Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leggja nokkur orð í belg varðandi þetta frv. Það hefur margoft komið fram, bæði í tillöguflutningi og umræðum hér á Alþingi, að við kvennalistakonur lítum á það sem réttindamál allra barna að eiga þess kost að dvelja í leikskólum. Það hefur verið mikill skortur á dagvistarstofnunum í landinu. Stjórnvöld hafa staðið sig þar ákaflega illa og ekki komið til móts við breyttar kröfur og breyttar þarfir í þjóðfélaginu hvað það varðar að hafa örugga staði fyrir börn meðan foreldrarnir sinna vinnu sinni þar sem fram fer markvisst uppeldi miðað við þroska þeirra og þarfir.
    Eins og fram kemur í nál., sem skrifað var af fulltrúa Kvennalistans í hv. menntmn. Nd., þá styðjum við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég minni á að á fyrsta þingi þessa kjörtímabils lagði ein af varaþingkonum Kvennalistans, Sigríður Lillý Baldursdóttir, fram frv. þar sem lagt var til að gert yrði sérstakt átak í uppbyggingu dagvistarstofnana, m.a. með því að stofna sérstakan sjóð sem atvinnurekendur greiddu í til þess að fjármagna uppbyggingu dagheimilanna.
    Stærsti gallinn á því frv. sem við erum hér að ræða er að fjármögnunin er ekki tryggð þannig að í raun má segja að frv. sé aðeins stefnuyfirlýsing um að nú skuli brugðist við þessum vanda og það er viðurkennt að hér sé um sérstakt skólastig að ræða sem öllum börnum ætti að standa til boða. Það er reyndar svo að réttur allra barna á þessum aldri er ekki tryggður með frv. en yfirlýsingin liggur þó fyrir um að á þessum málum skuli tekið og þau skuli heyra undir stjórnsýslu menntmrn.
    Þetta er skref í rétta átt og leggur auðvitað skyldur á komandi ríkisstjórnir um að finna leiðir til að fjármagna uppbyggingu dagvistunarheimila. Það verður auðvitað ekki gert nema með aðstoð ríkisvaldsins. Svo illa eru þessi mál á vegi stödd að það er ekki hægt að leggja það stóra verkefni á sveitarfélögin eingöngu.
    Ég vildi aðeins lýsa þessu hér, virðulegi forseti, og minna á að þetta er mikilvægt réttindamál fyrir börnin, þetta er öryggismál fyrir þau og þetta er nauðsynlegt til þess að koma til móts við þarfir þjóðfélagsins og foreldranna sem eru flestir hverjir úti á vinnumarkaðnum vegna þess að vinnumarkaðurinn hefur þörf fyrir vinnuafl bæði kvenna og karla og heimilin í landinu þarfnast tekna beggja foreldra. Enn og aftur vil ég undirstrika að það sem vantar að fylgi þessu frv. er leið til þess að fjármagna uppbyggingu dagvistunarstofnana.