Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni. Það er ástæða til þess þegar fram koma breytingar við mál sem hefur verið rætt hér allítarlega á fyrri stigum og þar sem skoðanir eru skiptar um afgreiðslu að það sé skýrt í hverju sú breyting felst sem hér liggur fyrir á þskj. 972.
    Ég þykist geta lesið í þetta og hér er út af fyrir sig engin smábreyting á ferðinni. Hér er um að ræða, eins og fram kemur í texta brtt., að í stað þess að krafa sé um lögheimili er það aðeins búseta sem gerð er að skilyrði. Hér er auðvitað um allt annað og veikara ákvæði að ræða í sambandi við réttindi útlendra aðila heldur en fyrir lægi ef krafist væri lögheimilis og því sem fylgir lögheimili, ef ég hef skilið málið rétt. Og er þetta í samræmi við margt fleira sem er í þessu frv. að þarna er verið að breyta miklu gagnvart útlöndum og rétti útlendinga til þátttöku í atvinnurekstri á Íslandi og þessi breyting sýnist mér hníga enn frekar í þá átt.