En við sitjum uppi með aðeins það sem fram kemur í nál. hv. allshn. og framsögu fyrir því. Verður því ekki komist hjá að segja sannleikann umbúðalaust. Það verður að horfast í augu við staðreyndir. Hér í þessari hv. deild er þá að finna sömu vinnubrögðin í þessu máli sem einkenna allan málatilbúnað og málsmeðferð þessa frv. sem er með slíkum endemum að lengi mun minnst í annálum Alþingis.
    Við 1. umr. gerði ég grein fyrir hneykslismeðferð þessa máls. Þegar frv. þetta var til 1. umr. ræddi ég aðalatriði þess, sem er afnám deildaskiptingarinnar, og skal ég ekki endurtaka það nú. Öll önnur efnisatriði frv. annaðhvort leiðir af því að þingið verði ein málstofa eða eru hrein aukaatriði borið saman við afnám deildanna. Mér þykir samt rétt að víkja nokkrum orðum að því sem ég kalla aukaatriði.

    Í 8. gr. frv. er kveðið svo á að Alþingi standi allt árið, þ.e. frá 1. okt. til jafnlengdar næsta ár. Því er haldið fram að um veigamikla breytingu sé að ræða á störfum Alþingis þar sem það muni standa að formi til allt árið. Samt er sagt að ekki séu uppi áform um að lengja verulega starfstíma Alþingis frá því sem nú er og venja hefur skapast um á síðari árum.
Ég verð að segja að ekki liggur í augum uppi að slík breyting sem þessi sé til nokkurra bóta. Þó kann það að geta verið álitamál. Í 6. gr. eru svo lagðar til smávægilegar breytingar á orðalagi. Vegna breytts starfstíma Alþingis leiðir það af sjálfu sér og er ekkert um það að segja.
    Þá er í 6. gr. frv. að finna ákvæði um að Alþingi sé settur frestur í einn mánuð til þess að afgreiða frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum. Jafnframt er sú skylda lögð á ráðherra að leggja staðfestingarfrv. fram á fyrsta fundi Alþingis þegar það kemur saman að nýju eftir útgáfu laganna. Þá er lagt til að bráðabirgðalögin falli úr gildi ef þingið hefur ekki lokið afgreiðslu frv. innan mánaðar frá því það var lagt fram. Þessar breytingar á meðferð bráðabirgðalaga frá því sem nú er tel ég vera til bóta.
    Ég vík þá að 5. gr. frv. Þar er lagt til að stytta fresti er varða þingrof þannig að ekki megi líða nema einn og hálfur mánuður frá því að forseti Íslands gerir kunnugt um þingrof og þar til kosningar til Alþingis fara fram í stað tveggja mánaða sem nú er. Þá er jafnframt lagt til í þessari grein að ekki megi líða meira en tíu vikur frá því að þingrof er birt og þar til nýtt þing kemur saman í stað átta mánaða sem nú gildir. Ég tel að ákvæði þessarar greinar um styttingu á þeim frestum sem varða þingrof sé til bóta, jafnframt að taka fram, eins og í þessari grein segir, að alþingismenn haldi umboði sínu til kjördags.
    Þá eru ekki óeðlileg ákvæði 16. og 17. gr. frv., að fella niður að embættismenn sem á þing eru kosnir þurfi leyfi stjórnarinnar til þess að þiggja kosningu og embættismenn launi staðgengla sína meðan þeir sitja á þingi. Sama er að segja um að fella niður ákvæði um að ekki megi taka alþingismann fastan fyrir skuldir án leyfis þingsins. Í framkvæmd er hér um engar breytingar að ræða. Þessi ákvæði voru fyrir löngu orðin úrelt og var þess vegna ekki framfylgt og því sjálfsagt að færa stjórnarskrána til samræmis við veruleikann.
    Í 8. gr. frv. er sú breyting að samkomudagur Alþingis skuli vera 1. okt. í stað 10. okt. Auðvitað hefur þessi breyting enga þýðingu en er hins vegar gott dæmi um þegar breyting er gerð breytingarinnar vegna. En það eru auðvitað þær breytingar sem helst ber að varast.
    Loks er í 15. gr. frv. ákvæði um að fella niður eiðvinningu alþingismanna. Það er rétt að hún mun ekki lengi hafa viðgengist en engu að síður virðist fara betur á því að eiðvinning verði ekki útilokuð meðan við höfum þjóðkirkju í þessu landi.
    Ég hef þá lokið við að fara yfir öll eða flest ákvæði frv. sem ég hef kallað aukaatriði. Allar þessar breytingar, sem lagðar eru til, hefði eins mátt gera

án þess að tekin sé kollsteypa í skipulagi Alþingis með afnámi deildaskiptingarinnar. Þær eru því ekki í neinu sambandi við aðalatriði frv. sem er fólgið í því að gera Alþingi að einni málstofu.
    Hins vegar hefur þessi grundvallarbreyting á skipulagi Alþingis, afnám deildaskiptingar, í för með sér nauðsynlegar breytingar á þingsköpum til samræmis. Það er þess vegna rétt, sem hér hefur komið fram í umræðunni, að miklu varði hvernig fer um breytingar á þingsköpum.
    Með þessu frv. er fylgiskjal yfir drög að frv. til laga um þingsköp Alþingis. Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um þessi drög. Þar er ekki eingöngu að finna tillögur til breytinga sem leiða af afnámi deildanna heldur og breytinga sem eru óháðar og ótengdar því máli og ástæða er til að víkja sérstaklega að.
    Í 1. gr. draganna er að finna tvær breytingar. Lagt er til að þegar Alþingi komi saman við þingsetningu skuli sá þingmaður sem hefur lengsta þingsetu að baki stjórna umræðum þangað til forseti þingsins er kosinn og standa fyrir kosningu hans í staðinn fyrir að þetta annist elsti þingmaðurinn svo sem nú er. Þetta er bæði lítið mál og álitamál. Hin breytingin er að á fyrsta fundi þingsins eftir hverjar almennar kosningar til Alþingis skuli kjósa sjö þingmenn í nefnd til að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna. Er þessu ætlað að koma í stað þess sem verið hefur að þingmenn gangi eftir hlutkesti í þrjár jafnar deildir til þess að prófa kjörbréf. Sú skipan sem á þessu hefur verið hefur dugað vel og má færa rök fyrir að breytingin sem lögð er til sé ekki til batnaðar. Báðar breytingarnar samkvæmt þessari grein eru óháðar því hvort þingið er í tveim deildum eða einni málstofu og báðar má heimfæra undir breytingu breytinganna vegna sem ekki er til fyrirmyndar eins og ég áður sagði.
    Í 28. gr. draganna er lagt til að tillögur um vantraust og frestun á fundum Alþingis skuli afgreiða við eina umræðu en ekki tvær eins og nú er. Ekkert mælir gegn þessari breytingu. Hið sama verður ekki sagt um þá breytingu, sem þessi grein felur í sér, að í stað þess að nú er mælt svo fyrir að um þáltill., er fjalla um stjórnskipun, utanríkis - eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga, gildi ákvæði 36. gr. þingskapa við báðar umræður, er lagt til að setja það í vald forseta hvort svo skuli vera eða ekki. Ef þessi breyting getur haft einhverja þýðingu, sem verður að ætla að meiningin sé, er hér um takmörkun á málfrelsi þingmanna að ræða.
    Þá segir í drögunum að á eftir 30. gr. komi ný grein sem kveði svo á að þegar alþjóðanefnd leggur skýrslu fyrir þingið til umræðu skuli framsögumaður nefndarinnar gera grein fyrir henni. Hér er um óþarfa sparðatíning að ræða og því til lýta því að þetta segir ekkert annað en að áfram gildi sömu reglur um skýrslur alþjóðanefnda sem aðrar skýrslur, svo sem er og verið hefur.
    Í 31. gr. draganna er fjallað um fyrirspurnir. Þar er lagt til að heimila öðrum þingmönnum en fyrirspyrjanda og ráðherra að gera einnar mínútu athugasemd hverjum. Hér er um að ræða vafasama tilslökun frá því sjónarmiði að halda orðaskiptum sem mest milli fyrirspyrjanda og ráðherra svo að komið verði í veg fyrir almennar umræður um fyrirspurnina.
    Í 32. gr. draganna er að finna breytingu á utandagskrárumræðum skv. 2. mgr., þ.e. hinn lengri umræðutími. Nú gildir að ekki eru takmarkanir á ræðutíma, en hér er lagt til að takmarka hann verulega þannig að málshefjandi og ráðherra megi ekki tala lengur en tíu mínútur og aðrir þingmenn eigi lengur en fimm mínútur í senn. Þessi breyting er mjög varhugaverð og raunar ámælisverð. Ekki má takmarka umræðu um svo mikilvæg mál sem hér er um að ræða, en hins vegar verður forseti að gæta þess að leyfa þessar umræður utan dagskrár því aðeins að um mikilvæg mál sé að tefla.
    Í 37. gr. draganna er gerð athyglisverð tillaga. Þar segir að forseti geti leyft þingmönnum að gera stuttar athugasemdir við einstakar ræður strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill gera athugasemd bera fram ósk um það við forseta. Hver athugasemd má ekki taka lengri tíma en tvær mínútur og skal ræðumanni heimilt að svara henni á tveim mínútum. Þetta er nýjung sem ég vil mæla með, enda hefur þessi hugmynd oft áður komið til athugunar þó að ekki hafi komið að því að framkvæma hana.
    Ég hef hér vikið að nokkrum breytingum sem lagðar eru til í drögum þessum að frv. til laga um þingsköp. Þessi atriði leiða ekki af afnámi deildaskiptingarinnar og væri hægt að innleiða án tillits til þess.
    Aðrar breytingar í drögum þessum eru bein eða óbein afleiðing þess að þingið verði gert að einni málstofu. Þær breytingar ætla ég ekki að fara að ræða sérstaklega nú nema tvennt sem vert er að vekja athygli á.
    Annars vegar er 15. gr. draganna sem fjallar um nefndaskipun Alþingis. Þar fela breytingar í sér að nefndasætum er fækkað úr 143 í 108. Leiðir þetta beinlínis af því að þingið verði ein málstofa. En þetta breytir ekki því að koma má við fækkun nefndasæta ef menn telja það út af fyrir sig til bóta með breyttri nefndaskipun þó að haldið sé við deildir þingsins.
    Hins vegar vildi ég vekja athygli á 36. gr. draganna. Í 36. gr. þingskapalaga er nú að finna hina almennu reglu um málfrelsi þingmanna. Nú er í drögum sem hér liggja fyrir rofið skarð í þann varnarmúr sem þingmenn hafa haft gegn heftingu málfrelsis. Það er lagt til að þegar brýna nauðsyn beri til geti forsrh. --- ég endurtek, geti forsrh. gert tillögu um að ræðutími þingmanna sé takmarkaður við átta mínútur. Hverjum þingmanni skal þá einungis heimilt að tala einu sinni við hverja umræðu. Hér er vá fyrir dyrum og höfuðið er bitið af skömminni með því að forsrh. skuli tilkvaddur til að takmarka málfrelsi þingmanna því að það fær með engu móti samrýmst stöðu Alþingis og framkvæmd þingræðis. Þessa breytingu mætti gera án tillits til breytinga á deildaskipuninni. En sá er munur að engum mundi hafa komið þetta til hugar við þá skipun óbreytta sem nú er. Hins vegar

eru slíkar takmarkanir á málfrelsi þingmanna óhjákvæmilegar ef þingið verður í einni málstofu, --- ég endurtek, óhjákvæmilegar takmarkanir á málfrelsi þingmanna. Leiðir þetta af eðli málsins sem ég skýrði við 1. umr. þessa frv.
    Við 1. umr. í þessari hv. deild um þetta frv. virtust mér koma fram efasemdir hjá sumum, raunar flestum ræðumönnum, svo að ekki sé meira sagt. Þessar efasemdir voru um meginefni frv., afnám deildaskiptingarinnar. Yfirlýsingar hv. þingdeildarmanna um þetta efni eru þess eðlis að ekki verður komist hjá því að vekja athygli á þeim. Þannig sagði hv. 6. þm. Reykn., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En ég get ekki annað en talað hérna svolítið út frá tilfinningum og þá er mér kannski efst í huga sú spurning hvort þessi breyting, að breyta störfum Alþingis í eina málstofu, sé í raun til bóta. Hvort það verði til að einfalda störf þingsins, til þess að gera þau skilvirkari og til þess að auðvelda þingmönnum að fjalla um störf sem snúa að löggjafarstarfinu og fara fram í deildum þingsins. Þetta finnst mér vera meginatriðið og til marks um það þá hafa verið og eru miklar efasemdir í mínum huga að þarna hafi menn rétt fyrir sér. Kannski ekki síst fyrir það hvað við heyrum það oft frá þingmönnum sem hafa átt þess kost að taka þátt í störfum þingsins í báðum deildum.``
    Þetta sagði hv. 6. þm. Reykn.
    Í þessum umræðum gagnrýndi hv. 18. þm. Reykv. mjög svo réttilega ýmislegt í þinghaldinu og bætti við, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mér datt í hug að þegar hv. formenn þingflokkanna fóru að hugsa sér að breyta úr tveimur þingdeildum í eina, þá væri það fátækleg tilraun þeirra til að bæta eitthvað úr þessu. En ég er ekkert viss um að þetta sé rétt aðferð, alls ekki viss um það.``
    Þetta sagði hv. 18. þm. Reykv.
    Þá flutti hv. 8. þm. Reykv. athyglisverða ræðu og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég er ekki reiðubúinn til þess að leggja niður það deildafyrirkomulag, þá deildaskipan sem nú er, fyrr en í fyrsta lagi að frv. til þingskapalaga liggur fyrir og í öðru lagi að það sé tryggt að staða minni hlutans og stjórnarandstöðu þar með sé tryggð og jafnframt að staða einstakra þingmanna til þátttöku í málsmeðferð í þinginu verði með þeim hætti að við verði unað.``
    Þetta sagði hv. 8. þm. Reykv.
    Kem ég þá að því sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hafði til málanna að leggja í merkum athugasemdum sem hann flutti og sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég hef miklar, svo að ég segi ekki meira úr þessum stóli nú, efasemdir um ágæti þessa máls. Og ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur hefur komið fram í máli þeirra sem breytingarnar flytja eða sem breytingarnar styðja sem sannfærir mig um nauðsyn þessa máls. Ef eitthvað er sem komið hefur fram í umræðunni, þá er það hið gagnstæða.``
    Þetta sagði hv. 3. þm. Norðurl. v.
    Að lokum get ég ekki stillt mig um að vitna í

ræðu hv. 5. þm. Reykv. sem fjallaði um málið á yfirvegaðan hátt og sagði m.a.: ,,Ég er ekki jafnsannfærður nú eins og kannski áður um að þarna sé verið að stíga skref í þá átt sem eðlilegt megi vera.``
    Þetta sagði hv. 5. þm. Reykv., frsm. hv. allshn.
    Þegar ég rifja upp þessi ummæli og ýmis önnur úr ræðum manna við 1. umr. þessa frv. sem við nú fjöllum um verð ég að segja að ég ætti ekki að vera úrkula vonar um að takast megi að forða því slysi að deildaskipting Alþingis verði aflögð.
    En hvað sem öllu líður er enginn vafi á að ýmsir hv. deildarmenn bera kvíðboga fyrir því að taka það örlagaríka spor að umturna skipan Alþingis í bráðræði. Menn eru áhyggjufullir yfir því sem koma kann. Er þá mikils um vert að halda höfði og missa ekki sjónar á aðalatriðum og láta ekki aukaatriði villa sér sýn. Við 1. umr. um frv. fannst mér bregða fyrir að höfð væru hausavíxl á málinu og talað um væntanleg þingskapalög sem aðalatriði en í skuggann félli meginatriðið, sem er sjálf skipulagsbreyting Alþingis úr deildum í eina málstofu. Og mér fannst sum ummæli bera vott um hæpnar áherslur á því sem borinn væri kvíðbogi fyrir.
    Menn töluðu t.d. í þessum umræðum um nauðsyn þess að framkvæmdarvaldið eða ríkisstjórnin, hver sem hún er, gangi ekki á rétt þingsins. Látum svo vera. Lögð var sérstök áhersla á að við breytingar á stjórnarskránni verði að hafa þetta í huga og gera nauðsynlegar breytingar á þingsköpum til þess að gæta réttar Alþingis. Þetta er gott og blessað svo langt sem það nær. En að vissu leyti byggist þetta tal á nokkrum misskilningi.
    Það er rétt eins og menn átti sig ekki fullkomlega á eðli þess þingræðisskipulags sem við búum við og rugli saman við stjórnarform þar sem framkvæmdarvaldið hefur sjálfstæða stöðu gagnvart þinginu, svo sem er í Bandaríkjunum. Þar er ekki nema eðlilegt að árekstrar og togstreita sé milli löggjafarþingsins og forseta ríkisins og ríkisstjórnarinnar sem hann skipar án atbeina þingsins. Þar skiptir öllu máli að réttur þingsins megi vera sem best tryggður með sérstökum ákvæðum í stjórnarskrá og þingsköpum.
    Allt öðru máli gegnir í skipulagi þingræðisins eins og við búum við. Þar er framkvæmdarvaldið sett undir þingið og ríkisstjórnir sitja fyrir náð þingsins. Ríkisstjórn situr og fer með völd í umboði þingsins. Ríkisstjórnir eru til þess að koma í framkvæmd vilja þingsins. Slíku verkefni fylgir að vísu forustuhlutverk eins og jafnan fer saman við framkvæmdastjórn á hvaða vettvangi sem er. En það breytir ekki stöðu þingsins né hinu mikilvæga hlutverki þingsins, að halda uppi gagnrýni á ríkisstjórn hver sem hún er.
    Það er hlutverk þingsins að veita ríkisstjórn aðhald og það er grundvallarþáttur í framkvæmd þingræðisins að þetta aðhald megi vera virkt fyrir atbeina stjórnmálasamtaka eða þingflokka og umfram allt stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Öryggi eða trygging gagnvart ofríki og þjösnaskap ríkisstjórna liggur ekki í nákvæmum fyrirmælum og takmörkunum á stjórnsýsluaðferðum ríkisstjórna heldur í hinu lýðræðislega

aðhaldi þingsins með beinskeyttri og áhrifaríkri gagnrýni. Ef ríkisstjórn lætur sér ekki segjast er þrautaráðið, ef allt um þrýtur og þingið vill svo viðhafa, að það taki umboðið af ríkisstjórninni með því að samþykkja vantraust. Þingið eða meiri hluti þess ber ábyrgð á ríkisstjórn og gerðum hennar meðan hún situr og hefur ekki við aðra að sakast en sig sjálft um það sem miður kann að fara. Þetta er besta tryggingin fyrir því að ríkisstjórn gangi ekki á rétt þingsins og ákvæði þingskapalaga breyta hér litlu um.
    Við 1. umr. fór ég lið fyrir lið yfir þær ástæður sem færðar hafa verið fram fyrir aðalefni frv. þessa, afnámi deildaskiptingar Alþingis, sýndi fram á haldleysi þeirra og reifaði rökin sem mæla gegn því. Ég vek athygli á því að engar athugasemdir komu fram við mál mitt. Ég endurtek: Það komu engar athugasemdir fram við mál mitt. Þvert á móti lýstu flestir ræðumenn viðhorfum sem fóru saman við mínar ástæður fyrir því að standa gegn samþykkt þessa frv. Ég hef því ekki miklu að svara nú og raunar engu sem varðar meginatriðið, um deildaskiptinguna. Samt sem áður þykir mér hlýða, svo mikilvægt og einstætt sem þetta mál er, að rifja upp helstu atriði þess sem ég rakti við 1. umr. lið fyrir lið.
    Ég sýndi fram á að ekki eru rök fyrir þeirri fullyrðingu að með afnámi deildaskiptingar Alþingis væri verið að afmá síðustu leifar af nýlenduveldi Dana hér á landi. Enginn hefur hér í hv. deild mótmælt þessari skoðun minni.
    Ég sýndi fram á haldleysi þeirra fullyrðinga að ein málstofa geri Alþingi skilvirkara en deildaskiptingin og benti á að það væri þveröfugt. Enginn hefur hrakið rök mín og raunar ekki tjáð sig um það sem ég hafði fram að færa um þetta efni.
    Ég sýndi fram á að ekki gerist þörf á að kollsteypa skipan Alþingis til þess að koma á ýmsum endurbótum í vinnubrögðum, svo sem með breyttri nefndaskipan. Enginn andmælti þessu.
    Ég sýndi fram á mikilvægi deildaskiptingarinnar til þess að þjóðþingið gæti sem best gegnt hlutverki sínu sem löggjafi og vettvangur þjóðmálaumræðu. Enginn gerði athugasemdir við þetta grundvallaratriði málsins og þær staðreyndir að allar sambærilegar lýðræðisþjóðir hafa tvískipt þjóðþing nema Danir og Svíar sem tóku upp eina málstofu fyrir 20 -- 30 árum.
    Ég sýndi fram á staðleysu þeirrar fullyrðingar að til undantekninga heyri að frv. séu send aftur á milli deilda og gaf tölulegar upplýsingar um að þessu er þveröfugt farið svo að á sumum þingum eru allt að 30% frv. sem ganga á milli deilda. Enginn neitaði að hafa það sem sannara reynist.
    Ég sýndi fram á að ekki er allt sem sýnist í fullyrðingum um að deildaskiptingin sé í andstöðu við þá viðurkenndu grundvallarreglu í lýðræðislegum stjórnkerfum að meiri hlutinn ráði úrslitum. Ég benti á að þó að ríkisstjórn með naumum meiri hluta geti verið vandi á höndum vegna þess að vanti á meiri hluta í báðum deildum geti andhverfa slíkra ókosta, sem í undantekningartilfellum kunna að fylgja deildaskiptingu Alþingis, eins vel verið kostur sem felst í vernd

sem veitt er minni hlutanum og trygging fyrir því að naumur meiri hluti knýi ekki fram meiri háttar deilumál. En hvað sem þessu líður benti ég á að ekkert væri því til fyrirstöðu að settar séu nýjar reglur um meðferð ágreinings milli deilda svo að ströngustu kröfum um lýðræði væri fullnægt. Enginn mótmælti þessum sjónarmiðum.
    Ég sýndi fram á að aðalatriðið væri að halda við deildaskiptingunni en gera mætti breytingu á uppbyggingu og skipulagi deildanna. Enginn andmælti þessum augljósu sjónarmiðum.
    Ég sýndi fram á haldleysi annarra ástæðna sem tæpt hefur verið á, svo sem að tími ráðherra nýtist betur í einni málstofu, að málsmeðferð á Alþingi virðist óþarflega flókin í augum almennings og að kostnaður við þinghaldið muni minnka. Enginn mótmælti neinu sem ég hafði um þessi efni að segja.
    Ég er ekki að rifja þetta upp til áfellis einum eða öðrum, þvert á móti. Ég get ekki skilið þetta á annan veg en að hv. deildarmenn taki með þögninni undir þær meginástæður sem ég hef fært fram gegn afnámi deildaskiptingarinnar. Þar við bætist að fimm hv. deildarmenn af sjö, sem tóku þátt í 1. umr. málsins auk mín, lýstu beinlínis skilningi eða stuðningi við þau viðhorf sem ég hef einkum mælt fyrir í máli þessu eins og ég hef áður vitnað til. Það mætti því ætla að mér yrði að ósk minni. En við 1. umr. sagði ég að ekki væri öll nótt úti þó að hv. Nd. hefði illu heilli samþykkt frv. Þess væri að vænta að hvað sem öllu liði entist hv. Ed. ábyrgðartilfinning til að láta ógert að samþykkja þetta frv. um afnám deildaskiptingar. Þá stæði hv. Ed. vörð um sæmd og stöðu Alþingis.
    En nú höfum við fengið nefndarálit allshn. sem kemur eins og skollinn úr sauðarleggnum. Hvað er hér á seyði? Það er aðalsmerki frjálsrar umræðu að vega og meta hin mismunandi sjónarmið sem fram eru sett. En formælendur afnáms deildaskiptingarinnar halda sínu striki, hvað sem tautar, líta hvorki til hægri né vinstri og þramma beint áfram til einnar málstofu. Manni koma helst til hugar hinar átakanlegu sögur af þarfasta þjóninum forðum daga í kolanámunum með augnablöðkurnar sem byrgðu útsýn til beggja hliða. Og hér stöndum við í umræðum um mál sem með engu móti getur talist svo lítilvægt að ekki verðskuldi vandaða og gagngerða umræðu. Hér erum við að ræða það sem mikilvægast er af öllu, stjórnarskrá landsins. Og við erum að ræða eina gagngerðustu breytingu á stjórnarskránni sem nokkru sinni hefur verið gerð frá 1874. Er nema von að spurt sé hvað sé hér á seyði? Er málstaðurinn fyrir afnámi deildaskiptingarinnar svo veikur að menn skirrist við að ræða hann niður í kjölinn?
    Það má varla spyrja svona, en hvað á maður að halda? Og þetta um sjálfa efnishlið málsins. En kannski er það formhlið þessa máls eða málsmeðferðin sem gefur svar við spurningunni.
    Ég hef talað um upphlaup á móti deildaskiptingunni og haft þá sérstaklega í huga málsmeðferðina. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um það efni, hvernig gengið hefur verið fram hjá hinni lögformlegu stjórnarskrárnefnd, umboðsleysi forseta og flutningsmanna frv., undanbrögð frá viðtekinni reglu að vísa frv. til stjórnarskrárnefnda í stað fastanefnda og æðibunugang málsins gegnum þingið.
    En kannski sker mest í eyru hin æpandi þögn í þessu máli. Þegar stjórnarskrárbreytingar hafa verið í farvatninu hafa þær jafnan verið fyrirferðarmiklar í þjóðmálaumræðunni. Þær hafa þá oftast skyggt á öll önnur mál og verið aðalmál alþingiskosninga. Nú bregður svo við að farið er með stjórnarskrárbreytingu sem laumuspil og þó er þetta ein gagngerðasta breytingin á stjórnarskránni síðan 1874. Það er eins og formælendur afnáms deildaskiptingarinnar vilji fara með málið eins og mannsmorð. Þeir gera ekkert til þess að færa málið út í þjóðmálaumræðuna svo að þjóðin megi fylgjast með og glöggva sig á hvað er um að vera. Þeir túlka ekki málstaðinn né skýra. Sláandi dæmi horfðum við upp á í gær. Í eldhúsdagsumræðum var ekki eitt orð --- ég endurtek, ekki eitt orð sagt um það mál sem í raun ætti að skyggja á öll önnur mál vegna mikilvægis þess til frambúðar. Það var ekki minnst á stjórnarskrárbreytingu. Það var látið sem engu máli skipti ein mikilvægasta breyting sem gerð hefur verið frá fyrstu tíð og varðar sjálft Alþingi sérstaklega með því að kollsteypa skipulagi þess.
    Vilja menn ekki skenkja þessu athygli? Vilja menn láta þetta sem vind um eyru þjóta?
    Hv. þingmenn efri deildar. Það má vera að samsæri þagnarinnar hæfi best þeim málstað að leggja niður deildir Alþingis. En slíkt hæfir þó ekki hv. Ed. og raunar heldur ekki Alþingi í heild.