Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er með þetta frv. eins og svo mörg önnur sem við erum að fá til umræðu núna þessa síðustu þingdaga og koma frá Nd., sem hefur haft tækifæri til að kynna sér þau og fjalla um, að það mun gefast harla lítið tækifæri til þess í nefndinni sem fær frv. til umfjöllunar. Ég á sæti í þeirri nefnd og þess vegna ætla ég ekki að tefja tímann með því að fara hér í langa umræðu eða umfjöllun um þessi mál. Ég get verið sammála því að það er mjög nauðsynlegt að þessi valkostur sé til fyrir foreldra, að hafa aðgang að leikskólum fyrir börn. Ég held að flestir séu sammála um að það er eitt atriði varðandi þroska barna að fá tækifæri til að vera í leikskóla þó ekki sé annað en að læra það að umgangast önnur börn og fá kennslu í þeim efnum og undirstöðuatriðum sem varða framhaldið þegar börn koma í skóla.
    Ég er ekki alveg sammála hv. 6. þm. Vesturl. þegar hún sagði að stjórnvöld hafi staðið sig illa í þessum málum. Það er ekki mín reynsla. Ég tel að það hafi verið mjög mikið gert í uppbyggingu leikskóla um allt land, ekkert síður úti á landsbyggðinni, jafnvel í litlum sveitarfélögum eða fámennum, eins og á þéttbýlli stöðum. Það er nefnilega þannig að það er oft miklu auðveldara að fylgjast með þróuninni og þörfinni á fámennari stöðum heldur en kannski einmitt í þéttbýlinu og á fjölmennari stöðum. Það er alveg rétt að auðvitað vantar kostnaðarþáttinn í þetta frv. og það er stórt atriði.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram, hæstv. forseti, og ekki tefja þetta mál frekar. Ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að fá þetta mál til nefndar svo að við getum þó aðeins spjallað um það þar, þó ekki sé nú annað, þó við fáum ekki mikið tækifæri til þess að fara ítarlega í frv.