Afgreiðsla frv. um stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú biðja menn um að halda ró sinni og stillingu. Hér er verið að tala um drög að þingskapalögum og þau drög á auðvitað eftir að ræða. Það er ekki verið að samþykkja eitt eða neitt í þeim efnum. Það gefur auga leið. Þetta er bara fylgiskjal með frv. Ég get hins vegar fullkomlega tekið undir það með hæstv. menntmrh., sem óskar eftir því að menn tjái sig um ákveðna grein við 3. umr., að ég hef alveg eins og hann mjög miklar efasemdir um þessa tillögu og mun að sjálfsögðu leggja honum lið í þeirri viðleitni að þetta verði orðað á annan veg vegna þess að ég sé engin rök hníga til þess að þetta sé með þessum hætti. Ég hafði hugsað mér að gera þetta, virðulegi forseti,
við 3. umr. málsins en bið menn bara að hafa það hugfast að hér er um að ræða fylgiskjal og drög. Það er ekki verið að samþykkja drög til þingskapalaga. Við skulum bara hafa það alveg á hreinu.