Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Pálmi Jónsson hefur notað þessa umræðu til þess að koma hér með sínar hefðbundnu dylgjur í garð fjmrh., að túlka allt á hinn versta veg og gera mönnum upp annarleg mótív og annað af því tagi sem maður er nú svo sem orðinn vanur úr þessari mjög svo málefnalegu umræðu Sjálfstfl. um ríkisfjármál, flokksins sem skildi allt eftir sig í skúffum í fjmrn., hafði trassað árum saman að leggja fram nauðsynleg frumvörp.
    Öllum þingmönnum er væntanlega ljóst að þetta þinghald er með afbrigðilegum hætti, þinginu er að ljúka hér tveimur til þremur mánuðum fyrr en venja er og ég vil minna á það að þau fyrri fjáraukalög sem afgreidd voru hér á þinginu í fyrra voru afgreidd í maí, ef ég man rétt, um það bil tveimur mánuðum eftir að fjmrh. lagði þau inn í þingið þannig að það tók fjvn. um það bil tvo mánuði að afgreiða þau fjáraukalög. Ég er ekkert að gagnrýna það. Ég er bara að vekja athygli á þessari staðreynd.
    Það er því nokkurn veginn ljóst að miðað við þessa hefðbundnu hætti var mjög hæpið að það þjónaði yfir höfuð nokkrum tilgangi að fara að koma með fjáraukalagafrv. fyrir árið 1991 í febrúarmánuði. (Gripið fram í.) Ég kem að 1990 á eftir, hv. þm. Ég er fyrst að tala um 1991 sem líka hefur verið gagnrýnt hér í umræðunni. Þá hefði það þjónað litlum tilgangi að koma með það í febrúarmánuði hér inn í þingið vegna þess að ég vænti þess varla að fjvn. hafi ætlað sér bara að stimpla frv. á svona viku eða svo miðað við það að fjvn. hefur yfirleitt tekið tvo mánuði í að afgreiða fjáraukalagafrv. Þess vegna er það lengi búin að vera mín skoðun, og sem ég hef lýst bæði í ríkisstjórn og í viðræðum við þingflokka og fjárveitinganefndarmenn, að það væru eðlileg vinnubrögð að þing kæmi hér saman að loknum kosningum, og ég fagna því að formaður fjvn. tekur undir það sjónarmið, og þá muni sú ríkisstjórn sem þá situr flytja fjáraukalagafrv. í samræmi við þá stefnu sem hún hefur markað. Það er líka miklu eðlilegra fyrir margra hluta sakir. Þá hefði bara nákvæmlega sami háttur verið hafður á í ár eins og í fyrra varðandi fjáraukalög fyrir árið 1991.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson varði hins vegar mestum hluta ræðu sinnar til þess að gera það tortryggilegt í einhverjum glæpareyfarastíl, sem honum er einum lagið í umræðum um ríkisfjármál, að það sýndi hvers konar mann fjmrh. hefði að geyma að hann væri ekki búinn að leggja fram fjáraukalagafrv. fyrir 1990 og ástæðurnar væru tilraunir til blöffs, leyndar, fjölmiðlakúnsta og ég veit ekki hvað og hvað. Og það var gefið til kynna hér í umræðunum að fjárveitinganefndarmenn hefðu sífellt verið að rexa í fjmrh. um að þetta frv. yrði lagt fram. Það er nú ekki rétt. Ég held að það séu nokkrir dagar síðan formaður fjvn. ræddi þetta mál við mig og það er enginn ágreiningur milli mín og formanns fjvn. um það atriði. Hitt er staðreynd málsins að vegna mikilla anna í fjmrn. hefur þeim starfsmönnum sem gegna lykilhlutverki í að

ganga frá þessu frv. ekki gefist tími til þess að ljúka allri tæknilegri vinnu við málið. Sannleikurinn er nú svona einfaldur. En ef hér í þingsölum er verið að segja það beint út að það sé af pólitískum ástæðum að fjáraukalagafrv. fyrir 1990 hefur ekki verið lagt fram, þá fer ég hér með formlega fram á það að fjvn. verði kölluð saman til fundar, þar mæti ráðuneytisstjórinn í fjmrn. og þeir skrifstofustjórar í fjmrn. sem hafa með þetta mál að gera og geri fjvn. nákvæma grein fyrir því hvernig að þessu verki hefur verið unnið vegna þess að það er tilhæfulaust með öllu að ég hafi sem ráðherra lagt það til eða stuðlað að því að þetta frv. kæmi seinna fram heldur en fagleg vinna í fjmrn. leyfði í þessu máli. Þvert á móti hef ég verið að knýja á um það í fjmrn. að þessari vinnu yrði hraðað. En það er nú einfaldlega þannig, þrátt fyrir það að sumum finnist mannskapurinn vera fjölmennur í fjmrn., og ég veit að fjárveitinganefndarmönnum er það kunnugt að það er tiltölulega fámennur hópur manna sem sinnir lykilverkum af þessu tagi, og miðað við aðrar annir sem á þeim hópi hafa verið síðasta mánuð eða svo, m.a. vegna þess að menn eru að ljúka hér þingi fyrr en ella, hefur þeim ekki tekist að ljúka sinni vinnu.
    Og vegna þess að ég reikna með að hv. þm. Pálmi Jónsson haldi áfram uppteknum hætti að byggja allan sinn málflutning um ríkisfjármál á ómerkilegum áróðursplötum, þá fer ég formlega fram á það að fjvn. komi saman til fundar og embættismenn fjmrn. fái tækifæri til þess að gefa fjvn. nákvæma skýrslu um það hvar þessi vinna er á vegi stödd og hvaða orsakir liggja þarna að baki. Því ég ætla ekki að sitja undir því hér á Alþingi eða á næstunni að ég hafi af pólitískum ástæðum verið að tefja það að þetta frv. yrði lagt hér fram. Það er alrangt. Það er gjörsamlega tilhæfulaust. Ég hef þvert á móti tamið mér þau vinnubrögð umfram aðra fjármálaráðherra að hafa forgöngu um það að leggja öll mín plögg á borðið og koma með mín mál inn í þingið eins fljótt og unnt er, um leið og þau hafa verið tæknilega tilbúin, en það hafa fjármálaráðherrar Sjálfstfl. aldrei gert. Og heyrðist þá ekki nokkur gagnrýnisrödd hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, þá var hann ánægður með það kerfi. Þannig að þetta er náttúrlega í hæsta máta ódrengilegt og ósvífni að koma hér með getgátur af þessu tagi í trausti þess að þjóðin taki mark á hv. þm. Pálma Jónssyni af því að hann hefur lengi starfað á þessum vettvangi.
    Ég vona þess vegna að formaður fjvn. geti fundið tíma á þessum sólarhring eða þeim næsta til þess að starfsmenn fjmrn. fái tækifæri til að gera fjvn. grein fyrir þessu. Ég er einnig reiðubúinn til þess að senda frv. þingmönnum í fjvn. á næstu dögum eða vikum, um leið og það verður tilbúið. Ég er tilbúinn til þess að þeir fái allan aðgang, flokkarnir hér á Alþingi, að þessu frv. eins og þeir vilja í allri kosningabaráttunni. Ég er ekki að leyna hér einu eða neinu og sit ekki undir dylgjum af því tagi sem hér komu fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni. Sjálfstfl. getur fengið allan aðgang að þessu verki sem hann vill. Allan. Komið þið bara með mennina og þið getið fengið allan aðgang

að þessu verki. (Gripið fram í.) Hv. þm. Friðrik Sophusson, ég sagði það hér áðan að vegna anna starfsmanna fjmrn. hefði ekki tekist að ljúka tæknilegum atriðum varðandi þetta frv. Það eru engar pólitískar ástæður á bak við það en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á starfsmenn ráðuneytisins. Það eru takmörk fyrir því. Ég harma það hins vegar að hv. þm. Pálmi Jónsson skyldi notfæra sér það að hér var verið að ræða um mjög afmarkað mál til þess að fara að spila þessar áróðursplötur Sjálfstfl. hér í þessum umræðum um þingsköp.
    Hér með liggur það fyrir. Ég óska eftir fundi í fjvn. um málið. Ég óska eftir því að Sjálfstfl. tilnefni menn til þess að fara yfir fjáraukalagafrv. fyrir 1990. Sjálfstfl. mun fá allan aðgang að því sem og aðrir flokkar.
    Varðandi vanda ríkisspítalanna vil ég aðeins geta þess, vegna þess að það var líka verið að ýja að því hér að við í heilbrrn. og fjmrn. hefðum eitthvað dregið lappirnar í þessu máli, að það eru aðeins rúmar þrjár vikur síðan greinargerð kom frá ríkisspítulunum um það hvernig málið væri vaxið. Og það var talið eðlilegt eins og venja er að heilbrrn. og síðan fjmrn. færu yfir þá útreikninga og skoðuðu þá mjög rækilega eins og við gerum samkvæmt venju. Það er líka fullkomlega eðlilegt í samræmi við þau vinnubrögð sem við höfum tekið upp í ríkisfjármálum að ríkisstjórn móti síðan sína afstöðu um það hvað hún muni leggja til í fjáraukalögum og þingið taki síðan afstöðu til þess, m.a. af þeirri ástæðu að innan gildandi fjárlaga eru fullkomnar greiðsluheimildir fyrir ríkisspítalana til að brúa það mánaðabil sem hér er fram undan.
    Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki meira um þetta mál að segja. Að því einstaka máli, sem hv. þm. Árni Gunnarsson tók hér til meðferðar, verður unnið með eðlilegum hætti. Forustumenn ríkisspítalanna geta treyst því að niðurstaðan í því máli muni liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar innan tíðar og málið verður síðan lagt endanlega fyrir Alþingi. Stjórnarmenn ríkisspítalanna munu fá með formlegum hætti að vita niðurstöðu ríkisstjórnarinnar og við getum í sameiningu haldið þannig áfram þeirri reglu sem við höfum komið á í þessum málum þannig að öllum þeim skilyrðum sem við höfum innleitt varðandi meðferð ríkisfjármála verður fylgt í þessu máli. Svo bíð ég eftir því að Sjálfstfl. sendi mennina.