Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Sú þingskapaumræða sem ég hóf var afmörkuð og bundin við þá yfirlýsingu sem hv. formaður fjvn. gaf hér á Alþingi 13. des. sl. og tengist málefnum ríkisspítalanna og við það ætla ég að halda mig og innan þess ramma sem fellur undir þingsköp.
    Vegna þess sem hér hefur komið fram langar mig til að benda á það að verði niðurstaðan sú úr starfi nefndar eða fulltrúa heilbr. - og trmrn. og fjmrn. um vanda ríkisspítalanna að lagt verði til við ríkisstjórnina að þessi vandi verði leystur með framlögum, þá þarf stjórn ríkisspítalanna að fá um það vitneskju þegar í stað einfaldlega vegna þeirra sparnaðaraðgerða sem þurfa að fara í gang. Vegna samdráttar í rekstri, miðað við óbreyttar rekstrartölur ríkisspítalanna, þarf að gera ráðstafanir þegar í stað til þess að hefja þær þannig að það má ekki bíða. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. geri stjórn ríkisspítalanna grein fyrir því að vandi þeirra verði leystur, það verði tryggt.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, þakka hæstv. fjmrh. þau svör sem hann gaf, en ítreka það að þessi vandi blasti við þegar 13. des. þegar formaður fjvn. flutti sína ræðu þannig að það hefur verið vitað í alllangan tíma hvaða staða kæmi upp. Það er svo aftur annað mál að hv. Alþingi þyrfti fyrr en síðar að ræða það í mikilli alvöru hvaða stigi heilbrigðisþjónustu menn ætla sér að halda uppi hér á landi á næstunni og þá að gera sér grein fyrir því hvað sú heilbrigðisþjónusta kostar.