Vegalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. samgn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. um frv. til laga um breytingu á vegalögum. Álitið er svohljóðandi:
    ,,    Nefndin hefur fjallað um frv. á fjórum fundum. Mál þetta er endurflutt og lágu fyrir umsagnir þriggja aðila frá síðasta þingi: Félagi hrossabænda, Skipulagi ríkisins og Vegagerð ríkisins. Til viðbótar barst nefndinni umsögn frá Landssambandi hestamannafélaga.
    Þrír umsagnaraðilar, Skipulag ríkisins, Landssamband hestamannafélaga og Félag hrossabænda, mæla með því að frv. verði lögfest. Skipulagsstjóri ríkisins telur frv. ótvírætt spor í rétta átt en telur æskilegt að gera frv. ítarlegra úr garði. Vegagerð ríkisins leggur hins vegar til að ákvæði núgildandi laga haldist óbreytt, þ.e. að Vegagerðin skuli aðstoða samtök hestamanna við gerð reiðvega. Nefndin tekur undir það sjónarmið að af skipulags- og öryggisástæðum sé rétt að fela Vegagerð ríkisins að sjá um gerð reiðvega meðfram þjóðvegum, svo og um reiðvegi milli sveita eða landshluta. Í því sambandi bendir nefndin á að einnig í menningarsögulegu tilliti er æskilegt að halda við eða varðveita fornar reiðleiðir. Þá bendir nefndin á að Alþingi er nú situr hefur samþykkt ályktun um að samgönguráðherra sé falið að gera sérstaka reiðvegaáætlun í samvinnu við tiltekna aðila.
    Nefndin telur rétt að athugað verði hver eigi að vera hlutur Vegagerðar ríkisins við gerð reiðvega og hvernig haga skuli samstarfi Vegagerðarinnar, Skipulags ríkisins og sveitarfélaga í þessum málum. Með vísan til þessa leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn í hv. samgn.