Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir að taka þetta mál hér upp í þessari umræðu um þingsköp. Það var að sjálfsögðu vonum seinna að vakin væri athygli á því hér í umræðum á Alþingi að ekki hefur verið lagt fram fjáraukalagafrv. fyrir árið 1990 né heldur fjáraukalagafrv. vegna ársins 1991.
    Hæstv. fjmrh. tók upp þá nýbreytni í sínu starfi að leggja fram fjáraukalagafrv. á sama ári, þ.e. á fjárlagaári, til þess að afla heimilda Alþingis fyrir greiðslum úr ríkissjóði umfram það sem fjárlög segja til um. Jafnframt kynnti hann fyrirætlanir sem hann hefur fylgt fram undir þetta að flytja svo fljótt sem verða má fjáraukalagafrv. til þess að fá afgreidda niðurstöðu í lok fjárlagaárs og það fjáraukalagafrv. yrði flutt svo fljótt sem verða mætti á nýju ári.
    Í þessu var fólgin framför og við í stjórnarandstöðunni höfum farið viðurkenningarorðum um þessa nýbreytni í vinnutilhögun. Nú liggur það hins vegar fyrir að hæstv. fjmrh. er að bregðast algjörlega þessari nýbreytni og er á flótta frá þessari stefnu sem hann hafði sjálfur tekið upp eftir viðræður við okkur í fjvn. og samkvæmt áskorunum frá okkur um að taka upp annað fyrirkomulag í meðferð þessara mála.
    Það liggur auðvitað fyrir að fyrir alllöngu síðan hafa verið tilbúnar niðurstöður eins og fjmrn. hefur kosið að ganga frá þeim varðandi útkomu ársins 1990. Hvers vegna hefur þá hæstv. fjmrh. ekki flutt fjáraukalagafrv. þar sem þær niðurstöður væru kynntar og þær niðurstöður afgreiddar af Alþingi?
Þetta hefur hann ekki gert. Hvers vegna? Hann hefur þess í stað birt skýrslu á Alþingi og hann hefur þess í stað flutt tilkynningar, fréttatilkynningar og haldið blaðamannafundi þar sem hann hefur skýrt þessi mál í miklum áróðursstíl. Í stað þess að leggja fram fjáraukalagafrv. þar sem málin væru tekin til meðferðar í þingnefnd, þ.e. í fjvn., og hægt væri að kafa ofan í þessi mál hefur hann kosið að leggja þessi mál fram í skýrslum og í áróðurstilkynningum vegna þess að þingnefnd getur ekki farið ofan í áróðursskýrslur og getur ekki farið ofan í áróðursfundi hæstv. ráðherra. Þar liggur hundurinn grafinn.
    Ég hef krafist þess fyrir mörgum vikum í fjvn. að gengið væri eftir því að fjáraukalagafrv. væri flutt og ég veit að forustumenn fjvn. hafa gengið eftir því staðfastlega við hæstv. ráðherra, en samt sem áður hefur þetta ekki gerst. Og það liggur allt í því að hann hefur verið að kynna niðurstöður um útkomu rekstrarreiknings ríkissjóðs á síðasta ári sem eru þess efnis að þær þola ekki að skoðaðar séu í þingnefnd vegna þess að þá mundi koma í ljós að þar er mjög málum blandið. Það eru skildar eftir stórar tölur sem eru á sveimi utan við þetta uppgjör sem að réttu lagi og samkvæmt réttum bókhaldsvenjum eiga að koma inn í uppgjör ríkissjóðs til gjalda á árinu 1991. Og mér er spurn hvort ekki sé líka um bókhaldskúnstir að ræða að því er varðar tekjur ríkissjóðs til þess að fá í fréttatilkynningum útkomu úr rekstri ríkissjóðs frá síðasta ári sem geta litið betur út fyrir hæstv. fjmrh.

heldur en raunveruleikinn segir til um. Það eru þessi áróðursbrögð sem ráða því að hæstv. fjmrh. hefur kosið að leggja ekki fram fjáraukalagafrv. sem var auðvitað tilbúið fyrir mörgum, mörgum vikum.
    Í því fjáraukalagafrv. hefði auðvitað þurft að taka á því máli sem hv. þm. Árni Gunnarsson gerir hér sérstaklega að umtalsefni, en það hefði kannski ekki verið síður ástæða til þess nú fyrir þinglok að flytja fjáraukalagafrv. einnig vegna ársins 1991 þar sem tekið væri á málum ríkisspítalanna og ýmsum öðrum þeim málum sem sýnilega lenda í vandræðum.
    Ég sem sagt tek undir kröfur og óskir hv. 3. þm. Norðurl. e. um að þetta verði gert þó að mér sýnist að nú sé hlaupinn tíminn. Það er auðvitað alveg farið aftan að siðum og er brot á þeim venjum sem við höfum verið að reyna að móta að hæstv. fjmrh. fari nú að bera það upp í ríkisstjórninni að leita þar heimilda fyrir því að ákveða greiðslur til ríkisspítalanna og til annarra verkefna á þessu ári í trausti þess að það verði síðar einhvern tímann á þessu ári afgreitt af hinu háa Alþingi. Þetta er stríðir alveg þvert gegn þeim venjum sem við höfum verið að reyna að móta og það er auðvitað í samræmi við þessi vinnubrögð öll sem hér hefur verið tafið mánuð eftir mánuð að afgreiða frumvarp okkar fjárveitinganefndarmanna um greiðslur úr ríkissjóði.
    Og þó að ég hafi átt gott samstarf við ýmsa starfsmenn fjmrn. og ríkisreikningsnefndar um það mál, þá eru auðvitað fingraför hæstv. ráðherra á þessu háttalagi öllu með þeim hætti að hann er að koma sér hjá því að flytja þetta mál hér í þinginu til þess að geta komið við þeim áróðursbrögðum sem hann beitir þegar hann er að lýsa stöðu þessara mála í fjölmiðlum og í skýrslum og fréttatilkynningum sem, eins og áður sagði, þingið sjálft getur ekki farið ofan í.