Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Í þessari þingskapaumræðu um fjáraukalög eða gerð fjáraukalaga ætla ég aðallega að halda mig við þann þátt málsins sem málshefjandi, hv. þm. Árni Gunnarsson, nefndi í sínu máli, þ.e. stöðu ríkisspítalanna. Vissulega er það rétt að við fjárlagagerðina fyrir áramótin voru málefni ríkisspítala og reyndar fleiri sjúkrahúsa allmikið til umræðu og ákveðin ummæli formanns fjvn. þess eðlis að við höfum gert ráð fyrir því, þeir sem hafa farið með stjórn þess málaflokks, að á því yrði tekið frekar, fjármálum þessara stofnana, þegar fjáraukalagagerð hugsanlega kæmi til meðferðar hér á þinginu.
    Fyrir nokkru síðan hafa komið upplýsingar frá ríkisspítulum um stöðu mála, bæði hvað varðar uppgjör seinasta árs og eins horfurnar á þessu ári og fjárveitingar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1991 og ég hef átt fund með fulltrúum ríkisspítalanna þar sem þessi mál hafa verið til umræðu og hvernig að því yrði staðið. Það er rétt eins og fram kom hjá hv. málshefjanda að rætt er um fjárvöntun fyrir sl. ár upp á 129 millj. af hálfu ríkisspítalanna. Við höfum nú litið yfir það og tökum í heilbrrn. undir suma þá liði eða þær óskir eins og t.d. hvað varðar endanlegt uppgjör á launalið og uppgjör á sértekjum miðað við það sem fjárlög fyrra árs gerðu ráð fyrir. Annað er til frekari athugunar eins og t.d. sérstök viðhaldsverkefni, en ég tel ekki að þessi umræða hér um þingsköp sé þess eðlis að fara ofan í þau mál í smáatriðum. En eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. er það meiningin að við fjöllum um þetta, förum yfir málið sameiginlega og reyndar voru málefni ríkisspítala á dagskrá ríkisstjórnarfundar sem átti að vera í morgun en var því miður frestað vegna þinghalds hér svo að það mál kemur þá upp aftur á næsta ríkisstjórnarfundi og síðan þá væntanlega til frekari úrlausnar og úrvinnslu þessara tveggja ráðuneyta, fjmrn. og heilbr. - og trmrn.
    Varðandi hins vegar fjárveitingar fyrir árið í ár og stöðu spítalanna hvað það varðar, þá vil ég minna á það að í fjárlögunum er sérstakur fjárlagaliður þar sem um er að ræða fjárveitingar til sjúkrahúsanna í Reykjavík, óskiptur, og ætlaður til umfjöllunar sérstöku samstarfsráði sjúkrahúsanna. Því miður hefur dregist allverulega að skipa það ráð, en Alþingi samþykkti rétt fyrir áramót lög um starfssvið þess og vettvang. Sá dráttur stafar af því að það hafa ekki borist tilnefningar frá öllum aðilum sem eiga að tilnefna fulltrúa í þetta samstarfsráð fyrr en núna fyrir örfáum dögum síðan og það ráð mun verða kvatt saman til fundar næstu daga, endanlega gengið frá skipun þess og það kvatt saman næstu daga og getur þá fjallað um endurskipulagningu og samstarf þessara þriggja sjúkrahúsa, ríkisspítala, Borgarspítala og Landakotsspítala, og þá hvernig staðið verður að úthlutun þess fjármagns sem þar er um að ræða, þannig að mér sýnist að það sé mál sem verði að taka til umræðu síðar og ekki tilefni til þess að fjalla um þær

fjárveitingar á þessu stigi eða þann vanda sem ríkisspítalar hafa þó stillt upp varðandi árið í ár. Við erum fyrst og fremst að fjalla um einhverja tugi ef ekki hundrað milljónir kr., sem kunni að vanta vegna uppgjörs á seinasta ári og ég vil aðeins undirstrika það sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. að þau mál verða tekin til umfjöllunar alveg næstu daga og ætti þá að vera eytt óvissu í framhaldi af því sem stjórnarnefnd ríkisspítalanna og stjórnendur þar búa við nú í augnablikinu.